Íþróttir

Gríðarlega svekkjandi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 12. maí 2023 kl. 06:57

Gríðarlega svekkjandi

– segir Katla Rún Garðarsdóttir þrátt fyrir góðan árangur á tímabilinu

Katla Rún Garðarsdóttir er fyrirliði silfurliðs Keflavíkur í körfuknattleik kvenna en liðið hafnaði í öðru sæti á Íslandsmótinu og bikarkeppni KKÍ í ár. Katla hefur verið með Keflavík alla sína tíð og henni hefur ekki þótt nein ástæða að leita annað. Katla gerði upp tímabilið með Víkurfréttum og rakti feril sinn frá því að hún hóf að leika körfubolta.

Katla hóf sinn körfuboltaferil um svipað leyti og hún byrjaði í grunnskóla, um sex ára aldurinn og fyrsta spurningin er: „Af hverju körfubolti?“

„Mjög góð spurning – af því að það hafði enginn í minni fjölskyldu verið í körfubolta,“ segir Katla. „Ég held að þetta hafi bara verið af því að vinkonur mínar í skólanum fóru í körfu og ég svolítið elti. Ég var í fimleikum áður og var þá í fimleikum og körfu eins og margar litlar stelpur voru á þessum tíma. Svo valdi ég körfuna af því það var mun skemmtilegra. Fimleikaferillinn entist til tíu ára aldurs.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Engar aðrar íþróttir sem hafa komið í millitíðinni?

„Ég prófaði fótbolta í eitt sumar og fannst það alveg geggjað, þá var ég örugglega sjöunda bekk. Það var það skemmtilegt að ég var að hugsa um það eftir sumarið hvort ég ætti að velja fótbolta eða körfu. Svo um leið og leið og veturinn kom í fótboltanum var þetta orðið leiðinlegt, þegar við vorum að æfa inni. Ég hætti eiginlega um leið og karfan byrjaði.“

Unnu allt sem hægt var að vinna

Katla og félagar hennar í Keflavík sýndu fljótt að þær voru með yfirburðalið í sínum árgangi á landinu en þær eru fæddar árið 1999.

„Fyrst tókum við þátt í Íslandsmóti í minnibolta sem yngra lið, þ.e.a.s. við spiluðum upp fyrir okkur við stelpur sem voru ári eldri. Við töpuðum öllum leikjum fyrst, vorum að mæta miklu stærri og sterkari stelpum. Svo í síðustu túrneringunni á þeirri leiktíð unnum við alla leikina. Það var enginn bikar en okkur þótti þetta alveg geggjað. Svo þegar Íslandsmótið byrjaði aftur þá unnum við alla leiki og vorum langbestar í okkar aldurflokki, ‘99 árganginum og með nokkrar stelpur sem voru ári yngri.

Þessi ‘99 árgangur tapaði ekki leik upp alla flokkana. Við töpuðum ekki einum leik, vorum með mikið yfirburðalið á landinu. Það voru kannski eitt eða tvö lið sem gátu veitt okkur einhverja samkeppni.

Af þessum árgangi erum ég og Þóranna Kika [Hodge-Carr] ennþá að spila körfubolta. Hún er úti í Bandaríkjunum í námi. Svo voru nokkrar yngri stelpur sem spiluðu eiginlega alltaf með okkur, eins og Birna [Valgerður Benónýsdóttir], sem er að spila með mér í Keflavík, og Kamilla Sól [Viktorsdóttir] sem er í Njarðvík.“

Katla ásam þeim Þórönnu Kika og Andreu Einarsdóttur, Keflvíkingunum í liðinu, þegar þær urðu Evrópumeistarar U16 í C-riðli. „Við vorum í C-riðli því Ísland var ekki búið að senda frá sér lið á EM í U16 í nokkur ár á undan.“ Mynd úr safni Kötlu

Ágætis árangur – samt vonsvikin

Hvað finnst þér um tímabilið sem var að klárast, hvernig meturðu það?

