Vörumiðlun
Vörumiðlun

Íþróttir

Gunnar Þorvarðarson kominn að hliðarlínunni á ný
Þriðjudagur 19. apríl 2005 kl. 23:46

Gunnar Þorvarðarson kominn að hliðarlínunni á ný

Gunnar Þorvarðarson hefur verið ráðinn sem sérlegur ráðgjafi og aðstoðarmaður Einars Árna Jóhannssonar, þjálfara Njarðvíkinga í körfuknattleik. Gunnar er Njarðvíkingum að góðu kunnur enda tók hann þátt í því að hefja Njarðvíkinga á það flug sem þeir hafa verið á í gegnum árin. Það má því segja að Gunnar sé að nýju kominn að hliðarlínunni eftir að hafa fylgst með körfuboltanum úr stúkunni síðustu ár.

Gunnar er mikill fengur fyrir Njarðvíkinga enda hafsjór af reynslu þegar körfubolti er annars vegar. „Ég ætla ekki að skipta mér mikið af þjálfuninni fremur mun ég vera Einari til halds og trausts,“ sagði Gunnar í samtali við Víkurfréttir. „Það kom mér á óvart að ég skyldi vera beðinn um þetta og ég hlakka mikið til þess að koma aftur inn í starf körfuknattleiksdeildarinnar,“ en Gunnar lék með Njarðvíkingum í 19 ár ásamt því að þjálfa liðið um hríð. „Ég vona að ég geti látið gott af mér leiða og stefni að því að gefa mig allan í starfið,“ sagði Gunnar og bætti því við að hann væri ánægður með stofnun meistaraflokksráðs í Njarðvík en því ráði er ætlað að sjá um þau mál er varða málefni meistaraflokksins s.s. umgjörð leikmannamála og þess háttar. Fyrir meistaraflokksráðinu fer Friðrik Ragnarsson fyrrum leikmaður og þjálfari Njarðvíkinga.

Ferill Gunnars var sigursæll með Njarðvíkingum en sem leikmaður og þjálfari vann hann til fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla. Gunnar liggur ekki á skoðunum sínum hvað varaðar málefni bandarískra leikmanna í deildinni en hann vill einungis hafa einn bandarískan leikmann í hverju liði. Honum finnst íþróttin hafa breyst gríðarlega í gegnum árin en þó aðallega hvað hraði leiksins hefur aukist. „Leikmenn æfa mun meira en gert var hér áður fyrr og í kjölfarið er leikurinn orðinn hraðari og leikmenn mun betur á sig komnir. Það var varla búið að finna upp lyftingar þegar ég var að spila,“ sagði Gunnar kíminn að lokum. Þess má geta að Gunnar er faðir Loga Gunnarssonar sem leikur með Giessen 46ers í Þýskalandi.

Maður með 626 leiki á bakinu og annað eins sem þjálfari á örugglega eftir að reynast Njarðvíkingum vel í framtíðinni.

Ferill Gunnars Þorvarðarsonar til þessa:

Leikmaður hjá Njarðvík: 1968-1985.
Spilandi þjálfari hjá Njarðvík: 1983-1985.
Þjálfari hjá Njarðvík: 1985-1986.
Þjálfari hjá Keflavík: 1986-1988.
Þjálfari hjá Grindavík: 1990-1992.
Aðstoðarlandsliðsþjálfari: 1985-1989.
Þjálfari Unglingaflokks hjá Njarðvík: 1992-1993.
Formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur: 1997-2001.
Sérlegur ráðgjafi og aðstoðarmaður meistaraflokks Njarðvíkur: 2005-?

VF-mynd/ af www.umfn.is/karfan

 

 


 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024