Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

„Einstaklingur með góðan orðaforða er með góða sjálfsmynd“
Laugardagur 16. ágúst 2025 kl. 06:05

„Einstaklingur með góðan orðaforða er með góða sjálfsmynd“

Metnaðarfullt og skapandi verkefni á leikskólanum Gefnarborg í Garði

Á leikskólanum Gefnarborg í Garði hefur starfsfólkið staðið fyrir metnaðarfullu og skapandi verkefni sem nefnist Læsistengd skynjun. Verkefnið snýst um að efla lesskilning og orðaforða barnanna með því að nálgast bókmenntir á fjölbreyttan og skynrænan hátt. Með því að nálgast sögurnar enn frekar í gegnum myndir, snertingu, leik, samtöl og túlkun fá börnin enn dýpri skilning á sögunum og tungumálinu. Við lifum á tímum þar sem íslenskan á undir högg að sækja. Ingibjörg Jónsdóttir leikskólastjóri og hennar starfsfólk á leikskólanum hafa að mörgu leyti brugðist við ákallinu um að snúa þessari þróun við með því að þróa verkefnið Læsistengd skynjun.

Ingibjörg Jónsdóttir leikskólastjóri Gefnarborgar í Garði.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Góð tungumálakunnátta undirstaða alls

Ingibjörg vill meina að tungumálið okkar sé undirstaða allrar færni sem við tileinkum okkur.

Að kunna að nýta sér tungumálið á skilvirkan hátt er því ekki einungis lykill að samskiptum, heldur forsenda þess að vaxa sem einstaklingur, skilja heiminn í kringum sig og byggja upp sterka og örugga sjálfsmynd. Góð sjálfsmynd er sjaldan reist á óstöðugum grunni. „Við erum ekki að kenna þeim að lesa, en við leggjum inn alla grunnþættina og þar drögum við út orðaforða. Þá tökum við út orðaforðann því að góður orðaforði hefur svo áhrif á marga aðra þætti. Einstaklingur með góðan orðaforða er með góða sjálfsmynd, er öruggari. Börnin verða öruggari að fara inn í leikinn, segja sína skoðun, finna að þau hafi rödd. Þegar þau koma fyrst inn eru þau ekki komin með máltjáninguna en þá er það okkar að efla orðaforðann hjá þeim,“ sagði Ingibjörg.

Metnaðarfullt verkefni

Verkefnið er leitt af nokkrum teymum, hvert og eitt teymi samanstendur af þremur einstaklingum sem velja þrjár bækur sem lesnar eru yfir sex vikna tímabil. Lögð er mikil áhersla á að íslenska sé tungumálið sem er talað í leikskólanum. Í leikskólanum starfa nokkrir einstaklingar sem eru af erlendum uppruna.  Ingibjörg leggur áherslu á að í Gefnarborg ríki mikill skilningur á að til þess að hægt sé að leiða verkefnið á áhrifaríkan hátt sé nauðsynlegt að einn úr teyminu búi yfir framúrskarandi hæfni á íslenska tungumálinu. Annars sé flóknara að ná framförum.

Unnið er þrisvar sinnum í viku í Læsistengdri skynjun, á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum. Ingibjörg útskýrir að verkefnið sé ekki unnið á hverjum degi svo að hægt sé að skapa svigrúm fyrir umræður. Yfir þetta sex vikna tímabil eru bækurnar endurteknar aftur og aftur fyrir börnin, Ingibjörg segir að endurtekning sé það sem börn þurfa. Þegar foreldrar lesi fyrir börnin sín sé markmiðið alls ekki að klára bókina heldur sé endurtekningin svo mikilvæg. Endurtekning ýtir af stað samtali milli barns og foreldris sem leiðir til dýpri skilnings á sögunum. Á hverjum mánudegi hittast teymin sem taka þátt í verkefninu á örfundum í 20 mínútur í senn. Á fundunum bera teymin saman bækur sínar og ræða sín á milli hvernig gengur, hvernig þátttaka barnanna sé og hvernig þau sem leiða verkefnið séu að nýta styrkleika barnanna. Þegar sex vikur hafa liðið er hvílt í viku. Á þeim tíma taka teymin saman árangur barnanna og skrá framfarir og annað sem máli skiptir. Síðar meir er hægt að bera saman árangur verkefnisins sem og framvindu barnanna.

Endalaus tækifæri í náttúrunni

Ingibjörg minnist á svokallaðan skynjunarkassa sem þau notast við út frá mörgum bókum. Hún tekur sem dæmi bókina Vala fer í Húsdýragarðinn, sem börnin hafa verið að lesa. Starfsfólkið fann efnivið sem tengdist bókinni og leyfðu börnunum að þreifa á, finna lykt og skoða leður, ull, kjálkabein úr kind og tagl af hesti á meðan lestrinum stóð. Flesta dagana fóru þau í vettvangsferðir niður að sjó. Á leiðinni hittu þau hesta, þau smökkuðu hundasúrur og skoðuðu þara. Þau lögðust í grasið og sáu myndir í skýjunum. Þar næst unnu þau með efniviðinn sem þau fundu í fjörunni og tengdu við selinn sem þau lásu um í bókinni. Gefnarborg sér svo sannarlega mörg tækifæri í náttúrunni, enda þarf ekki að fara langt til að nálgast hana. „Heilbrigði og velferð kemur líka mikið inn í læsistengda skynjun því að allt sem fer fram inni getur líka farið fram úti. Við getum alveg setið inni og lesið bókina og við getum tengt ýmislegt við bókina sem á sér stað úti,“ segir Ingibjörg.

