Aron toppar kveðjutónleikana með tólf manna hljómsveit
Fyrsta árið í The Arts Educational krefjandi en bara upphitun
„Til að toppa tónleikana í fyrra ákvað ég að bæta tólf manna hljómsveit við í ár og lofa frábærri skemmtun,“ segir söng- og danslistamaðurinn Aron Gauti Kristinsson. Hann hóf nám við einn virtasta söngleikjalistaháskóla heims, The Arts educational í London, í fyrra og er því að hefja annað námsárið af þremur en hann mun ef allt gengur að óskum, útskrifast með BA gráðu vorið 2027. Námið er dýrt og því hélt hann fjáröflunartónleika í Andrews theater í fyrra og var næstum því húsfyllir, alls 400 manns mættu og á föstudaginn er stefnan að fylla kofann og til að toppa frábæra tónleika í fyrra, fékk hann vin sinn til að mynda tólf manna stórsveit og verður öllu til tjaldað. Tónleikarnir verða aftur haldnir í Andrews theater og hefjast kl. 19:30
Aron Gauti var himinlifandi með tónleikana í fyrra og ætlar að gera enn betur í ár.
„Það er alltaf gaman að reyna gera betur og með því að vera með lifandi hljómsveit á sviðinu verður upplifun tónleikagesta ennþá betri. Ég fékk vin minn úr Verzló, Guðmund Daníel Erlendsson, til að mynda hljómsveit sem er með allt frá trommum til brasssveitar, auk frábærra bakraddasöngvara. Söngvararnir í ár eru bæði nýir af nálinni og voru með í fyrra, Bjarni Snæbjörnsson, Viktoría Sigurðardóttir og Diljá Pétursdóttir voru með í fyrra og dæmi um nýja söngvara í ár er Sigga Ósk, Kristinn Óli Haraldsson eða Króli eins og hann kallar sig, auk fleiri söngvara. Þessir söngvarar eru bæði að syngja dúetta með mér, með hvert öðru og fá líka einsöngslög, þetta er mjög fjölbreytt flóra frábærra söngvara og ég lofa góðri skemmtun. Æfingarnar hafa gengið vel og verið mjög skemmtilegar, við fáum að æfa þar sem pabbi, Guðmundur Kristinn Jónsson, oft kenndur við Hjálma, er með aðstöðu í Hljóðrita í Hafnarfirði.
Þema tónleikanna í ár verður það sama og í fyrra, söngleikjalistinni verður gert hátt undir höfði en þessi listgrein hefur alltaf höfðað mest til mín og því var frábært tækifæri fyrir mig að komast inn í þennan einn virtasta söngleikjalistaháskóla heims í fyrra.“

Krefjandi fyrsta ár og enn erfiðara ár framundan
Námið í The Arts Educational var allt sem Aron dreymdi um en það var krefjandi en bara smjörþefurinn af því sem koma skal.
„Ég vissi að þetta yrði mjög krefjandi, þetta er einn virtasti skóli í heiminum í þessum geira og er mjög eftirsóttur, það voru um 6000 manns sem sóttu um í fyrra en bara 50 sem fengu inngöngu. Þetta er mjög dýr skóli en það er líka ástæða fyrir því, ég var með miklar væntingar og þær stóðust allar og vel það. Það er svo gaman að vera umkringdur fólki sem er með sama áhuga og ástríðu eins og ég, námsefnið og kennararnir eru fyrsta flokks og sama hversu erfitt námið er, við erum öll í þessu saman. Það var gaman að ræða við krakkana á öðru ári, fyrsta árið er bara upphitun má segja enda tilkynnti skólastjórinn okkur það í lok fyrsta skólaársins, róðurinn mun þyngjast en ég tek þessari áskorun fegins hendi og get ekki beðið eftir að hefja annað árið. Ég fer út í næstu viku og það verður æðislegt að kveðja vini, fjölskyldu og samstarfsfélaga, með frábærum tónleikum á föstudaginn. Ég vona að það verði uppselt, námið er dýrt og ég þarf að safna peningum fyrir því og þetta er frábær leið til þess,“ sagði þessi efnilegi listamaður að lokum.
