Hraðara landsig í Krýsuvík en áður
Aflögun í Krýsuvík er hraðari nú en áður. Þar hafa mælst breytingar á landrisi og sigi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Þó nokkur skjálftavirkni hefur verið vestur af Kleifarvatni. Krýsuvík og nærliggjandi svæði eru einnig sögulega þekkt fyrir jarðskjálftavirkni en virknin síðustu misseri tengist einkum gikkskjálftum vegna innskotanna undir Fagradalsfjalli og Sundhnúk.
Svæðið í Krýsuvík hefur áður sýnt slíkar sveiflur í landrisi og sigi. Enn er ekki komin fram einhlít skýring og frekari greiningar eru í gangi.
Sérfræðingar fylgjast grannt með ástandinu. Gögn eru metin daglega og niðurstöðum miðlað áfram eftir þörfum.
Á mælingum sem Veðurstofan birtir fyrir eina af GPS-mælistöðvunum í Krýsuvík frá árinu 2020 og til dagsins í dag má sjá að fyrstu árin reis landið jafnt og þétt, en frá haustinu 2023 hefur það sigið. Eftir að eldgos hófust við Svartsengi í júlí 2023 hefur sigið orðið hraðara.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og er nú búinn ná svipuðum hraða og fyrir síðasta gos. Engin skjálftavirkni hefur verið á svæðinu síðan að gos hófst.