Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Íþróttir

Hulda Björk og Matthías Örn íþróttafólk Grindavíkur 2022
Hulda Björk. Mynd frá vef Grindavíkurbæjar
Föstudagur 30. desember 2022 kl. 14:32

Hulda Björk og Matthías Örn íþróttafólk Grindavíkur 2022

Körfuknattleikskonan Hulda Björk Ólafsdóttir og pílukastarinn Matthías Örn Friðriksson voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Grindavíkur 2022. Þá var A lið Pílufélags Grindavíkur útnefnt íþróttalið Grindavíkur 2022 og Nökkvi Már Jónsson, körfuknattleiksþjálfari, útnefndur þjálfari Grindavíkur.

Íþróttakonan Hulda Björk er fyrirliði og lykilleikmaður körfuknattleiksliðs Grindavíkur og lék einnig með U20 landsliðinu á árinu. „Hulda Björk er mikil fyrirmynd innan sem utan vallar, hún á bjarta framtíð fyrir sér,“ segir á vef Grindavíkur. Pílukastarinn og Íslandsmeistarinn Matthías Örn var fyrstur Íslendinga til að spila á stórmóti á vegum PDC en hann er efstur Íslendinga á stigalista Norðurlandamótaraðar PDC. „Matthías Örn er góð fyrirmynd, reykir ekki né drekkur og leggur sitt af mörkum til að stækka píluíþróttina á Íslandi,“ segir einnig á vef Grindavíkur. Matthías spilar með A liði Pílufélagsins en liðið er Íslandsmeistari félagsliða og íþróttalið Grindavíkur 2022. Þjálfari Grindavíkur 2022 er Nökkvi Már Jónsson en hann þjálfar unglingaflokka í körfuknattleik, auk þess sinnti hann afreksþjálfun og leiðbeindi á aukaæfingum á árinu. „Nökkvi Már er einstakur félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða yngri iðkendur við að bæta sig í körfubolta.“  

Matthías Örn. Mynd frá vef Grindavíkurbæjar

Allar deildir UMFG og íþróttafélög með samstarfssamning við Grindavíkurbæ fengu kost á að tilnefna íþróttafólk, lið og þjálfara. Kjörið fór fram með þeim hætti að hver fulltrúi úr valnefnd, sem samanstendur af aðalstjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd Grindavíkurbæjar, greiddi þremur konum og þremur körlum atkvæði sitt með þeim hætti að sá sem settur var í efsta sæti fékk 10 stig, sá sem var í öðru sæti fékk 7 stig og sá þriðji 5 stig. Hulda Björk og Matthías Örn fengu þar flest stig en Hulda endaði með 80 stig og Matthías með 88 af 100 mögulegum. 

Mynd frá vef Grindavíkurbæjar

Knapinn Patricia Ladina Hobi, pílukonan Svanhvít Helga Hammer, knattspyrnukonan Una Rós Unnarsdóttir og kylfingurinn Þuríður Halldórsdóttir voru einnig tilnefndar til íþróttakonu Grindavíkur. 

Þá voru knattspyrnumaðurinn Dagur Ingi Hammer Gunnarsson, kylfingurinn Helgi Dan Steinsson, körfuknattleiksmaðurinn Ólafur Ólafsson og knapinn Rúrik Hreinsson tilnefndir til íþróttakarls Grindavíkur. 

A lið Pílufélags Grindavíkur og 3. flokkur kvenna í knattspyrnu komu til greina sem lið Grindavíkur 2022. 

Knattspyrnuþjálfararnir Margrét Rut Reynisdóttir og Nihad Cober Hasecic, körfuknattleiksþjálfarinn Nökkvi Már Jónsson og golfþjálfarinn Þorlákur Halldórsson voru tilnefnd sem þjálfari Grindavíkur.

Mynd frá vef Grindavíkurbæjar