Fréttir

Reykjanesbær kallar eftir þjóðhagslegri greiningu á áhrifum Keflavíkurflugvallar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 30. ágúst 2025 kl. 06:31

Reykjanesbær kallar eftir þjóðhagslegri greiningu á áhrifum Keflavíkurflugvallar

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar leggur áherslu á að við endurskoðun aðalskipulags Keflavíkurflugvallar til ársins 2040 verði gerð ítarleg þjóðhagsleg greining á áhrifum starfseminnar. Flugvöllurinn er stærsta atvinnusvæði Suðurnesja og þróun hans mun hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf, byggðaþróun og samgöngur í öllum nærliggjandi sveitarfélögum.

Ráðið telur nauðsynlegt að greiningin taki mið af áætluðum vexti starfseminnar og fjölgun farþega. Meta þurfi áhrif á innviði og samgöngur, húsnæðisþörf og byggðaþróun, auk umhverfisáhrifa. Með heildstæðum gögnum sé hægt að taka upplýstar ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu á svæðinu.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

Kallar á samráð við sveitarfélög og atvinnurekendur

Í bókun ráðsins er jafnframt lögð áhersla á aukið samtal og samráð um þróun flugvallarsvæðisins. Mikilvægt sé að halda reglulega kynningarfundi með sveitarfélögum í nágrenni flugvallarins, sem og eigendum fyrirtækja og atvinnurekendum á svæðinu. Með því komist sjónarmið allra að borðinu og stuðlað verði að sameiginlegri framtíðarsýn.

Ráðið telur að með markvissri upplýsingamiðlun og góðu samtali megi betur mæta sameiginlegum hagsmunum Isavia og sveitarfélagsins. Reykjanesbær þurfi áfram að skapa gott samfélag og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir það framtíðarvinnuafl sem flugvallarstarfsemin krefst.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25