Þjónustulund og öryggi í fyrirrúmi
GTS ehf. tók við almenningssamgöngum í Reykjanesbæ um síðustu mánaðamót eftir útboð. Tvö tilboð bárust en GTS ehf. átti hagstæðasta tilboðið í opnu útboði. GTS ehf. er þekkt hópferðafyrirtæki á Selfossi til áratuga undir nafni Guðmundar Tyrfingssonar. Upphafið að ævintýrinu má reyndar rekja til Keflavíkurflugvallar. Þaðan kemur fyrsti hópferðabíll fyrirtækisins, Dodge Weapon fjallabíll, árgerð 1953, sem m.a. var notaður í óbyggðaferðir.

Erlingur Bjarnason hefur verið ráðinn rekstrarstjóri GTS í Reykjanesbæ.
Erlingur Bjarnason hefur verið ráðinn rekstrarstjóri GTS í Reykjanesbæ. Hann er Suðurnesjamaður með mikla stjórnunarreynslu, meðal annars frá Varnarliðinu og Kapalvæðingu. Hann á fjölskyldutengsl við fyrirtækið og vann að ferðaþjónustuverkefni með því fyrir um áratug síðan tengdu bandarískum ferðamönnum sem vildu sækja gömlu herstöðina á Keflavíkurflugvelli heim. Einnig hafi hann starfað í norðurljósaferðum fyrir Guðmund Tyrfingsson og farið með fjölmarga ferðamenn í slíkar ferðir um Reykjanesskagann og Suðurlandsundirlendið.
Núna þegar GTS ehf. ákvað að bjóða í almenningssamgöngur í Reykjanesbæ var leitað til Erlings um að stýra verkefninu. Erlingur segir að hann hafi gaman af því að takast á við spennandi áskoranir og hafi látið slag standa.

Miðstöð almenningssamgangna í Reykjanesbæ er við Krossmóa. Þar sameinast vagnarnir á heila og hálfa tímanum.
Áhersla á að ráða gott fólk
Erlingur segist sjaldan sitja auðum höndum. Auk þess að stýra rekstri almenningssamgangna fyrir GTS ehf. í Reykjanesbæ þá hafi hann nýverið keypt rekstur skiltagerðar og þá er hann einnig þekktur fyrir störf sín hjá Kapalvæðingu og eljuna við það að koma gömlum ljósmyndum og myndskeiðum úr bæjarlífinu í Reykjanesbæ á skjáinn á stöðinni Augnablik.
Almenningssamgöngur í Reykjanesbæ eiga þó hug hans allan í dag og aðspurður hvernig hafi gengið að koma verkefninu af stað segir Erlingur að það hafi gengið vel.
„Ég lagði mikla áherslu á að ráða gott fólk með þjónustulund og öryggi í fyrirrúmi. Það var stór hópur sem leitaði til okkar eftir starfi og við höfum mannað allar vaktir og erum einnig með hóp manna á kantinum sem vilja taka stakar vaktir, þannig að þetta hefur farið vel af stað,“ segir Erlingur.
Fimm rafmagnsvagnar
„Við byrjuðum 1. ágúst og nú þegar skólar hefjast förum við úr akstri á klukkutímafresti yfir í hálftímafrest. Við erum með fimm rafmagnsrútur sem keyra um Reykjanesbæ. Við sjáum um skólaakstur á morgnana og aftur síðdegis og einnig sérstakar skutlferðir ef þörf krefur.“
Við þessa breytingu, að GTS ehf. tekur við almenningssamgöngum, verða engar breytingar á leiðarkerfi eða tímaáætlunum. Akstur og þjónusta halda áfram með sama fyrirkomulagi og áður. GTS ehf verður með aðsetur að Flugvöllum 15. Vetraráætlun og aðrar hugsanlegar breytingar verða kynntar sérstaklega síðar.
Eruð þið líka að fara í annan akstur á Suðurnesjum samhliða almenningssamgöngum í Reykjanesbæ?
„Já, við ætlum ekki bara að sinna strætóakstri. Við erum hluti af GTS, sem er með mikla reynslu í ferðamennsku og lúxusakstri, og við viljum bjóða upp á fjölbreyttar ferðir, meðal annars VIP-ferðir.“
Hvernig sérðu framtíðina hjá ykkur?
„Við erum að koma okkur vel fyrir með nýjustu rafmagnsrútur og aðstöðu fyrir viðgerðir og hleðslu. Markmiðið er að þróa þjónustuna áfram, bæði í almenningssamgöngum og ferðamennsku,“ segir Erlingur Bjarnason, rekstrarstjóri GTS ehf. í Reykjanesbæ.