Kveikjan að verkefninu

Kveikjan að verkefninu hófst þegar ný viðbygging bættist við leikskólann árið 2019, þá skapaðist svigrúm til að endurskoða allt starfið. Ingibjörg, ásamt öðru starfsfólki leikskólans, heimsótti leikskóla í Póllandi sem er að vinna með alls kyns skynjun. Ingibjörg segir að eftir ferðina hafi hugmyndin að verkefninu kviknað.

Markmið verkefnisins er að stuðla að og efla félagslega þátttöku barna með skynreiðu að leiðarljósi þar sem unnið var með læsi, útinám og sköpun. Fram að því fóru þau að vinna markvisst að því sem þau kalla í dag læsistengda skynjun.

Gefnarborg stuðlar að inngildingu

Í leikskólanum eru um 100 börn en á meðal þeirra er nokkuð hátt hlutfall barna af erlendum uppruna sem hafa ekki náð góðum tökum á íslenskunni. Til þess að efla þau börn og jafnframt þróa sterkari skilning og samkennd hinna barnanna, var sett á laggirnar verkefnið Menningararfleifð sem helst í hendur við Læsistengda skynjun. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við foreldra barna af erlendum uppruna. Rýnt var í þjóðsögur og menningu viðkomandi barna sem og þjóðsögur Íslendinga. Í framhaldinu var ýtt af stað dýpra samtali milli barnanna um það sem þau deildu af sinni heimamenningu og bakgrunni. Í kjölfar verkefnisins hefur starfsfólk leikskólans tekið eftir aukinni víðsýni barnanna. Þátttaka foreldranna í verkefninu var börnunum sem og starfsfólkinu afar áhrifarík og skipti sköpum, auk þess sem hún leiddi til enn betri samskipta. Ingibjörg talar um að með verkefni eins og þessu sé hægt að valdefla börnin, láta þau finna að þau tilheyri samfélaginu í leikskólanum og að láta þau finna að þau hafi eitthvað jákvætt fram að færa sem hefur góð áhrif á leikskólann.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um börnin, velferð þeirra. Við erum að vinna með það dýrmætasta sem fólk á, það er ekkert dýrmætara en börnin og þess vegna er svo svakalega mikilvægt að það sé vandað til verka,“ segir Ingibjörg. „Rauði þráðurinn er að við erum öll í sama liði, börnin, starfsfólk og foreldrarnir.“

Allir styrkleikar nýttir

Það er einstök upplifun að koma inn á leikskólann og finna fyrir þeim einstaka starfsanda sem ríkir í Gefnarborg. Samskipti á vinnustaðnum einkennast af trausti, hlýju og gagnkvæmri virðingu.

Ingibjörg talar um að það sé mikið lagt upp úr því að greina styrkleika hvers og eins og nýta þá á markvissan hátt. Hver og einn hefur eitthvað einstakt og mikilvægt fram að færa. Þannig myndast öflugt og fjölbreytt teymi þar sem ólíkir styrkleikar og sérkenni sameinast í eina sterka liðsheild.

„Við erum leikskóli sem vill vera í stöðugri þróun og við gerum það með því að nýta styrkleika hvers og eins,“ segir Ingibjörg.

Hrædd um að íslenskan glatist

„Ég hef alltaf verið rosalega spennt fyrir Grænlandi og Færeyjum, af því það er svolítið margt sem tengir okkur, það er tungumálið okkar, við erum lítil samfélög í þessum stóra alheimi, sterk þjóðsagnarhefð og menning, en við eigum líka hættu á að tapa menningu okkar.“ Ingibjörg bætir við að hún sé virkilega hrædd um að íslenskt tungumál glatist.

„Hvaða áhrif hefur það á okkur ef við töpum íslenskunni? Þá missum við í rauninni allan bakgrunn okkar og við missum fyrir hvað við stöndum sem og sjálfsmyndina okkar, af því við byggjum hana á okkar arfleifð og við getum lesið hana, hvað gerist þegar við getum það ekki, þegar við höfum ekkert á bak við okkur?“, sagði Ingibjörg.

Starfsfólk Gefnarborgar tók sig saman og hafði samband við leikskóla á Grænlandi og í Færeyjum og kynntu þeim fyrir verkefninu Læsistengd skynjun.

Læsistengd skynjun

Leikskólunum leist vel á verkefnið og í kjölfarið hófst samtal um mögulegt samstarf milli leikskólanna þar sem leikskólarnir myndu leiða verkefnið í sameiningu.

Færeyingarnir komu til Íslands og síðan var flogið til Grænlands þar sem var haldinn fundur og rætt um mögulegt samstarf.

Síðastliðinn febrúar sendu skólarnir formlega umsókn til Nord-plus og óskuðu eftir styrk til samstarfs í þessu brautryðjandi verkefni. Ingibjörg er í engum vafa um að umsóknin verði samþykkt og samstarf geti hafist næsta haustmisseri.

Markmið þessa verkefnis sem þau eru vonandi að fara af stað með er að stuðla að inngildingu og að vinna með velferð barna með áherslu á fjölskyldu og sköpun. Áhersla er lögð á að efla færni kennara í sjálfbærni, sköpun, heilbrigði og velferð. Þau vilja þar að auki leggja áherslu á að börnin þrói með sér gildi, viðhorf og tilfinningar gagnvart náttúru og umhverfi með því að þróa list og fagurfræðilegt nám og vistfræðilegan skilning.

Heiðrún Jóna Óðinsdóttir

Nemi í blaðamennsku við Háskóla Íslands