Flugger
Flugger

Íþróttir

Naflaskoðun í kjölfar erfiðleika opnaði augun
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 9. september 2023 kl. 06:15

Naflaskoðun í kjölfar erfiðleika opnaði augun

„Hvað er árangur?“ spyr Óli Stefán Flóventsson, knattspyrnuþjálfari. Er að þróa leið til uppbyggingar á íþróttaliði frá a til ö. Hefur verið með hlaðvarp um alkóhólisma.

Óli Stefán er Grindvíkingur sem byrjaði snemma að spila fótbolta og átti farsælan feril sem leikmaður. Snemma á ferlinum fékk hann áhuga á þjálfun og hefur starfað við hana síðan leikmannaferlinum lauk. Eftir að hafa þurft að taka pokann sinn í kjölfarið á erfiðleikum, og farið nokkuð mikið niður andlega, opnuðust þjálfaraaugun upp á gátt og í dag sér Óli Stefán þjálfun talsvert öðruvísi. Segja má að hluti ástæðunnar sé ferðalag Óla í gegnum edrúmennsku en eftir að hafa gengið til liðs við AA samtökin eftir erfiðleikana, hóf Óli hlaðvarp um alkóhólisma sem vakið hefur athygli.

Þjálfunarferill Óla Stefáns hófst árið 2010 þegar hann réði sig sem spilandi þjálfara Sindra á Hornafirði en konan hans er þaðan. Eftir fimm tímabil, þar sem Sindri fór upp um tvær deildir og endaði ofarlega í þriðju efstu deildinni á Íslandi, kom kallið frá Grindavík. Eftir eitt ár sem aðstoðarþjálfari tóku við þrjú ár sem aðalþjálfari Grindavíkur og fór liðið upp í efstu deild á fyrsta árinu, endaði í fimmta sæti árið 2017 og svo í tíunda sæti árið eftir, eftir að hafa verið í fjórða sæti eftir fyrri umferðina. Óli færði sig þá norður og tók við KA, stýrði liðinu í fimmta sæti á sínu fyrsta tímabili árið 2019 en svo fór að síga á ógæfuhliðina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Óli Stefán skýrði út hvernig fjaraði undan honum og hvernig líf hans tók nýja stefnu. „Allan tímann sem ég þjálfaði í Grindavík og á Akureyri bjó fjölskyldan mín á Hornafirði. Þetta reyndi vissulega á en við ákváðum að svona vildum við hafa hlutina. KA náði sínum besta árangri í langan tíma fyrra tímabilið mitt en á því seinna skall Covid á og það breytti forsendunum hjá KA mjög mikið. Ég gat ekki styrkt liðið eins og ég vildi auk þess sem lykilmenn glímdu við meiðsli svo undirbúningstímabilið var mjög erfitt. Það bætti líka ekki úr skák að á einu af mörgum ferðalögum mínum milli Akureyrar og Hornafjarðar lenti ég í snjóflóði í Hvalnesskriðum. Þar mátti litlu muna að illa færi því flóðið tók bílinn yfir að vegriði þar sem hann stöðvaðist, tveimur metrum lengra væri fall 50 metra þverhnýpt niður í fjöru. Þetta áfall reyndi mikið á mig, ég svaf ekki í nokkra sólarhringa, varð fárveikur í kjölfarið með mikinn hita og náði mér í raun aldrei almennilega á strik eftir þetta. Eftir sex leiki þar sem útkoman var þrjú töp og þrjú jafntefli var ég rekinn og fór heim á Hornafjörð þar sem ég upplifði sumarfrí í fyrsta sinn á ævinni. Ég fór í ansi mikla naflaskoðun þetta sumar, gat horft til baka og sá hvað ég hafði í raun verið að nálgast þjálfunina á röngum forsendum. Ég kláraði UEFA pro þjálfaranámskeið í Noregi í ársbyrjun 2020, í því námi er komið mjög mikið inn á andlega þáttinn. Það var t.d. sláandi að sjá að skilnaðartíðni þjálfara í tveimur efstu deildunum í Noregi var um 70%. Skýringin lá mikið til í því að vinnan heltekur þjálfarana og það verða engin mörk á einkalífi og vinnu. Út frá svona dýpri og manneskjulegri pælingum fór ég hugsa þjálfunina – og aðra hluti líka.“

