Formaður Reynis flytur frá Reykjanesi á Reykjanes
90 ára afmæli Reynis fagnað á Vitadögum
„Ég stökk á tækifærið þegar haft var samband við mig í vor og kannski skondið að ég flyt frá Reykjanesi til Reykjaness, ég bý á Reykhólum sem eru hluti af öðru Reykjanesi, við Breiðafjörð,“ segir Sandgerðingurinn Ólafur Þór Ólafsson en hann tók við stöðu sveitastjóra Reykhólahrepps í sumar og af þeim sökum m.a. mun hann láta af embætti formanns Reynis sem hann hefur gegnt frá árinu 2021. Reynir fagnar einmitt 90 ára afmæli á þessu ári og var ákveðið að sameina hátíðarhöldin öðrum hátíðarhöldum í Suðurnesjabæ, Vitadögum - hátíð milli vita en hún fer fram 25-31. ágúst.
Ólafur svaraði kallinu frá Reyni þegar mannabreytingar voru í aðsigi hjá aðalstjórninni og það vantaði hendur á dekk.
„Ég var ennþá sveitarstjóri á Tálknafirði þegar ég var beðinn um að koma að aðalstjórn Reynis og gat ekki annað en svarað kallinu, þetta er félagið mitt og ég vildi leggja mitt af mörkum. Í venjulegu árferði er ekki mesta vinnan hjá aðalstjórn heldur hjá deildum félagsins og þar er knattspyrna lang stærst í dag og hefur sjálfsagt alltaf verið fyrirferðamest. Hér áður fyrr var nokkuð mikið um körfubolta og handbolta og Reynir heldur úti körfuknattleiksdeild í dag en handbolti og sund eru í hvíld. Hverju um er að kenna að ekki er eins mikil virkni í dag og þegar ég var t.d. að alast upp er ekki gott að segja en það er held ég ekki hægt að líkja tíðarandanum í dag við þann tíma þegar ég var ungur. Þá var í raun ekkert annað í boði en vera í íþróttum. Það er líka auðveldara í dag fyrir krakka að æfa t.d. körfuknattleik í Reykjanesbæ, það tíðkaðist ekki hér áður fyrr, þá æfðu krakkar bara með sínu liði. Reynir komst upp í úrvalsdeild árið sem Kanarnir voru leyfðir aftur og handknattleiksliðið okkar var hársbreidd frá því að leika á meðal þeirra bestu. Hjá fótboltanum var afrek að hafa orðið bikarmeistarar í öðrum flokki tvö ár í röð og sá árgangur var mjög nálægt því að komast upp í efstu deild. Kvennalið félagsins komst upp í efstu deild árið 1997 ef ég man rétt en þurfti svo að draga sig úr leik þegar á stóra sviðið var komið, þetta er kannski stærsta afrek félagsins en í leiðinni stærsta skömmin. Þetta segir okkur hversu langt við erum komin í dag, þetta myndi aldrei gerast í dag að kvennalið kæmist upp í efstu deild og myndi svo draga sig úr keppni.“
Byggja upp samfélag
Áður en Knattspyrnufélagið Reynir var stofnað var starfandi ungmennafélag í Sandgerði en það lognaðist út af og nokkrum árum síðar tóku nokkrir Sandgerðingar sig til og stofnuðu félag því þeir vildu keppa í knattspyrnu. Formlegur stofndagur er 15. september 1935 en Sandgerðingar ákváðu að slá afmælisdeginum upp með bæjarhátíð Suðurnesjabæjar, Vitadagar - hátíð milli vita, sem fram fer dagana 25-31. ágúst. 90 ára afmælinu verður fagnað föstudagskvöldið 29. ágúst.
