Grindavík vann stórleik áttundu umferðar
Varla var á neinn hallað þótt talað hafi verið um leik Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld sem stórleik áttundu umferðar Bónusdeildar karla. Þessi lið háðu mjög eftirminnilega rimmu í undanúrslitum síðasta Íslandsmóts og þurfti oddaleik til að krýna sigurvegara, sem var Grindavík í það skiptið.
Mikla athygli vakti þegar Keflavík samdi við nýjan bandarískan leikmann á dögunum, Ty-Shon Alexander en sjaldan eða aldrei hefur annar eins „prófíll“ mætt í íslensku deildina en kappinn var í liði Phoenix Suns í NBA tímabilið ´20/´21 þegar liðið náði alla leið í Finals í NBA en tapaði fyrir Milwaukee Bucks. Ekki bara að kappinn væri í hópnum, hann setti tvö stig í lokaúrslitunum. Oft hafa bandarískir leikmenn komið til Íslands, hafandi spilað í sumardeildum NBA en aldrei hefur leikmaður sem lék í NBA FINALS þremur tímabilum fyrr, leikið á Íslandi.
Grindavík vann að lokum tiltölulega öruggan sigur, 96-104.
Liðin voru jöfn fyrir þessa umferð, höfðu unnið fjóra leiki en tapað þremur og voru að mati stuðningsmanna liðanna, að spila undir væntingum, sem eru alltaf himinháar hjá þessum stóru félögum í íslenskum körfuknattleik.
Grindvíkingar byrjuðu betur og leiddu allan fyrsta fjórðunginn, mestur fór munurinn upp í átta stig en lokasprettur fjórðungsins var heimamanna og því munaði bara tveimur stigum að honum loknum, 24-26.
Keflvíkingar komust yfir í fyrsta sinn þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar að öðrum leikhluta, 35-34, þegar fyrrnefndur Kani þeirra, Ty-Shon, setti þrist og annar fylgdi svo í kjölfarið. Greinilega hæfileikaríkur leikmaður hér á ferð en virðist vera búinn að vera nokkuð duglegur að klára grautinn sinn að undanförnu.
Grindvíkingar voru beittari það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og löbbuðu inn í hann með örugga forystu, 47-60.
Fjórir leikmenn Grindvíkinga voru komnir í 10+ stig og Ólafur fyrirliði var búinn að vera duglegur að sanka að sér sóknarfráköstum, sem hann skilaði undantekningarlaust ofan í körfuna, var kominn með þrjú slík. Deandre Kane sömuleiðis duglegur í fráköstunum, var kominn með 11.
Hjá Keflvíkingum var vonarstjarnan Ty-Shon sá eini sem kominn var í 10+, var með 12 stig.
Seinni hálfleikur byrjaði nokkuð jafnt en svo tóku heimamenn góðan sprett og breyttu stöðunni úr 56-67, í 66-70 og þá sagði Jóhann Þór, þjálfari Grindavíkur, „hingað og ekki lengra“ og tók leikhlé. Það skilaði ekki tilsettum árangri, Keflvíkingar náðu forystunni áður en leikhlutinn var allur, staðan 79-78 og þriðji leikhluti algerlega eign heimamanna, unnu hann 32-18. Keflvíkingar voru orðnir sjóðandi heitir fyrir utan þriggja stiga línuna, 32 stig segir allt um það en vörnin sömuleiðis sterk. Ljóst að lokaleikhlutinn yrði blóðug barátta.
Grindvíkingar komu beittari til leiks í síðasta leikhlutanum og þegar þrjár mínútur lifðu leiks, voru þeir að vinna leikhlutann 20-11 og leikinn þar með með átta stigum, 90-98. Ólafur fyrirliði bætti við þristi og munurinn kominn upp í 11 stig en þá svaraði Igor Maric í sömu mynt. Annar þristur frá Ty-Shon fylgdi svo og munurinn allt í einu kominn niður í fimm stig og Keflvíkingar voru nálægt því að stela boltanum í næstu sókn Grindvíkinga en Daniel Mortensen setti flautuþrist og munurinn fór upp í 8 stig, 96-104. Þetta reyndist náðarhöggið, Grindavík landaði að lokum nokkuð öruggum sigri, 96-104.
Ekki er á neinn hallað ef Daniel Mortensen fær stimpilinn „Maður leiksins,“ hann skilaði heilum 45 framlagspunktum, endaði með 32 stig og tók 14 fráköst. Hann nýtti öll sjö 2-stiga skot sín og 6/11 í þristum, einn ef ekki besti leikur Danans síðan hann kom til Íslands að spila fyrir fjórum árum.
Deandre Kane var sömuleiðis mjög góður, setti 18 stig og tók heil 15 fráköst. Sjálfstraustið hreinlega lekur af manninum!
Ty-Shon Alexander var nokkuð góður í sínum fyrsta leik, endaði með 26 stig og á pottþétt eftir að vaxa ásmegin eftir því sem hann kemur sér í betra stand. Þjóðverjinn Jarrel Reischel var sömuleiðis öflugur, setti 18 stig og tók 8 fráköst.
Keflavík fær topplið Tindastóls í heimsókn í næstu umferð og Grindvíkingar halda áfram í Reykjanesbæ, færa sig í Innri-Njarðvík.
Njarðvíkingar gerðu góða ferð og unnu botnlið Hauka örugglega með nítján stiga mun, 74-93 (14-19, 24-30, 17-26, 19-18). Leikið var í Hafnarfirði.
Mario Matasovic skoraði 26 stig og tók tólf sig. Þá var Veigar Páll Alexandersson með 22 stig.
Njarðvík: Mario Matasovic 26/12 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 22/4 fráköst/5 stoðsendingar, Isaiah Coddon 15, Dominykas Milka 15/10 fráköst, Khalil Shabazz 13/4 fráköst/9 stoðsendingar, Brynjar Kári Gunnarsson 2, Snjólfur Marel Stefánsson 0/4 fráköst, Guðmundur Aron Jóhannesson 0, Mikael Máni Möller 0, Alexander Smári Hauksson 0, Kristófer Mikael Hearn 0, Sigurður Magnússon 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leik Keflavíkur og UMFG sem má sjá í meðfylgjandi myndasafni.