Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

  • Grindavík og ÍBV gerðu jafntefli
    Sigurður Bjartur Hallssson lætur vaða og andartaki síðar var boltinn í netinu. VF-mynd: Hilmar Bragi
  • Grindavík og ÍBV gerðu jafntefli
    Mark!
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. september 2020 kl. 21:02

Grindavík og ÍBV gerðu jafntefli

Grindvíkingar mættu Eyjamönnum í Lengjudeild karla í dag á heimavelli þeirra gulklæddu sem hafa verið á góðri siglingu undanfarið og höfðu Grindvíkingar unnið síðustu þrjá leiki á undan þessum. Leikurinn var jafn þótt og Eyjamenn hafi átt fleiri færi þá vörðust Grindvíkingar vel.

Vestmanneyingar sköpuðu nokkra hættu og sóttu stíft á Grindvíkinga í fyrri hálfleik sem vörðust ágætlega, Vladan Dogatovic varði nokkrum sinnum vel í þau skipti sem ÍBV fann glufu á vörn heimamanna.

Hættulegasta færi fyrri hálfleiks áttu Eyjamenn þegar boltinn flæktist fyrir fótum sóknarmanns þeirra nánast á marklínu Grindvíkinga og Dogatovic hirti boltann af honum.

Í næstu sókn fékk Guðmundur Magnússon sendingu fyrir opnu marki Eyjamanna en náði ekki að reka stóru tánna í boltann og því var markalaust í hálfleik.

Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og á 40. mínútu sneri Sigurður Bjartur Hallsson varnarmann Eyjamanna af sér og tók skot utan vítateigs sem hafði viðkomu í varnarmann og svo í netið. Grindvíkingar því komnir í forystu gegn gangi leiksins.

Eftir markið féllu Grindvíkingar enn meira til baka og þéttu vörnina en á 63. mínútu kom fyrirgjöf inn á teig þeirra, sóknarmaður Eyjamanna tók á móti sendingunni og skallaði boltann í samskeytin óverjandi fyrir Dogotovic. Eyjamenn búnir að jafna, 1:1.

Það sem eftir lifði leiks sköpuðu bæði lið sér nokkur góð færi en fleiri mörk voru ekki skoruð. Liðin skiptu því með sér stigunum en hefðu bæði viljað fá meira út úr leiknum til að þokast nær toppnum.

Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók myndir sem eru í meðfylgjandi myndasafni. Grindavík streymdi leiknum beint og má sjá hann í spilaranum hér að neðan.

Grindavík - ÍBV| Lengjudeildin 7. september 2020