Íþróttir

Jafntefli í fyrsta Reykjanesbæjar-slagnum í 16 ár
Fimmtudagur 23. maí 2019 kl. 21:55

Jafntefli í fyrsta Reykjanesbæjar-slagnum í 16 ár

Keflavík og Njarðvík mætast aftur í bikarnum á þriðjudag

Njarðvík og Keflavík gerðu jafntefli 0-0 í leik liðanna á Rafholts-vellinum að viðstöddum um 800 manns í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Keflvíkingar eru enn á toppi deildarinnar með 10 stig en Njarðvíkingar eru í ágætum málum framan við miðja deild með 7 stig. Báðir þjálfarar liðanna voru sáttir í leikslok en leikurinn einkenndist af baráttu og undirliggjandi spennu sem er kannski ekki óeðlilegt þar sem liðin hafa ekki mæst í Íslandsmóti í 16 ár en árið 2003 voru bæðin liðin í næst eftstu deild.
Njarðvíkingar voru hættulegri í fyrri hálfleik og voru nálægt því að pota inn marki á 25. mín. þegar varnarmaður Keflavíkur bjargaði á línu. Þá átti Adam Árni Róbertsson skalla að marki UMFN sem fór rétt framhjá markinu.

Þrátt fyrir hetjulega baráttu í báðum liðum vantaði herslumuninn upp á að þau næðu að búa til dauðafæri. Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik en þá voru gestirnir mun hættulegri og voru nokkrum sinnum ekki langt frá því að fá dauðafæri en lengra náði það ekki. Vörn Njarðvíkur var föst fyrir og varðist vel.

„Þetta var líklega sanngjarnt en vissulega hefðu bæði lið getað stolið sigrinum. Ef það hefði komið mark þá hefði hann eflaust þróast öðruvísi en þetta var engin samba bolti. Það var gaman að sjá svona marga á vellinum og það hafði örugglega áhrif á mína menn því mér fannst þeir spenntir. Við erum ánægðir með byrjunina í deildinni. Við förum í alla leiki auðvitað til að sigra en gerum okkur grein fyrir því að það gerist ekki. Það var gaman að mæta Njarðvíkingum aftur á þriðjudaginn í Keflavík í bikarnum. Það er alla vega ljóst að Reykjanesbær mun eiga lið í 8-liða úrslitum og við ætlum að vera þar,“ sagði Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflvíkinga eftir leikinn.

„Þetta voru bara nokkuð sanngjörn úrslit. Við vorum betri í fyrri hálfleik en þeir í þeim seinni. Það var auðvitað frábært að sjá svona marga áhorfendur en nú hvílum við okkur vel og mætum tilbúnir í bikarleikinn á þriðjudaginn í Keflavík. Njarðvík hefur aldrei komist í 8-liða úrslitin en nú ætlum við að láta af því verða. Það er gaman að mætast svona með stuttu millibili. Þetta er bara eins og í körfunni,“ sagði Rafn Markús Vilbergsson við VF eftir leikinn.

Liðin mætast aftur næsta þriðjudag í bikarnum en þá verður leikið á Nettó-vellinum í Keflavík.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fjölmenni var á áhorfendapöllunum, metmæting.


Adam Árni Róbertsson átti skalla sem rúllaði rétt framhjá markinu í lok fyrri hálfleiks.