Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Íþróttir

Keflavík ósigrað á toppnum
Daniela Morillo gerði 37 stig í gær þegar Keflavík sigraði Val í Domino's-deild kvenna. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 24. janúar 2021 kl. 10:53

Keflavík ósigrað á toppnum

Keflavík sigraði Val í Domino's-deild kvenna þegar leikið var í Blue-höllinni í gær. Með sigrinum er Keflavík á toppi deildarinnar með fimm sigra, eina taplausa lið deildarinnar en Fjölnisstelpur hafa einnig unnið fimm leiki og tapað tveimur.

Byrjun leiksins var hreint ótrúleg hjá Keflavík en þær skoruðu úr fyrstu tíu af ellefu þriggja stiga skotum og náðu þannig góðu forskoti gegn Íslandsmeisturum Vals sem náðu ekki að verjast látunum í Keflavíkurstúlkum. Daniela fór fyrir heimastúlkum en félagar hennar í liðinu voru líka duglegar að skora og eftir fyrsta leikhluta leiddi Keflavík með 16 stiga mun. Hreint ótrúlegt stigaskor. Í öðrum leikhluta minnkaði Valur muninn og þegar flautað var til leikhlés var staðan 51-41 en svona háar tölur eru ekki algengar í kvennaflokki.

Valskonur börðust vel og náðu að minnka muninn en aldrei að jafna. Keflavík stóðst harða atlögu þeirra en minnstur varð munurinn fjögur stig. Hreint magnaður leikur hjá báðum liðum en Keflavík þurfti að eiga stórleik til að vinna ógnar sterkt lið Vals og það tókst.

Daniela Morilla átti enn einn stórleikinn og fór fyrir Keflavíkurliðinu en hún drífur líka hinar áfram með baráttu sinni og frábærum leik í vörn og sókn. Skotnýting hennar var 74% sem er magnað, 100% í þristum og 67% í tveggja stiga skotum. Það er gaman að sjá systurnar í Keflavíkurliðinu, þær Önnu Ingunni  og Agnesi Maríu Svansdætur en þær skoruðu 11 og 10 stig hvor. Emilía Gunnarsdóttir skoraði 11 stig, Erna Hákonardóttir 7 og Katla Rún Garðarsdóttir 3 stig og sex stoðsendingar.

Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Keflavík - Valur // Domino's kvenna // 23. janúar 2021