Grátlegt tap Íslands gegn Belgíu á Eurobasket
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson hæstur í +/-
Ísland komst nærri fyrsta sigri sínum á Eurobasket en eftir að hafa leitt nánast allan leikinn, náðu Belgar að snúa leiknum sér í vil á lokamínútunum og unnu sigur, 64-71. Ísland leiddi með sjö stigum, 62-55 en töpuðu lokamínútunum 2-16!
Suðurnesjamennirnir í íslenska landsliðinu gerðu sitt besta og var Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson til að mynda hæstur í hinni athyglisverðu +/- tölfræði, Ísland vann með tíu stigum á meðan hans naut við. Tryggvi Hlínason var hins vegar langbesti leikmaður liðsins, endaði með 32 framlagspunkta (20 stig, 10 fráköst og 5 varin skot).
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson lék vel en var ekki með síðustu mínúturnar og er spurning hvort hann glími við meiðsli. Hinn Njarðvíkingurinn, Kristinn Pálsson, hitti best fyrir utan þriggja stiga línuna, hitti úr 2/7 skotum sínum en léleg þriggja stiga hittni var á meðal sökudólga yfir að ekki vannst sigur. Hins vegar þarf að skoða síðustu mínúturnar, Ísland virtist vera með leikinn í hendi sér og fyrsti sigurinn í augsýn, en allt kom fyrir ekki.