Max 1
Max 1

Íþróttir

Mikið í húfi fyrir bæði lið – ekki bara orðsporið
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 6. september 2024 kl. 15:39

Mikið í húfi fyrir bæði lið – ekki bara orðsporið

Njarðvík tekur á móti Keflavík þessa Ljósanæturhelgi í næstsíðustu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Það eru alltaf stórir viðburðir þegar þessi tvö nágrannalið mætast, hvort sem það er á fótbolta- eða körfuboltavellinum, og ekkert er gefið eftir enda verður bærinn annað hvort grænn eða blár – það fer eftir úrslitum.

Það sem gerir þennan leik sérstakan er að bæði lið eru í harðri baráttu um sæti í Bestu deild að ári. Keflavík er í öðru sæti Lengjudeildarinnar, aðeins einu stigi á eftir ÍBV, en það lið sem verður deildarmeistari tryggir sér sæti í efstu deild að ár.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Njarðvíkingar eru í sjötta sæti, einu stigi á eftir nýliðum ÍR, en liðin í öðru til fimmta sæti munu keppa um hitt sætið í Bestu deildinni sem er í boði. Það er því mikið í húfi fyrir bæði lið.

Víkurfréttir heyrðu í þjálfurum liðanna nú þegar rétt um sólarhringur er í leik en þeir eru sammála að það verður ekkert gefið eftir á morgun.


Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur:

Þetta eru leikirnir sem þú vilt spila

„Ég held að bærinn gæti ekki fengið betri leik á þessum tímapunkti,“ segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkinga. „Eins og þetta leit út fyrir tímabilið þá er þetta leikur sem fólk bara hlakkar til að fara á til að skemmta sér og fá nágrannaslag í leiðinni – en við getum sagt að þetta er orðið miklu stærri leikur en fólk bjóst við.“

Það er óhætt að segja að þessi leikur skipti bæði lið miklu máli. Það er meira í húfi en bara orðsporið.

„Já, klárlega. Þetta eru leikir sem þú vilt spila, það er bara þannig. Ég vildi óska þess að ég væri leikmaður að fara spila svona leik. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er að hlaupa og djöflast allt árið, það er að spila þessa stóru leiki.“

Hvernig er staðan á leikmönnum? Allir heilir og enginn í banni?

„Ja, það er enginn í banni,“ segir Gunnar og bætir við: „Það er, eins og oft áður, allskonar hlutir í gangi hjá nokkrum leikmönnum – við erum með plan A, B og C og verðum bara að sjá á morgun, taka stöðuna á mannskapnum á leikdegi.“


Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur:

Þetta verður baráttuleikur

„Það er alltaf hart barist þegar þessi tvö lið mætast en núna er meira undir en vanalega hjá báðum liðum,“ segir Haraldur. „Þetta verður baráttuleikur og það skemmir ekki að hann skuli hitta upp á þessa helgi, Ljósanæturhelgina – ég á ekki von á öðru en það verði vel mætt og alvöru stemmning á vellinum á morgun.“

Nú eru bara tvær umferðir eftir og þið ætlið ykkur væntanlega sigur í þeim báðum og vonist til að Eyjamenn misstígi sig – þannig að þið endið á toppnum og þurfið ekkert að spá í þessa undankeppni.

„Auðvitað væri það best en það er ekki í okkar höndum hvað ÍBV gerir. Við einbeitum okkur að okkar leik og að gefa okkur alla í það verkefni. Það er auðvelt að missa fókusinn ef maður fer að spá í það sem aðrir eru að gera.“

Hvernig er staðan á leikmönnum?

„Það eru allir klárir. Við erum einmitt að detta inn á æfingu, taka lokahnykkinn fyrir morgundaginn.“