Íþróttir

Keflavík tók forystuna í einvíginu
Birna Valgerður Benónýsdóttir (Keflavík) og Isabella Ósk Sigurðardóttir (Njarðvík) eigast við í leiknum í gær. Birna var með nítján stig í leiknum og tók sex fráköst en Isabella var með tíu stig og ellefu fráköst. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 4. apríl 2023 kl. 08:31

Keflavík tók forystuna í einvíginu

Úrslitakeppni Subway-deildar kvenna í körfuknattleik fór af stað í gær og það voru erkifjendurnir Keflavík og Njarðvík sem mættust í Blue-höllinni. Það var góð mæting og frábær stemmning á leiknum sem var jafn og spennandi allt þar til í fjórða og síðasta leikhluta þegar besti leikmaður gestanna, Aliyah Collier, meiddist og þurfti að fara af leikvelli. Keflvíkingar sigldu þá öruggum tíu stiga sigri í höfn, 74:64.

Heimakonur hófu leikinn betur og voru komnar með sjö stiga forskot um miðjan fyrsta leikhluta (13:6). Njarðvíkingar hófu þá að saxa á forystuna og sigu fram úr Keflavík snemma í öðrum leikhluta (20:25). Þegar gengið var til hálfleiks munaði einungis einu stigi á liðunum (38:37).

Í þriðja leikhluta var munurinn á liðunum sjaldan meiri en eitt, tvö stig en það voru gestirnir sem leiddu framan af en Keflvíkingar kláruðu leikhlutann af krafti og fóru inn í síðasta leikhluta með sex stiga forystu (60:54). Vendipunktur leiksins varð svo í upphafi fjórða leikhluta þegar Aliyah Collier meiddist og eftir það þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Keflavík kláraði leikinn af öryggi og leiðir einvígið 1:0. Liðin mætast aftur á fimmtudag í Ljónagryfjunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Njarðvíkingar urðu fyrir áfalli við að missa Collier af velli.

Keflavík - Njarðvík 74:64

(20:17, 18:20, 22:17, 14:10)

Keflavík: Karina Denislavova Konstantinova 21/8 fráköst/7 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 19/6 fráköst, Daniela Wallen Morillo 17/13 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Agnes María Svansdóttir 4, Ólöf Rún Óladóttir 3, Anna Lára Vignisdóttir 2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 2, Anna Þrúður Auðunsdóttir 0, Hjördís Lilja Traustadóttir 0, Eygló Kristín Óskarsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0.
Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 26/13 fráköst, Raquel De Lima Viegas Laneiro 13/5 fráköst, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10/11 fráköst, Lavinia Joao Gomes Da Silva 7/9 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Erna Hákonardóttir 3, Dzana Crnac 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Sara Björk Logadóttir 0, Hulda María Agnarsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0.

Það var ekkert gefið eftir í leiknum.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn neðst á síðunni.

Keflavík - Njarðvík (74:64) | Undanúrslit Subway-deildar kvenna 3. apríl 2023