Íþróttir

Miklar framfarir og breidd í sundhópnum
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
sunnudaginn 28. nóvember 2021 kl. 11:47

Miklar framfarir og breidd í sundhópnum

Kátir sundþjálfarar að loknu Íslandsmeistaramóti

Íslandsmeistaramótið í 25 metra sundlaug gekk mjög vel hjá ÍRB um þarsíðustu helgi. Tuttugu og þrír þátttakendur voru frá ÍRB að þessu sinni og voru flestir að bæta sig mjög mikið. Að því tilefni hitti blaðamaður Víkurfrétta sundþjálfarana Steindór Gunnarsson og Eðvarð Þór Eðvarðsson að máli og ræddi við þá um starfið og hvað liggur að baki árangri sem þessum.

„Við erum með mikið af ungum sundmönnum í afrekshópnum sem eru að taka miklu framförum. Breiddin í sundinu á Íslandi er að aukast, meiri samkeppni sem er af hinu góða. Það er ákveðin pressa sem kemur á krakkana að standa sig þegar okkar sundmenn eru að mæta hinum. Við erum að standa okkur mjög vel í þessum samanburði,“ sagði Eddi. 

„Þau eru líka mjög sterk alhliða í öllum sundgreinunum, eru fjórsundsmiðuð. Þau standa mjög vel þegar kemur að því að velja á milli greina um átján ára aldurinn,“ sagði Steindór.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Áhugi hefur alltaf verið mikill í Reykjanesbæ, við erum í samkeppni við aðrar íþróttagreinar og auðvitað kemur fyrir að það vanti í einhverja árganga svipað og gerist í öðrum greinum,“ sagði Steindór. „Almennt séð höfum við veitt góða þjónustu frá því að ÍRB var stofnað fyrir um tuttugu árum síðan, flottar aðstæður og samkeppnishæft lið á landsvísu sem hefur verið að berjast um efsta sætið í liðakeppnum á hverju ári sem hvetur hópinn áfram sem lið,“ bætti Eddi við.

ÍRB hefur marg oft unnið AMÍ sem er aldursflokkameistaramót og Bikarkeppnina og í þau skipti sem sem það hefur ekki gerst hefur liðið oft verið nokkrum stigum frá sigrinum.

Steindór fylgist með af bakkanum.

Sterkar hefðir skila árangri

„Við Steindór höfum starfað lengi fyrir ÍRB og með öflugu samstarfi verða til sterkar hefðir sem skila árangri. Við höfum fastan ramma utan um skipulagið og erum metnaðarfullir í okkar störfum. Við viljum sjá árangur af okkar starfi. Umgjörðin hefur verið mjög góð og fólk veit af því og hrífst af því. Foreldrar vita af því að krakkarnir þeirra eru að fara inn í fastmótað kerfi, þar sem þeir vita hverjar áherslurnar eru og sem skilar árangri.“

„Áherslurnar hjá félaginu eru fyrst og fremst að kenna öllum að synda á góðan máta og nota rétta tækni. Einnig að ala þau upp í læra að ekkert kemur að sjálfu sér, þú þarft að vera duglegur, vinnusamur, stundvís sundmaður og bera virðingu fyrir öðrum keppendum og félögunum sem æfa með þér,“ bætti Steindór við.

Þeir félagar voru sammála um að hjá ÍRB hafi einnig skapast sterk hefð í gegnum tíðina hjá foreldrum að standa þétt að starfinu. 

„Við höfum alltaf verið það lánsöm að hafa sterkt og áhugasamt fólk á bak við okkur í stjórn sem sést best á þeim mótum sem við höldum og tökum þátt í og þeim æfingabúðum sem við höfum farið í.“

Eðvarð segir sínu sundfólki til á sundmóti.

Toppaðstaða til sundæfinga í Vatnaveröld

ÍRB hefur til afnota frábæra aðstöðu á Sunnubraut í Keflavík, eigin laug þar sem sem þjálfarar geta skipulagt æfingar eins og þeim hentar. 

„Við höfum toppaðstöðu og nýlega bættist við sjónvarp, iPad og myndavélar til að mynda í kafi – við gætum ekki haft það betra,“ voru þeir félagar sammála um. „Við setjum upp æfingatöfluna þannig að hún passar við skólann hjá krökkunum og æfingar séu líka búnar á skikkanlegum tíma,“ bætti Steindór við.

Þeir sem eru að æfa í afrekshóp eru að jafnaði að æfa þrettán sinnum í viku, taka þrjár morgunæfingar áður en skólinn hefst og síðan þrek- og sundæfingar sex daga vikunnar.

„Því miður er íslenska skólakerfið ekki að vinna með okkur, við erum að missa marga sundmenn frá okkur á besta aldri vegna tímaleysis. Álagið er of mikið á ungmenni sem eru í framhaldsskóla hérlendis en síðan eru þó nokkrir sem fara í framhaldsnám til Bandaríkjanna og ná oft að gera það með skólastyrk vegna árangurs í sundi og framlengja þannig sundferilinn um nokkur ár,“ sögðu þeir Steindór og Eðvarð. 

Að nægu er að huga fyrir þá félaga en framundan eru ýmis landsliðsverkefni, tímabilið er rétt hálfnað og mörg mót framundan hérlendis. Einnig er keppnisferð fyrirhuguð til Lyngby í Danmörku í janúar á næsta ári.

Tengdar fréttir