Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

„Erum að byggja fallegustu götuna í Garðinum“
Íbúðir í þessum húsum eru óseldar. Þau eru fagurgræn á litinn og Sveinbjörn Bragason segir litinn í stíl við kaffiskúr starfsmanna sem fylgt hefur fyrirtækinu í áratugi.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 22. ágúst 2025 kl. 06:10

„Erum að byggja fallegustu götuna í Garðinum“

Bragi Guðmundsson ehf. byggir öll húsin við Báruklöpp í Garði Byggja einnig fjögur einbýlishús og þrettán íbúða fjölbýli í sama hverfi

Nú er uppsteypa hafin á síðasta húsinu við Báruklöpp í Garði. Byggingaverktakinn Bragi Guðmundsson ehf. fékk götunni úthlutað um mitt ár 2018 og fyrsta skóflustungan var tekin í desember 2021 af Báru Bragadóttur. Í Báruklöpp eru níu hús með samtals tuttugu og fjórum íbúðum, parhús og raðhús.

Bragi Guðmundsson ehf. er byggingaverktakafyrirtæki í eigu feðganna Braga Guðmundssonar og Sveinbjörns Bragasonar. Þeir feðgar hafa verið afkastamiklir í húsasmíði í Garðinum og reyndar víðar síðustu áratugi. Uppsteypu síðasta hússins í Báruklöpp mun ljúka á næstu vikum og lokið verður við húsið í vetur að sögn Sveinbjörns Bragasonar.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept karl

Samhliða uppbyggingunni við Báruklöpp hefur fyrirtækið einnig byggt fjögur einbýlishús í Brimklöpp, sem er næsta gata við Báruklöpp. Einn leikskóli í Sandgerði hefur einnig verið hristur fram úr erminni og ýmis önnur verk, þannig að það hefur verið nóg að gera hjá þeim 20 starfsmönnum sem vinna hjá fyrirtækinu.

Sala íbúða í Báruklöpp hefur gengið vel en ennþá eru óseldar íbúðir í tveimur fullbúnum parhúsum og önnur íbúðin í síðasta húsinu, sem nú er í byggingu, er óseld. Íbúðirnar sem eru tilbúnar eru 3ja herbergja og um 140 fermetrar með bílskúr. Pétur Bragason teiknaði húsin í götunni.

Séð yfir götuna Báruklöpp í Garði þar sem Bragi Guðmundsson ehf. hefur séð um alla uppbyggingu við götuna. VF/Hilmar Bragi

Sveinbjörn segir að það sé búið að vera skemmtilegt verkefni að byggja heila götu frá grunni. „Við erum að byggja fallegustu götuna í Garðinum og ég vil geta komið í þessa götu efir 20 ár og hún verður áfram falleg.“

Í næstu götu við Báruklöpp, Brimklöpp, hefur fyrirtækið reist fjögur einbýlishús og þau verða kláruð í vetur og einangruð og klædd í sama stíl og húsin við Báruklöpp.

Framundan hjá Braga Guðmundssyni ehf. er svo bygging á þrettán íbúða fjölbýlishúsi í sama hverfi, Klappa- og Teigahverfi í Garði í Suðurnesjabæ.

Þeir sem vilja kynna sér íbúðirnar við Báruklöpp nánar geta séð eignirnar á vef fasteignasölunnar Stuðlabergs.