Stuðlaberg Pósthússtræti
Stuðlaberg Pósthússtræti

Mannlíf

Ný bók á Storytel eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur í tilefni aldarafmælis
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. ágúst 2025 kl. 10:21

Ný bók á Storytel eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur í tilefni aldarafmælis

Í tilefni þess að rithöfundurinn Ingibjörg Sigurðardóttir hefði orðið 100 ára sunnudaginn 17. ágúst kemur skáldsaga hennar, Ást og hatur út í hljóðbókarformi á Storytel. Ingibjörg ólst upp í Sandgerði, skrifaði yfir þrjátíu bækur og varð landsþekkt fyrir hlýjar og fallegar frásagnir af lífi og örlögum fólks við sjóinn.

Á síðustu árum hafa verk íslenskra kvenrithöfunda frá 20. öld notið endurnýjaðs lífs á Storytel. Skáldsögur Guðrúnar frá Lundi og Birgittu H. Halldórsdóttur hafa til dæmis notið gríðarlegra vinsælda og meðal annars hlotið Íslensku hljóðbókaverðlaunin. Nú bætist Ingibjörg Sigurðardóttir í þann hóp með Ást og hatur, skáldsögu sem á erindi til hlustenda nútímans rétt eins og hún heillaði lesendur á sínum tíma. Á komandi mánuðum munu fleiri skáldsögur Ingibjargar koma út á Storytel þar sem nýjar kynslóðir geta kynnst þessum gleymdu perlum sem margar hverjar eru ófáanlegar í dag. 

Á bókmenntavef Borgabókasafnsins kemur fram að bækur Ingibjargar hafa notið gífurlegra vinsælda, og til marks um það má nefna að árið 1978 birti Morgunblaðið útlánslista bókasafna og þar kom í ljós að bækur Ingibjargar Sigurðardóttur voru í fyrsta sæti, en bækur Halldórs Laxness í því tíunda. Kemur þessi athyglisverða staðreynd fram í óbirtri B.A. ritgerð Völu Georgsdóttur (2002): „Rauðir þræðir og vænar slaufur, um ástarsöguna sem bókmenntagrein og þrjár skáldsögur eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ingibjörg Sigurðardóttir fæddist 17. ágúst 1925 að Króki í Skagahreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hún gekk í barnaskólann í Kálfshamarsvík á Skaga í sömu sýslu og tók þaðan fullnaðarpróf. Ingibjörg vann kaupavinnu á sumrin sem unglingur, hreinsaði dún þrjú sumur og var í sveit á bænum Ásbúðum, en rúmlega tvítug flutti hún til Sandgerðis þar sem hún bjó upp frá því, fyrst sem ráðskona en síðar rithöfundur og húsmóðir. 

Fyrsta skáldsaga Ingibjargar, Bylgjur, birtist sem framhaldssaga í Hinu nýja kvennablaði árið 1954, en var ekki gefin út á bók fyrr en 1961. Skáldsagan Sýslumannssonurinn er fyrsta prentaða skáldsaga Ingibjargar, en hún birtist einnig sem framhaldssaga í Heima er bezt. Ingibjörg var afkastamikill rithöfundur og sendi frá sér um þrjá tugi bóka á ferlinum, skáldsögur og ljóðabókina Hugsað heim (1962), auk þess að skrifa framhaldssögur í Heima er bezt. Síðasta skáldsagan sem Ingibjörg sendi frá sér er Glettni örlaganna frá 1991.

Ingibjörg Sigurðardóttir lést í Garði þann 17. júlí 2009.

Ást og hatur á Storytelhttps://www.storytel.com/is/books/%C3%A1st-og-hatur-11983159

Nánar um Ingibjörgu á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins

https://bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/ingibjorg-sigurdardottir