Bygg
Bygg

Íþróttir

Keflavík með góðan sigur á Leikni – mögulega komnir í öruggt sæti
Joey Gibbs skoraði sigurmark Keflvíkinga gegn Leikni í báðum viðureignum liðanna í Pepsi Max-deildinni en Keflavík vann báða leikina með einu marki gegn engu. Mynd frá því að liðin mættust á heimavelli Keflavíkur fyrr í sumar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 19. september 2021 kl. 16:29

Keflavík með góðan sigur á Leikni – mögulega komnir í öruggt sæti

Keflvíkingar mættu í Breiðholtið í dag þar sem þeir mættu Leiknismönnum en þegar liðin mættust í fyrri umferðinni höfðu Keflvíkingar eins marks sigur. Það sama var upp á teningnum í dag, eftir hörkuspennandi leik hafði Keflavík eins marks sigur með glæsilegu marki frá Joey Gibbs. Mikilvæg stig sem gætu tryggt Keflavík öruggt sæti í Pepsi Max-deild karla.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þetta yrði fjörugur leikur, liðin skiptust á að sækja og Leiknismenn voru álitlegri á fyrstu mínútunum. Keflvíkingar áttu líka álitlegar sóknir og á 22. mínútu dró til tíðinda þegar brotið var á Marley Blair rétt fyrir utan vítateigs Leiknismanna.

Það var Joey Gibbs sem stillti sér upp við boltann til að taka spyrnuna, smellhitti hann yfir vegg Leiknis og í bláhornið. Glæsilegt mark og Keflavík komið yfir.

Eftir markið hélt leikurinn áfram að vera hin mesta skemmtun, bæði lið gerðu sitt til að skora fleiri mörk og eins og við er að búast þegar þessi tvö lið mætast þá er ekkert gefið eftir – enda fóru nokkur spjöld á loft þótt dómarinn hafi leyft leiknum að fljóta nokkuð vel.

Keflvíkingar fóru með eins marks forystu inn í hálfleik en heimamenn mættu vel peppaðir í seinni hálfleikinn og gerðu harða hríða að vörn Keflavíkur í byrjun hans og í einni sókn þeirra lentu Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, og sóknarmaður Leiknis í samstuði þar sem Leiknismaðurinn féll við. Leiknismenn heimtuðu víti en urðu ekki að ósk sinni, fengu aðeins hornspyrnu sem ekkert varð úr. Sindri lenti síðar í öðru samstuði við leikmann heimamanna án þess að á það yrði dæmt og þá fyrst urðu Leiknismenn brjálaðir.

Sókn Leiknis þyngdist eftir því sem leið á leikinn en vörn Keflavíkur stóð vaktina og Sindri Kristinn sá til þess að halda hreinu með góðri markvörslu þegar á reyndi.

Sindri Kristinn hefur nokkrum sinnum varið vel á ögurstundu í síðustu leikjum. Sannarlega betri en enginn og mikilvægur hlekkur í liðinu.
 

Dugar sigurinn til að tryggja Keflavík áfram í deild þeirra bestu?

Það er ekki öruggt en mikilvæg stig engu síður. Keflavík er komið með 21 stig í níunda sæti deildarinnar en Skagamenn rassskelltu Fylkismenn 5:0 og skilja Fylki eftir á botningum með sextán stig. ÍA er með átján stig eftir sigurinn í dag og er komið úr fallsæti eins og er. HK er í næstneðsta sætinu með sautján stig en þeir eiga að leika gegn Stjörnunni annað kvöld.

Fari svo að Stjarnan vinni HK annað kvöld er Keflavík öruggt um sæti í deildinni á næsta ári og fallbaráttan yrði milli ÍA, HK og Fylkis sem öll ættu möguleika á að bjargað sér. Sigri HK hins vegar eða geri jafntefli í kvöld verður spennandi lokaleikur á milli Keflavíkur og Skagamanna um næstu helgi því þá blandast Keflavík einnig í fallbaráttuna.