Fleiri erlendir 30-40 ára karlmenn á Suðurnesjum en íslenskir
Karlmenn á aldrinum 30-40 ára á Suðurnesjum eru fleiri af erlendum uppruna en íslenskir. Erlendir nýbúar á Suðurnesjum eru nærri þrefalt fleiri nú en voru árið 2008. Hluti af skýringu er mikill vöxtur í atvinnulífi, sem þarf að mæta með vinnuafli. Þá sýnir þróunin það að fleira fólk sest að til lengri tíma á Suðurnesjum.
Þetta kom fram í erindi Berglindar Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) sem hún hélt á fundi innviðaráðaherra á Park Inn hótelinu á mánudag.
Árið 2008, var hlutfall erlendra íbúa 9,8% en var árið 2024 orðið 26,8%. Árið 1998 voru aðeins 350 íbúar á Suðurnesjum með erlendan bakgrunn. Íbúafjölgun á Suðurnesjum nemur 42,3% á meðan landsmeðaltalið er 24,9%. Þetta hefur valið ýmsum vaxtaverkjum í rekstri sveitarfélaganna á svæðinu. Fjárlög ríkisins gera ráð fyrir því að fjölgun á ári sé 1% eins og meðaltalið er. Fjárframlög til ríkisstofnanna hafa því ekki fylgt með. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lagt sig öll fram við að mæta þessari áskorun og kallað eftir samtali og stefnubreytingum frá hálfu ríkisins. Það hefur ekki mætt miklum skilningi, sagði Berglind.
Á Suðurnesjum búa 29.490 íbúar en fjöldinn hefur tvöfaldast frá árinu 1998, á rúmum aldarfjórðungi. Flestir búa í Reykjanesbæ eða 22.630, í Suðurnesjabæ búa 4200 manns, 1850 íbúar eru í Vogum en fæstir búa í Grindavík. Aðeins 810 eru með skráð lögheimili þar og hluti þeirra býr ekki í bæjarfélaginu.