Vel heppnað kvennagolfmót Bláa Lónsins á Húsatóftavelli
Árlegt kvennagolfmót Bláa Lónsins var haldið á Húsatóftavelli í Grindavík þann 8. ágúst sl. Mótið hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár og komust færri að en vildu, en rúmlega 80 konur tóku þátt í mótinu.

Karlotta Einarsdóttir sigraði í flokki án forgjafar og Petra Rós Ólafsdóttir í flokki með forgjöf. Eins voru veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sæti í báðum flokkum, sem og nándarverðlaun á öllum sex par-3 brautum vallarins.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa Lóninu setti mótið ásamt Helga Dan Steinssyni, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Grindavíkur.

„Kvennagolfmót Bláa Lónsins er orðið fastur liður í árangursríku og gefandi samstarfi okkar og Golfklúbbs Grindavíkur. Við höfum fylgst með uppbyggingu klúbbsins síðustu misseri með aðdáun og fögnum aukinni aðsókn þrátt fyrir krefjandi aðstæður undanfarið, enda utanumhald allt og umsjón til mikillar fyrirmyndar.” sagði Helga við setninguna.
„Bláa Lónið hefur stutt vel við bakið á golfklúbbnum undanfarin ár sem hefur verið dýrmætt fyrir uppbyggingu á vellinum og mikilvægt fyrir okkur að finna fyrir stuðningi fyrirtækja í okkar nærsamfélagi” sagði Helgi Dan.
Mikil kæti var meðal kylfinga sem létu vindinn ekki stoppa sig, og fögnuðu góðum degi í golfskála Golfklúbbs Grindavíkur að móti loknu með úrvals veitingum frá veitingastaðnum Lava í Bláa Lóninu.