ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Íþróttir

Markmiðið er að gera góða markverði betri
Robert Blakala hér í leik með Njarðvík gegn Haukum í 2. deild karla. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 18. júní 2022 kl. 08:00

Markmiðið er að gera góða markverði betri

– segir Robert Blakala sem verður með þriggja daga æfingabúðir, sérmiðaðar að ungum markvörðum.

Robert Blakala, markvörður 2. deildarliðs Njarðvíkur, stýrir búðunum sem verða haldnar nú í lok júní og fær hann góða félaga sér til aðstoðar. Daði Fannar Reinhardsson, ungur og efnilegur markvörður í Njarðvík, verður Blakala innan handar á námskeiðinu og þá verður Krzysztof Sendorek sérstakur gestaleiðbeinandi en Sendorek er fyrrum markvörður 3. deildarliðs CD Izarra á Spáni. Einnig mun Erika Dorielle Sigurðardóttir frá fimleikadeild Keflavíkur sjá um að auka liðleika markvarðanna ungu.

Robert Blakala hefur leikið í íslenska boltanum frá árinu 2018 þegar hann spilaði með Njarðvík í Inkasso-deildinni. Blakala lék tvö tímabil með Vestra (2019 og 2020) en gekk aftur til liðs við Njarðvíkinga á síðasta ári. Víkurfréttir settust niður með honum til að fá nánari útlistun á því sem markmenn framtíðarinnar ættu í vændum og spurðu hann hvort þörf væri á sérstakri þjálfun fyrir markverði.

„Þetta verða þrír dagar í æfingabúðunum þar sem við munum fara yfir alla grunnþætti markmannsþjálfunar. Ég fór sjálfur í gegnum stífa markmannsþjálfun í mínu uppeldisfélagi heima í Póllandi og mig langar að deila þeirri þekkingu sem ég aflaði mér á þeim tíma til ungra markvarða,“ segir Blakala.

„Það er margt í markvarðastöðunni sem er ólíkt öðrum stöðum á vellinum, því er þörf á að kenna réttu tæknina þegar markmennirnir eru ungir – svo þeir tileinki sér hana frá upphafi. Það er erfiðara að brjóta upp slæma ávana þegar þeir eldast.“

Æfingabúðir fyrir alla markmenn

„Markmið æfingabúðanna er að gera góða markverði enn betri,“ segir Blakala og bætir að hann vonist til að sjá markverði frá öllum félögunum á Reykjanesi taka þátt. „Þetta er ekki bara fyrir þá sem eru hjá Njarðvík og Keflavík, heldur líka þá sem eru hjá Víði, Reyni, Þrótti og Grindavík. Ég vona að sem flestir verði með.“

Og hvaða aldur af þátttakendum ertu að miða við?

„Ég er að hugsa um svona tíu til sautján, átján ára – ég vil einbeita mér að krökkunum.“

Robert Blakala sýnir hvernig á að verja boltann á æfingu með Njarðvíkingum.


Meira en bara markmannsæfingar

Blakala segir að dagskráin sé fjölbreytt, farið verði í ýmsa grunnþætti markvörslunnar og þá verður einnig fimleikakennari með eina æfingu til að auka liðleika krakkanna en markverðir þurfa einnig að vera fimir á milli stanganna. Blakala þjálfar markverði í yngri flokkum Njarðvíkum og hann segist vilja bæta vikulegum liðleikaæfingum inn í æfingaprógramið hjá þeim.

„Liðleikinn er sá þáttur sem er hve vanmetnastur í fótbolta yfirleitt en markverðir þurfa að vera sérstaklega liprir og æfa sérstaklega liðleika með teygjum og slíku. Þá er gott að nýta sérþekkingu fimleikaþjálfara og ég hef fengið hana Eriku Dorielle Sigurðardóttur sem er þjálfari í fimleikadeild Keflavíkur en hún verður með einn tíma til að fara yfir réttu æfingarnar.

Nú veit ég ekki hvernig leikfimikennsla fer fram í skólum hér á landi en mig grunar að það mætti bæta hana miðað við það sem ég hef séð til ungra leimanna á æfingum.“

Krzysztof Sendorek, markmannsþjálfari yngri flokka úrvalsdeildarliðs MSK Cracovia.

Sérstakur gestur

Krzysztof Sendorek, markmannsþjálfari yngri flokka úrvalsdeildarliðs MSK Cracovia í Póllandi, verður sérstakur gestaleiðbeinandi æfingabúðanna og kemur án vafa til með að gefa ungu þátttakendunum nýja sýn á stöðu markvarða.

„Í Póllandi eru fjölmargar markvarðaakademíur og félögin leggja mikið upp úr séræfingum fyrir markverði sinna liða,“ segir Blakala. „Á Íslandi eru margir góðir markmenn en ég sé þá oft gera mistök sem má rekja til lakrar grunntækni. Þetta vil ég laga og æfingabúðirnar eru fyrsta skrefið í þá átt.“

Æfingabúðirnar verða haldnar 27. júní til 1. júlí og er hægt að kynna sér þær betur á Facebook og Instagram undir RB Goalkeeper Academy, hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið [email protected] eða í síma 831-7515.