„Ef maður lítur á tímabilið í heild, þegar maður lítur til baka og jafnvel fyrir tímabilið, þá held ég að árangurinn hafi verið ágætur hjá okkur – en samt er maður svo vonsvikinn að hafa ekki náð að vinna Íslandsmeistaratitilinn sem var náttúrlega stærsta markmiðið á tímabilinu. Líka skellurinn í bikarnum, þegar við töpuðum þeim leik [94:66 fyrir Haukum í úrslitum]. Þetta voru tveir stórir bikarar sem við vorum á höttunum eftir en töpuðum báðum. Við komumst þó í úrslitaleikina og fengum silfur í báðum, sem er flott en ekki það sem við vildum. Gull er auðvitað það sem við sækjumst eftir.“

Katla Rún á magnaðan feril að baki aðeins 24 ára. Hún hefur orðið Íslands- og bikarmeistari í körfubolta með öllum yngri flokkum Keflavíkur og einnig Íslands- og deildarmeistari með efstu deildarliði Keflavíkur og bikarmeistari í tvígang.

Þið voruð eiginlega með yfirburðalið í allan vetur.

„Já og eiginlega ekki það sem fólk var að búast við. Okkur var varla spáð í úrslitakeppnina fyrir tímabilið, sem er kannski ekkert skrítið því við komumst ekki í hana í fyrra. Mér bætingin á liðinu og leikmönnum á milli tímabila vera það mikil að mér finnst. Miklar framfarir og mikil leikgleði sem var í gegnum allt tímabilið hjá okkur.“

Keflavík deildarmeistarar Subway-deildar kvenna 2023. VF/JPK

Voru kannski væntingar stuðningsmanna orðnar ósanngjarnar?

„Ósanngjarnar eða ekki ósanngjarnar. Við vorum að sýna hversu gott lið við vorum í raun og veru, þetta er eitthvað sem við vissum fyrir tímabilið og vorum með háleit markmið. Maður setur sér ekki svona stór markmið nema að hafa trú á að maður geti náð þeim. Þetta fór svolítið frá því að í byrjun tímabils vorum við „underdogs“ ef maður má aðeins sletta, liðið sem þurfti að vinna sér inn virðingu – sanna sig.

Svo var þetta eiginlega búið að snúast við í allri umræðu þegar kom að úrslitunum, þá vorum við orðnar liðið sem þurfti að vinna en ekki öfugt. Sem er bara gott, okkur fannst þetta líka, við vorum fullar sjálfstrausts. Þetta er bara svona í körfunni, hausinn spilar mikið inn í og stundum skiptir ekki máli hvort liðið sé betra. Það skiptir máli hvort liðið hittir á betri dag, bæði lið eru vel undirbúin og þegar maður horfir til baka á seríuna á móti Val þá er rosalega stutt á milli liðanna. Við höfðum tækifæri til að vinna fyrsta leikinn en nýttum það ekki og þær vinna á vítalínunni, leikur tvö fór í framlengingu og leikur þrjú er eiginlega eini leikurinn sem var ekki jafn, leikurinn sem við unnum á heimavelli. Þetta er gríðarlega svekkjandi þegar maður hugsar til baka og fer yfir þetta.“

Hvað finnst þér um það að Hörður Axel sé hættur með liðið?

„Ég held að öllu liðinu finnist mikil eftirsjá í Herði. Hópurinn sem var með Herði í ár gekk vel og við vorum mjög ánægðar með hann. Hann er búinn að vera með okkur síðustu fjögur ár og búinn að kenna okkur mjög margt, gefa okkur fullt af tækjum og tólum til framtíðar í körfubolta. Það er mikill söknuður og við hefðum auðvitað viljað hafa hann áfram sem þjálfara.

Umræðan gagnvart honum, bæði sem þjálfara og leikmanns, hefur oft verið óvægin og ósanngjörn. Hann er frábær þjálfari og einstaklingur, hann hefur lagt mikið til klúbbsins og leikmanna sinna. Það er alls ekki sjálfgefið.

