ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Íþróttir

Þróttur í Vogum komnir á toppinn í 2. deild
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 26. ágúst 2025 kl. 16:16

Þróttur í Vogum komnir á toppinn í 2. deild

Knattspyrnusumrinu fer senn að ljúka en ljóst að mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en kemur í ljós hvar Suðurnesjaliðin enda. Í þessum pistli verður neðri deildunum gerð skil en líka minnst á næstu leiki Lengjudeildarliðanna í karla- og kvennaflokki.
  1. deild karla

Þróttarar úr Vogum hafa nýtt fall Ægismanna frá Þorlákshöfn af toppnum en þeir síðarnefndu eru eins og sprunginn vindill og hafa tapað þremur leikjum í röð. Vogamenn hafa á sama tíma nýtt tækifærið og unnið þrjá í röð, þann fyrsta einmitt á móti Ægi. Síðast vann Þróttur lið Hauka á útivelli, 0-1, með marki Rúnars Inga Eysteinssonar, ellefta mark Rúnars í sumar. Það eru þrír leikir eftir og líklegt að þrjú lið muni býtast um sætin tvö sem gefa rétt til að leika í Lengjudeildinni að ári, Grótta er með jafnmörg stig og Ægi, 35 og eru bæði lið stigi á eftir Þrótturum. Næsti leikur Þróttar á laugardaginn kl. 16 á útivelli á móti Kormáki/Hvöt.

Víðir úr Garði hefur ekki tapað leik í fimm leikjum og hafa þokað sér úr fallsæti en ekki munar miklu, þeir eru með 19 stig en Kári er með 18 og Höttur/Huginn með 17. KFG er tveimur stigum á undan Víðismönnum. Víðir fékk Kormák/Hvöt í heimsókn á laugardaginn og gerðu jafntefli, 1-1, eftir að hafa lent undir. Erlendur Guðnason jafnaði leikinn í fyrri hálfleik og fleiri mörk litu ekki dagsins ljós. Víðismenn geta komið sér upp í 9. sæti deildarinnar með sigri á KFG í næsta leik, sem fer fram í Garði á laugardag kl. 16.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
  1. deild karla

Reynismenn með tvo flotta sigra í röð en líklega er of seint í rassinn gripið varðandi vonina um að komast upp í 2. deild, níu stig eru í Hvíta riddarann sem eru í 2. sæti og bara þrír leikir eftir. Það breytir því ekki að Reynismenn vilja enda tímabilið vel en eins og fram kom í viðtali við Ray Antony Jónsson, þjálfara liðsins, fyrir mót, þá leit út fyrir að þetta yrði síðasta tímabilið sem leikið yrði undir merkjum Reynis því útlit var fyrir stofnun nýs liðs Suðurnesjabæjar. Það varð ekki svo Reynismenn munu halda ótrauðir áfram og verður fróðlegt að fylgjast með hvort Ray muni þjálfa liðið áfram. Næsti leikur liðsins á móti Augnabliki en þeir eru í þriðja sæti, sex stigum á undan Reynismönnum og því um sex stiga leik í orðsins fyllstu merkingu að ræða. Leikurinn á heimavelli í miðjum Vitadögum, á fimmtudag kl. 18.

  1. deild karla

Hafnamenn með tap í síðasta leik, 1-2 á móti Vængjum Júpiters. Mark Hafna skoraði Kristófer Orri Magnússon. Næsti leikur á laugardag kl. 14 í Eyjum á móti KFS.

  1. deild karla

RB-menn luku leik þetta árið á mánudagskvöld með tapi á heimavelli, 2-3 á móti BF 108. Mörk þeirra skoruðu Finnur Valdimar Friðriksson og Juan Ignacio Garcia Baez.

Lengjudeild kvenna

Sannkallaður Suðurnesja-stórslagur á laugardaginn en þá mætast Keflavík og Grindavík/Njarðvík kl. 16. Hlutskipti liðanna ólík, Grindavík mun með sigri í þessum leik og þeim síðasta gegn HK, tryggja sér sæti í Bestu deildinni að ári. Keflavík hefur valdið miklum vonbrigðum eftir að hafa ætlað sér sæti á ný í Bestu deildinni en þær eru í 8. sæti. Keflavíkurkonur munu eflaust sýna stolt í þessum stórleik á laugardaginn og eru allir Reykjanesbæingar og Grindvíkingar hvattir til að mæta.

Lengjudeild karla

Njarðvíkingar hafa gefið eftir á lokasprettinum með tveimur töpum í röð og eru komnir í þriðja sætið. Það munar samt ekki nema tveimur stigum á þeim og toppliði Þórs en töpin tvö komu einmitt á móti þeim og Þrótti Reykjavík þar áður, sem eru í 2. sæti, stigi á undan Njarðvík. Það eru níu stig eftir í pottinum og Njarðvíkingar fá tækifæri á að hrista slyðruorðið af sér í næsta leik á föstudag kl. 18, á móti Leikni sem er í 10. sæti.

Keflvíkingar leika einn sinn mikilvægasta leik í háa herrans tíð á föstudag kl. 18, mæta þá ÍR á útivelli en ÍR er í 5. sæti, þremur stigum á undan Keflavík sem er í 6. sæti. Þetta verður fróðlegur leikur, hjá ÍR er fyrrum uppalinn leikmaður Keflavíkur, Gabríel Aron Sævarsson. Hann fékk að fara til Breiðabliks á miðju sumri, sem lánaði hann út tímabilið til ÍR og piltur því löglegur gegn sínum gömlu félögum.

Grindvíkinga bíður hatrömm fallbarátta, þeir töpuðu illa í síðasta leik á móti Fylki, 0-4 og ferðast norður til Húsavíkur á laugardag kl. 14 og mæta Völsungi, sem er einu stigi á undan Grindavík sem er í áttunda sæti. Það eru ekki nema þrjú stig í neðsta liðið svo ljóst að mikil barátta er framundan á botni og toppi Lengjudeildar karla.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25