Skraut Bakkusar

Naflaskoðunin færði Óla inn á nýjar brautir. „Ég fór að stunda AA fundi á fullu þetta sumar 2020, ég hafði hætt að drekka tólf árum fyrr án þess að fara á neina fundi eða vinna í batanum. Þetta gjörbylti má segja lífi mínu, ég fór sömuleiðis að hitta sálfræðing og upp frá þeim tímum vöknuðu grunsemdir um ADHD. Ég fór í greiningu sem staðfesti gruninn og á svipuðum tíma var ég byrjaður í tólf spora kerfinu. Margir misskilja tólf spora kerfið, halda að það sé einungis fyrir alkóhólista en ég vil meina að þetta kerfi sé mannbætandi fyrir alla sem vilja vera betri manneskja. Það má segja að líf mitt hafi tekið ákveðnum straumhvörfum á þessum tíma. Ég hafði lengi gengið með í maganum að vera með hlaðvarp, flestar pælingarnar sneru að hlaðvarpi um þjálfun, sem var nánast tilbúið, en ég endaði svo á að gera hlaðvarp um alkólisma, Skraut Bakkusar. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið í mínum bata og ég veit til þess að fólk hafi leitað sér hjálpar og farið í meðferð eftir að hafa hlustað. Þetta gefur mér mjög mikið og ég veit að sú reynsla sem ég hef sankað að mér í gegnum Skraut Bakkusar, ásamt tólf spora kerfinu og boðskap AA samtakanna, hefur opnað mér nýja sýn á aðra þætti þjálfunar sem nær dýpra en úrslit í næsta leik. Þjálfun er nefnilega svo miklu meira en bara leikfræði inni á vellinum, ég tala nú ekki um þegar verið er að tala um ungmenni,“ segir Óli.

Þegar Óli kom heim á Hornafjörð þetta sumar 2020, vöknuðu fljótt pælingar með að hann myndi taka við Sindraliðinu eftir það tímabil. Hann lagðist yfir það og fann að hann var tilbúinn í það en samt á allt öðrum forsendum heldur en í fyrra skiptið þegar hann hóf þjálfaraferilinn.

„Þá snerist allt um sigur í næsta leik, núna vildi ég í raun taka utan um allt starfið og byggja félagið upp innan frá. Við fórum í mikla vinnu og skilgreindum félagið má segja upp á nýtt. Út frá hvaða gildum viljum við vinna? Hvað er okkar árangur? Ég vildi líka gjörbreyta liðskúltúr þannig að við færum að horfa í aðra þætti eins og framkomu, bæði innan sem utan vallar, og umgengni. Út frá þessari vinnu varð til Sindra-leiðin, sem hefur verið í stöðugri þróun allar götur síðan.“

Óli Stefán hefur haldið kynningu fyrir sveitarfélagið og hana sátu m.a. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Ívar Ingimarsson, fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu, en hann er stjórnarmaður KSÍ. Bæði voru þau yfir sig hrifin og hafa bent minni liðum úti á landi á þessa Sindra-leið sem Óli kallar líka Okkar leið. Óli hefur haldið kynningu fyrir nokkur lið og önnur bíða.

Óli Stefán hélt áfram að fara yfir byrjunina á þessum öðrum kafla sínum í þjálfun hjá Sindra. „Ég vildi líka taka þátt í að byggja yngri flokkastarfið upp, það hafði ekki verið gert nógu markvisst að mínu mati. Ég vildi búa til rauðan þráð í gegnum allt starfið, þjálfarar væru allir að þjálfa í samræmi við ákveðna Sindra-kennsluskrá. Þetta væri unnið út frá fyrirfram skilgreindum árangri Sindra sem unnið væri út frá réttum forsendum. Þannig fórum við að vinna út frá því hvernig við vildum að Sindra-leikmaður ætti að vera, bæði inni á velli en ekki síður utan hans. Ég vil meina að þetta hafi gengið mjög vel, sem dæmi þá er það þannig að strax þegar komið er upp í fjórða flokk, þar sem leikið er á stórum velli, læra börnin þau grunnatriði í leikfræði sem þarf að kunna þegar komið er upp í meistaraflokk félagsins, leikfræðileg Sindra-prinsipp. Í sumar höfum við svo tekið á móti fimmtán og sextán ára leikmönnum upp í meistaraflokk sem kunna þessi Sindra-prinsipp okkar. Þannig hef ég séð uppskeru vinnu okkar síðustu þrjú ár skila sér,“ segir Óli.

