Byrjunarlið Njarðvíkur mætt til Katowice
„Njarðvíkingur labbaði fram hjá okkur og hváði við; „hey, er þetta ekki byrjunarlið Njarðvíkur?“ og við litum á hvorn annan og áttuðum okkur á að það var rétt,“ segir körfuknattleiksgoðsögnin úr Njarðvík, Teitur Örlygsson. Hann er staddur úti í Katowice í Póllandi ásamt rúmlega þúsund Íslendingum en talið er að 1500 Íslendingar verði á leikjunum um helgina, á morgun mætir íslenska liðið Belgum kl. 12 að íslenskum tíma, og á sunnudagskvöld mæta þeir heimamönnum frá Póllandi.
Það var aldrei spurning í huga Teits og Lísu konunnar hans að mæta til Póllands.
„Við flugum út á miðvikudaginn, beint flug til Katowice með Icelandair og er búið að vera einkar notalegt að vera hér í u.þ.b. 30 gráðu hita. Einhver handboltaaðdáandinn sem fylgir íslenska handboltalandsliðinu alltaf út í janúar, var að öfundast út í okkur að geta verið í sól og sumaryl að styðja við körfuboltalandsliðið okkar.
Við Lísa erum í íbúð nálægt miðbænum ásamt vinum okkar, erum tæpar tíu mínútur að labba og eftir því sem nær dregur sjást fleiri og fleiri blár treyjur og það gefur yl í hjartað. Við Íslendingarnir erum búnir að hertaka tvo bari í miðbænum og svo er fanzone við keppnishöllina. Þegar við vorum mætt þangað í gær þá leið manni eins og á ættarmóti, athyglisvert að rekast á gamla andstæðinga en í Póllandi erum við allir samherjar. Ég veit fátt skemmtilegra en að vera erlendis að styðja við landsliðið okkar, þetta minnir mig á frábæra ferð til Rússlands að styðja íslenska landsliðið í fótbolta. Ætli maður skelli sér ekki bara út í janúar að styðja við handboltalandsliðið!
Þetta með byrjunarlið Njarðvíkur var fyndið, við vorum að tala saman, ég, Frikki Ragnars, Palli K, Frikki Stefáns og Hermann Hauks, þegar Njarðvíkingur labbaði framhjá og fattaði að við hefðum verið byrjunarlið í einhverjum leiknum á sínum tíma. Ronday eða Kaninn okkar á þessum tíma hefur verið meiddur og þetta því byrjunarliðið, við hefðum átt að hnippa í Friðrik Inga þjálfara sem var þarna rétt hjá, hann var örugglega að þjálfa okkur á þessum tíma. Þetta er skemmtilegt, það er frábær andi hér og gaman að vera hér saman, körfuboltafjölskyldan. Af því að Lísa mín vinnur hjá Icelandair er kjörið að koma með slagorð þeirra; „Við erum öll í sama liði.“
Ísland verður að hitta á góðan skotdag
Teitur var ekki ánægður með hvernig íslenska liðið kláraði leikinn í gær.
„Það er ljóst að við verðum að hitta á góðan skotdag á móti þessum liðum, annars eru ansi margar vígtennur farnar úr okkur. Við vorum líka í vandræðum með stóra manninn þeirra, Tryggvi á erfitt með að vera elta hann mikið út og sá ísraelski hitti úr öllum skotum og þá var vörnin orðin erfið líka. Það að vera í vandræðum í vörninni og hitta ekki vel hinum megin, er ekki góð blanda og hvað þá þegar verið er að etja kappi við svona sterkar þjóðir. Ég mat stöðuna þannig fyrir mótið að mesti möguleikinn á fyrsta sigri Íslands í Eurobasket væri á móti Belgum, sá leikur er kl. 12 á morgun að íslenskum tíma og hlakka ég mikið til. Ég er sannfærður um að við fáum góðum leik frá okkar helstu kanónum og ef það gerist eigum við góðan möguleika á sigri. Við Lísa verðum fram á miðvikudag, náum því öllum leikjunum nema lokaleiknum gegn Frakklandi. Áfram Ísland!,“ sagði goðsögnin Teitur að lokum.