„Það sem er mikilvægast í þessari 90 ára sögu Reynis er hlutverk félagsins við að byggja upp samfélagið í Sandgerði. Samkomuhúsið okkar var upphaflega félagsheimili Reynis, byggt af gallhörðum Sandgerðingum og kvenfélagið Hvöt kom líka að því. Íþróttafélög í bæjarfélögum eru oftar en ekki uppspretta gleði og sorgar í samfélögunum, titlar hafa unnist og vonbrigði koma inn á milli og ekki má gleyma hlutverki félagsins í öllu unglingastarfi, við vitum öll hversu hollt það er börnum að taka þátt í íþróttastarfi. Mér finnst það vera eftirtektarverðast í sögulegu tilliti og áður hef ég minnst á árangur inni á vellinum.
Ég var talsmaður þess að félögin í Suðurnesjabæ myndu leika undir sama hatti en það voru greinilega það miklar tilfinningar í spilinu að meirihlutinn gat ekki hugsað sér að ekki yrði lengur keppt undir merkjum Reynis eða Víðis. Svona virkar lýðræðið og það verður að virða en ég viðurkenni fúslega að þetta er hluti ástæðu þess að ég segi skilið við formannsembættið á aðalfundinum í september, ég var á annarri línu og tel best að nýjar raddir taki við. Aðalástæðan er samt sú að ég er fluttur á annað Reykjanes, ég hef tekið við stöðu sveitarstjóra Reykhólahreppar, sem er syðsta sveitarfélagið á Vestfjörðum. Ég bý á Reykhólum og kannski skondið að það tilheyrir öðru Reykjanesi, við Breiðafjörð. Ég hætti nú samt ekki að vera Reynismaður og er viss um íþróttastarf í Suðurnesjabæ eigi sér bjarta framtíð. Byrjum á að fagna þessu stórafmæli og verður því fagnað glæsilega. Við byrjum á hinni árlegu keppni á milli Norður- og Suðurbæjar í Sandgerði á föstudagseftirmiðdegi. Um kvöldið er svo glæsileg afmælishátíð í Samkomuhúsinu í Sandgerði og mun landslið tónlistarfólks koma og skemmta, Stuðlabandið sem er ein vinsælasta ballhljómsveit landsins mun spila á ballinu og þeir Eyþór Ingi og og Emmsjé Gauti koma líka fram. Ég held að þetta verði mikið stuð og vona að sem flest Reynisfólk komi og gleðjist með okkur á þessum tímamótum,“ segir Ólafur Þór.

Aftur í stól sveitarstjóra
Ólafur Þór gegndi embætti sveitarstjóra Tálknafjarðar á árunum 2020 til 2024 og var það m.a. ástæða þess að haft var samband við hann í vor frá Reykhólahreppi, þegar fráfarandi sveitarstjóra bauðst annað starf.
„Ég tek við góðu búi af Ingibjörgu Birnu en það að reka sveitarfélag er í grunninn eins alls staðar, hvort sem það heitir Reykhólahreppur eða Reykjavík, umfangið er bara misjafnt. Aðalmunurinn á Reykhólahreppi og Tálknafirði þar sem ég var sveitarstjóri, er að svæðið er svo víðfeðmt. Það búa um 300 manns í Reykhólahreppi en þeir eru dreifðir á mun stærra svæði og það hefur í för með sér ýmsar áskoranir, t.d. hvað varðar öryggismál og fyrsta viðbragð. Mér líst vel á mig í þessu starfi, það eru fá störf eins fjölbreytt og starf sveitar- og bæjarstjóra. Eðlilega er ég bara ráðinn fram að næstu sveitarstjórnarkosningum og svo kemur bara í ljós hvort ég verði lengur á Reykhólum en þetta eina ár sem er eftir af kjörtímabilinu, ég tek bara eitt skref í einu. Að sjálfsögðu verð ég áfram viðloðandi Sandgerði enda á ég þar ennþá hús. Þar búa líka yngstu börnin mín, margir kærir vinir og verkefni sem tengjast tónlistargyðjunni.” sagði Ólafur Þór að lokum.