Út fyrir boxið

Sindri þurfti að fara nýjar leiðir sökum fámennis en erfitt er að halda úti flokkum og því var ákveðið að prófa að sameina æfingar á milli kynja. Fimmti flokkur drengja var t.d. settur í hóp með fjórða flokki stúlkna, ýmsar svona hrókeringar voru gerðar í gegnum alla flokka. Þar með urðu æfingarnar mun betri og markvissari sem allir nutu góðs af, bæði stelpur og strákar. Sindri hefur verið að sjá krakka skila sér í yngri landsliðin sem gefur til kynna að félagið sé á réttri braut. Óli og Sindri hafa fundið út nýjar leiðir í starfi sínu. „Dæmi um að þurfa að hugsa út fyrir boxið í okkar starfi er að í einum tíu manna hópi hjá okkur getur verið mikill getumunur, byrjandi á móti mjög tæknilega góðum leikmanni í sama hópi. Þannig sá ég fljótlega að nýliðinn varð óvirkur í spili á æfingu, kom nánast aldrei við boltann í leik og ef hann fékk boltann, tapaðist hann. Upp úr því bjó ég til svokallað „frísvæði“. Þar eru byrjendur en þeir fá þá tveggja metra radíus þar sem ekki má fara inn og taka boltann af honum. Þannig hefur hann tíma til að meta leikinn „í umferð“ og losa sig við boltann. Það er margt svona sem hugsa þurfti upp á nýtt út frá okkar forsendum og það er Sindra-leiðin í hnotskurn.“

Meistaraflokkur Sindra var í 3. deild þegar Óli Stefán tók við. Fyrsta árið var liðið í toppbaráttu fram að síðustu umferð en fór ekki upp þá. „Við unnum síðan deildina í fyrra. Því miður kom svo upp fjármálaóreiða í félaginu sem gerði það að verkum að við þurftum að skera mikið niður. Niðurskurðurinn hefur haft mikil neikvæð áhrif á umgjörð og leikmannamál liðsins en úr liðinu sem vann 3. deild í fyrra hafa átta leikmenn horfið á braut en tveir komið inn. Róðurinn í annarri deildinni hefur því verið nokkuð erfiður í sumar en á móti hef ég notað mjög unga leikmenn sem hafa þurft að læra hratt og þannig styrkt framtíðarkjarna Sindra á undan áætlun ef svo má segja. Ef við höldum okkur uppi í annarri deild á þessum forsendum, verður það með mínum stærri afrekum sem þjálfari myndi ég segja. Ef við hinsvegar náum því ekki þá horfi ég alls ekki á það sem mistök, heldur mikilvægt þroskaskref í átt að okkar árangri,“ segir Óli.

Reiknisdæmið gengur ekki upp

Óli Stefán klárar þriggja ára samning sinn í haust og óvíst er með framhaldið. „Ég veit satt best að segja ekki hvað ég geri. Þetta tímabil hefur verið ofboðslega erfitt og reynt mikið á, ekki síst vegna fjárhagsstöðu félagsins. Það má ekki gleyma að það kostar félagið tugi milljóna bara að fá að vera með, ferðakostnaðurinn okkar er svo hár. Það eru minnst rúmir 200 kílómetrar aðra leiðina í útileik hjá okkur og um 500 kílómetrar ef leikir eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Við þurfum oftast að ferðast degi fyrr, redda gistingu, svo það gefur auga leið að við sitjum ekki við sama borð og aðrir, því þarf að breyta. Reiknisdæmið gengur bara ekki upp hjá okkur og innviðirnir svelta hreinlega vegna kostnaðarliða sem fylgja því að fá að vera með.“