Ég held að fólk hafi ekki áttað sig á hve mikilvægur hlekkur hann var í Keflavíkurliðinu fyrr en hann meiddist, þá fór fólk svolítið að draga þetta til baka.“

Stelpurnar í Keflavíkurliðinu eiga eftir að sakna Harðar sem hefur verið með liðinu síðustu fjögur ár.

Líður vel í Keflavík

Katla fór aldrei út í það að huga alvarlega að námi erlendis og að spila körfubolta samhliða því. Það hefði eflaust staðið henni til boða hefði hún kosið að fara þá leið en Katla hefur spilað með öllum landsliðum Íslands.

„Ég var fyrst valin inn í U15 landslið Íslands, það fyrsta sem er í boði í rauninni. Svo var ég í U16, á yngra ári í U18 þannig að ég var þar í tvö ár. Sama með U20, var með því í tvö ár en svo er ég bara orðin of gömul fyrir yngri landsliðin. Ég hef farið í eitt A-landsliðsverkefni og svo var ég boðuð á landsliðsæfingar þarsíðasta sumar en þá var ég bara búin að ráðstafa sumrinu öðruvísi, þannig að ég gaf ekki kost á mér þá. Kallið kom bæði seint og hausinn var ekki í körfubolta þetta sumar – var búin að vera öll sumur síðan ég var fimmtán ára. Fyrsta sumarið sem ég var ekki í körfubolta var fyrsta Covid-sumarið. Maður var þvílíkt spenntur að fara til útlanda og gera eitthvað skemmtilegt ... en það varð ekki mikið úr því.“

Meistarinn Katla

Katla Rún á magnaðan feril að baki aðeins 24 ára. Hún hefur orðið Íslands- og bikarmeistari í körfubolta með öllum yngri flokkum Keflavíkur og einnig Íslands- og deildarmeistari með efstu deildarliði Keflavíkur og bikarmeistari í tvígang. Spurning hvort annar leikmaður á landinu hafi leikið þetta eftir? Hér er Katla í leik með U18 á Evrópumótinu 2017. Mynd úr safni Kötlu


En hvarflaði aldrei að þér að fara út í háskóla?

„Það var einhver fjarlægur draumur hjá mér, eins og kemur upp hjá öllum á einhverjum tímapunkti held ég. Svo einhvern veginn þegar ég er að útskrifast þá var þetta ekki lengur ofarlega á óskalistanum hjá mér, það heillaði mig ekki eins og svo marga.

Margar vinkonur mínar hafa farið út og upplifanir þeirra eru misjafnar en það er auðvitað frábært að geta gert þetta ef maður hefur áhuga á því. Ég held að ég hefði getað farið eitthvert hefði ég viljað það, ég fór aldrei út í það einu sinni að kanna þann möguleika. Ég veit ekki, kannski er ég bara svona heimakær. Mér líður vel hérna í Keflavíkinni.“

Í hvaða skóla fórstu eftir grunnskóla?

„Ég fór í Verzló eftir grunnskóla, þannig að ég var alla daga að keyra brautina, og hélt því svo áfram og fór í HR [Háskólann í Reykjavík] þar sem ég lærði viðskiptafræði. Núna er ég að vinna í skrifstofustarfi á bílaleigunni Geysi. Maður verður að halda fjölskyldufyrirtækinu uppi,“ segir hún og hlær. „Það er ekki hverjum sem er treyst fyrir því.“

Katla er að verða 24 ára en samt orðin ein af elstu og reyndustu leikmönnum Keflavíkurliðsins.

„Ég á nóg eftir og bý skyndilega yfir mikilli reynslu,“ segir Katla. „Rosalega skrítið að vera elst allt í einu. Ég var elst af íslensku leikmönnum liðsins framan af tímabilinu, alveg þangað til Emelía [Ósk Gunnarsdóttir] kom aftur. Fínt að hafa hana þarna, hún tók fram úr mér – er einu ári eldri.

Thelma Dís [Ágústsdóttir] er eldri en ég. Hún er að klára skólann og það verður spennandi að sjá hvað hún gerir,“ sagði fyrirliðinn Katla Rún sem er tilbúin í slaginn á næsta tímabili.