Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Íþróttir

Keflavík vann Skagann í hörkuleik
Það var oft þröngt á þingi fyrir framan mark ÍA í dag. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 2. október 2022 kl. 23:10

Keflavík vann Skagann í hörkuleik

Magnað mark frá Gibbs tryggði sigurinn

Keflavík vann 3:2 sigur á ÍA í fyrstu umferð úrslitakeppni Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Með sigrinum er Keflavík með 31 stig og efst í neðri hluta deildarinnar, ellefu stigum frá öruggu sæti þegar fjórar umferðir eru óleiknar – FH (19 stig) og og ÍBV (20 stig) eiga þó leik til góða.

Skagamenn berjast fyrir lífi sínu í Bestu deildinni og þeir hófu leikinn af miklum krafti. Heimamenn náðu þó fljótlega tökum á leiknum og áttu snemma nokkur álitleg færi, m.a. átti Patrik Johannesen skot í stöng.

Það var því algerlega gegn gangi leiksins þegar gestirnir komust í hraðasókn og sóknarmaður ÍA fékk nægan tíma til að athafna sig fyrir framan teig Keflavíkur og lét skotið vaða. Boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og Sindri Kristinn Ólafsson náði því ekki til boltans og ÍA komið í forystu (18').

Kian Williams jafnaði metin tíu mínútum síðar eftir góða sendingu frá Adam Ægi Pálssyni (28') og á lokasekúndum fyrri hálfleiks braut markvörður Skagans á Patrik Johannesen þar sem hann var að komast í gegn – víti var dæmt sem Johannesen skoraði sjálfur úr og Keflavík fór því með forystuna inn í hálfleikinn.

Skagamenn neituðu að játa sig sigraða svo auðveldlega og innan við tíu mínútum eftir að seinni hálfleikur hófst höfðu þeir skorað og jafnað leikinn í 2:2 (54').

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða og harkan jókst eftir því sem leið á leikinn. Tíu mínútum eftir jöfnunarmark Skagans var brotið á Adam Ægi Pálssyni fyrir framan teig ÍA og aukaspyrna dæmt á stórhættulegum stað. Patrik Johannesern og Joey Gibbs stilltu sér upp við boltann og það var Ástralinn sem tók spyrnuna – og þvílík aukaspyrna, boltinn smurður í samskeytin og ekki glæta fyrir markvörð ÍA koma í veg fyrir mark (64').

Þvílíkt gull af marki hjá Gibbs.

Það sem eftir lifði leiks var mikil barátta en Keflvíkingar sóttu fastar og höfðu meira vald á leiknum þótt Skaginn væri þó til alls líklegur. Hiti hljóp í menn síðustu mínúturnar og nokkrir vafasamir dómar undir lok leiks varð til þess að upp úr sauð – en heimamenn lönduðu sigrinum, sem var sanngjarn, og eru því í fínum málum þegar fjórir leikir eru eftir.

Allt varð brjálað hjá heimamönnum á hliðarlínunni þegar ÍA var nærri því að jafna eftir vafasaman dóm og þurfti aukadómari að reka menn í skýlið.
Leikmaður ÍA fær reisupassann í lok leiks eftir ljótt brot á Adam Árna Róbertssyni – hann var ekki sáttur við dómara leiksins.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum í dag og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - ÍA (3:2) | Besta deild karla 2. október 2022