Sögulegar heimsóknir forseta Íslands til Keflavík í lifandi myndum
Kvikmyndasafn Íslands hefur opnað dýrmætan fjársjóð fyrir áhugasama um sögu lands og þjóðar. Meðal myndefnis sem nýlega hefur verið gert aðgengilegt á vef safnsins, islandafilmu.is, eru einstakar heimildir eftir hinn þekkta kvikmyndara Vigfús Sigurgeirsson. Þar má sjá áður ósýndar upptökur frá opinberum heimsóknum forseta Íslands til Keflavíkur á árunum 1944 og 1955. Þessar myndir veita sjaldséða innsýn í hátíðleg augnablik í sögu bæjarins og endurspegla jafnframt upphafsár lýðveldisins.
Kvikmyndasafn Íslands hefur sett inn mikið efni eftir Vigfús Sigurgeirsson á vef sinn islandafilmu.is. Vefurinn hefur hlotið ákaflega góðar viðtökur frá því að hann opnaði árið 2020 og hefur að geyma um 700 myndskeið og heilar myndir sem fólk getur horft á sem og að fjölmiðlar geta notað hlekki á efni tengt fréttum eða öðrum umfjöllunum sér að kostnaðarlausu.
Vigfús Sigurgeirsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar og í því myndefni sem birtist nú almenningi er að finna hluta af því myndefni sem Vigfús tók á ferðum forseta Íslands. Stærstur hluti þess efnis hefur sjaldan eða aldrei verið sýndur opinberlega, en um er að ræða myndir af fyrstu forsetum Íslands, sér í lagi af Sveini Björnssyni og Ásgeiri Ásgeirssyni.
Meðal efnis sem birt verður er þetta myndskeið af opinberri heimsókn Sveins Björnssonar, þá nýkjörnum forseta Íslands, til Keflavíkur í september árið 1944. Alfreð Gíslason lögreglustjóri í Keflavík sést taka á móti Sveini. Ung stúlka, Anna Þorgrímsdóttir, afhendir Sveini blómvönd. Skrúðganga er gengin til heiðurs forsetanum þar sem skátar fara fremstir í flokki með íslenska fánann. Komið að sjúkrahúsinu sem var í byggingu. Keppt í boðsundi í sundlauginni.
Einnig er að finna opinbera heimsókn forsetahjónanna Ásgeirs Ásgeirssonar og Dóru Þórhallsdóttur til Keflavíkur í júní árið 1955. Alfreð Gíslason, bæjarfógeti, tekur á móti þeim og einnig Valtýr Guðjónsson, bæjarstjóri Keflavíkur. Þá heilsa forsetahjónin bæjarfógetafrúnni, Vigdísi Jakobsdóttur og bæjarstjórafrúnni, Elínu Þorkelsdóttur. Skrúðganga í skrúðgarðinn þar sem móttökuhátíð hefst. Að henni lokinni er Keflavíkurkirkja heimsótt, Séra Björn Jónsson stendur fyrir utan kirkjuna. Ýmsar byggingar bæjarins skoðaðar: Sjúkrahúsið, barnaskólinn í Keflavík, gagnfræðaskólinn, sundhöll Keflavíkur og hafnarsvæði Keflavíkur.