Bílaútsalan - Gylfi
Bílaútsalan - Gylfi

Íþróttir

Mikilvægur sigur Njarðvíkur í botnbaráttu Inkasso-deildarinnar
Heimamenn í Njarðvík girtu sig í brók og það tók þá ekki nema tvær mínútur að leiðrétta stöðuna sér í hag með flottu marki sem Ari Már Andrésson skoraði.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 24. ágúst 2019 kl. 18:41

Mikilvægur sigur Njarðvíkur í botnbaráttu Inkasso-deildarinnar

Njarðvíkingar unnu mikilvægan sigur í botnslag Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Heimamenn skoruðu tvö mörk, gegn einu frá gestinum.

Fyrri hálfleikur var markalaus en sá síðari byrjaði af hörku. Ekki voru liðnar nema fimm mínútur þegar fyrirliði Magna, Sveinn Óli Birgisson, var sendur með rautt spjald í sturtu fyrir gróft brot. Það var einmitt það sem einkenndi síðari hálfleikinn, grófur leikur gestanna, án þess að dómarinn hafi séð ástæðu til að beita spjöldunum eitthvað frekar á Magnamenn.

Atli Geir Gunnarsson kom Njarðvík yfir á 71. mínútu með glæsilegu marki en Jakob Hafsteinsson jafnaði leikinn fyrir Magna tíu mínútum síðar. Þá höfðu Njarðvíkingar bakkað talsvert.

Heimamenn í Njarðvík girtu sig í brók og það tók þá ekki nema tvær mínútur að leiðrétta stöðuna sér í hag með flottu marki sem Ari Már Andrésson skoraði.

Ósigurinn fór eitthvað í Magnamenn því þegar leikurinn var flautaður af sá Gauti Gautason úr Magna ástæðu til að kasta bolta í andlit Njarðvíkingsins Kenneth Hogg eins og sjá má á mynd hér að neðan. Dómarar leiksins sáu atvikið ekki en stúkan lét vel í sér heyra við atvikið.

Eftir leik dagsins eru Njarðvíkingar enn á botni Inkasso-deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum á eftir Magna og Haukum, sem bæði hafa 16 stig.

Njaðvík mætir Aftureldingu í næstu viðureign sinni í Mosfellsbæ um næstu helgi.

Gauti Gautason (77) úr Magna sá ástæðu til að kasta bolta í andlit Njarðvíkingsins Kenneth Hogg (8) eins og sjá má hér að ofan. Þetta var eftir að leiktíminn var liðinn.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs