HS Veitur
HS Veitur

Íþróttir

Var farinn að sýna einkenni kulnunar
Már hefur alltaf nóg fyrir stafni og að sinna tónlistargyðjunni mikið meira þessa dagana.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. desember 2021 kl. 07:42

Var farinn að sýna einkenni kulnunar

Már annar tveggja íþróttamanna ársins 2021

Sundmaðurinn Már Gunnarsson var útnefndur íþróttamaður ársins 2021 hjá Íþróttasambandi fatlaðra í síðustu viku ásamt Róberti Ísak Jónssyni úr Firði/SH. Þetta er í annað sinn sem þeir Már og Róbert hljóta nafnbótina en Már var fyrst valinn íþróttamaður ársins árið 2019 og Róbert Ísak árið 2017.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Íþróttasambands fatlaðra sem tveir íþróttamenn hljóta nafnbótina en að baki ákvörðuninni er sú staðreynd að báðir áttu þeir magnað afreksár „... og eftir mikla umhugsun ákvað stjórn ÍF að ekki væri hægt að gera upp á milli þessara tveggja öflugu sundmanna,“ segir í tilkynningu um valið.

Már og Róbert ásamt frjálsíþróttakonunni Bergrúnu Ósk Aðalsteinsdóttur sem var valin íþróttakona ársins 2021 en hún keppir með FH.

Er ekki svolítið skrítið að deila titlinum með öðrum?

„Jú og nei, ég meina þetta hefur aldrei verið gert áður en síðan er þetta bara bikar. Árið búið að vera sérstakt og aðdragandinn að þessum Ólympíuleikum var erfiður – að æfa í eitt og hálft ár fyrir eitthvað sem maður vissi ekki hvort yrði var krefjandi. Á síðasta ári var ég farinn að sýna veruleg einkenni kulnunar en ég dröslaði mér í gegnum erfiðar æfingar og er ánægður í dag að hafa klárað þetta. Ég var margoft nærri að gefast upp á þessu en hef klárlega marga góða á bak við mig sem styðja mig og hvetja áfram þegar á þarf að halda,“ segir þessi magnaði íþróttamaður sem setti þrettán Íslandsmet, bætti 30 ára gamalt heimsmet í baksundi og hafnaði í fimmta sæti á Ólympíuleikunum þar sem vantaði aðeins sekúndu upp á að ná gullverðlaununum.

„Svo er margt frábært sem er búið að gerast á árinu; heimsmetið í 200 metra baksundi í apríl og margt skemmtilegt búið að gerast í músíkinni líka – og auðvitað var bara æðislegt að fara til Tókýó. Þetta er búið að vera mjög sérstakt ár, sérstaklega fyrri hluti þess. Þá var margt að gerast í kringum mig, ungur frændi minn kvaddi okkur og sömuleiðis vinur minn sem lést úr krabbameini. Það er búið að vera allskonar „Ups and Downs“ á þessu ári.“

Gefandi tímar

Eftir Ólympíuleikana segir Már geggjaðslega gefandi tíma hafa komið en hann byrjaði m.a. í nýjum tónlistarskóla í Reykjavík.

„Ég byrjaði í MÍT, þetta er menntaskóli í tónlist sem er frekar fyndið þar sem ég er stúdent. Þeir kunnu ekki að finna betra nafn á þetta,“ segir Már og hlær sem hefur einnig verið að vekja eftirtekt fyrir fyrirlestra sína í skólum landsins sem hann vonast til að gera meira af á nýju ári.

Um hvað snúast fyrirlestrarnir þínir?

„Ég reyni alltaf að koma ekki fram eins og einhver blindur, duglegur strákur heldur strákur sem lætur drauma sína rætast en það vill svo að til að hann er blindur.

Ég segi í raun bara frá mér og því sem ég hef verið að gera, segi mína sögu. Gef krökkunum tækifæri til að kynnast mér og því hver ég er. Viðtökurnar hafa verið stórkostlegar og ég hef verið að fá skilaboð frá krökkum út um allt land sem hafa heyrt um fyrirlestrana mína og eru að biðja mig um að koma í þeirra skóla líka, bara ótrúlega krúttlegt. Sömuleiðis hafa nemendur verið að senda mér skilaboð eftir fyrirlestra og þakka mér fyrir komuna.“

Fyrir hvaða aldur ertu að halda þessa fyrirlestra?

„Ég hef verið að hitta allan aldur, allt frá fyrsta bekk upp í háskóla – en þetta eru mest grunnskólakrakkar.“

Hefur í nógu að snúast

Már segist ekkert synt frá því um miðjan september en hann hefur þess í stað verið duglegur í ræktinni þar sem hann vinnur í að styrkja sig.

„Svo kemur það bara í ljós á næsta ári hvort ég setji stefnuna á París og ef ég geri það mun ég koma til baka sterkari en nokkurn tíma, líkamlega og andlega,“ segir hann og heldur áfram: „Þetta Covid-tímabil hefur sett stórt strik í reikninginn hjá manni því íþróttir snúast um markmiðasetningar og það er ekki hægt að setja sér markmið fyrir eitthvað sem þú veist svo ekki hvort nokkurn verði.“

Már hefur ætíð nóg fyrir stafni, hann einbeitti sér að sundinu fram að Ólympíuleikum en þrátt fyrir það hefur hann gefið sér tíma til að sinna tónlistarferlinum, náminu og svo heldur hann fyrirlestra vítt og breitt um landið.

Már segir að þessa dagana sé mikið að gera í tónlistinni, hann sé mikið bókaður í allskonar viðburði og er m.a. nýkominn frá Póllandi þar sem hann kom fram á tónleikum – en eigum við von á einhverju stórtónleikum á næstunni?

„Klárlega er eitthvað framundan – en ekkert sem er alveg ákveðið,“ segir Már og gefur ekkert frekar upp um hvað sé næst á dagskrá hjá sér en hvað sem það er sem hann tekur sér fyrir hendur verður spennandi að fylgjast með.

Hvenær sefur þú eiginlega?

„Stundum næ ég að fara snemma í rúmið eða mjög seint, það er mjög mismunandi. Ég reyni samt að hafa einhverja reglu á þessu,“ segir þessi dugnaðarforkur, sem vill svo til að er blindur, að lokum.

Tengdar fréttir