Fyrrnefndur Ívar Ingimarsson er að vinna að mjög flottu verkefni en Ívar er frá Stöðvarfirði. Hann talar mikið um „kjarnasvæði“ fótboltans, það þýðir að knattspyrnufélag þarf að geta komist í góða aðstöðu allt árið um kring innan 100 kílómetra. Höfuðborgarsvæðið er eitt kjarnasvæði, Vestfirðirnir eitt o.s.frv. Hornafjörður er eitt kjarnasvæði samkvæmt þessari skilgreiningu, vegna fjarlægðar við aðra kjarna. Ívar bendir á að ríki og sveitarfélög þurfi að tryggja þessum kjarnasvæðum aðstöðu til að geta æft og keppt sína keppnisgrein nærri heimabyggð. Hornafjörður er með hálft knattspyrnuhús sem Skinney Þinganes lét reisa með glæsibrag árið 2012 en Sindra sárvantar gervigrasvöll í fullri stærð til að falla undir þessa skilgreiningu Ívars um kjarnasvæðin. Þannig myndi ferðalögum Sindra yfir u.þ.b. átta mánaða tímabil fækka því félaið gæti spilað sína heimaleiki á Hornafirði allt árið um kring.

Þessi ferðalög taka á segir Óli. „Sérstaklega eru ferðalög í heimaleiki að heiman, mjög lýjandi, svo ekki sé talað um aukakostnaðinn. Sem dæmi fengum við heimaleik á móti Hetti/Huginn í bikarkeppni KSÍ í apríl. Grasið var auðvitað ekki klárt þannig að við þurftum að finna völl fyrir leikinn. Úr varð að við leigðum Fjarðabyggðarhöll sem er á Reyðarfirði, 250 kílómetra frá Höfn. Við þurftum því að ferja tuttugu manna hóp og tíu starfsmenn í kringum leikinn austur. Í bikarkeppni KSÍ þarf að greiða aðkomuliði helming ferðakostnaðar þannig að við áttum að greiða Hetti/Huginn helming af þeim 30 kílómetrum sem tekur að keyra frá Egilsstöðum yfir á Reyðarfjörð en sjá að fullu um okkar 250 kílómetra ferðalag. Kostnaðurinn, sem var um 400.000 krónur við þennan heimaleik að heiman, lenti allur á knattspyrnudeild Sindra. Við sóttum um styrk frá sveitarfélaginu vegna þessa en þeirri beiðni var hafnað.“

Til að átta sig betur á þessu álagi við ferðalögin þá ók meistaraflokkur karla um 16.300 km í leiki árið 2022 og miðað við 90 km/klst meðalhraða þá tók það hópinn 218 klukkustundir og 38 mínútur. „Það jafngildir rúmlega fimm 40 tíma vinnuvikum í bíl. Þess vegna vil ég sjá sveitarfélagið beita sér í þessa átt, það mun breyta forsendum Sindra gífurlega og jafna stöðu okkar gagnvart flestum öðrum knattspyrnufélögum sem geta æft og keppt allt árið um kring í nærumhverfi sínu.“

Óli veltir því fyrir sér hvort hann taki sér bara frí frá þjálfun. „Þegar ég byrjaði með Skraut Bakkusar var ég með pælingar um þjálfara-/leiðtogahlaðvarp, kannski bæti ég því við. Ég hef verið að hitta aðra þjálfara í sumar í því sem ég kalla Leiðtogaspjall. Ég hef meðal annars hitt þá Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, og Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings, ásamt fleiri góðum leiðtogum. Tilgangurinn er að dýpka skilning minn á þjálfun og stjórnun, sem hefur svo sannarlega tekist og hugsanlega geta viðmælendur mínir pikkað eitthvað upp frá mér á móti. Það er svo gott að opna augu sín, maður getur alltaf lært af öðrum, óháð aldri, reynslu eða stöðu,“ sagði Óli Stefán að lokum.