Keflavík í samstarfi við Píeta samtökin
Lengjudeildarlið Keflavíkur í knattspyrnu kvenna og karla mun leika í búningi merktum Píeta samtökunum í völdum leikjum í sumar. Sala er hafin á treyjunni þar sem allur ágóði rennur til Píeta. Treyjan verðu fyrst notuð í Lengjudeild karla gegn Völsungi á HS Orku velli næstkomandi laugardag.
Ragnar Aron Ragnarsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur segir málið þarft og alltaf eiga við. „Því miður eru alltof margar fjölskyldur sem þekkja þetta. Faðir minn hefði orðið 63 ára á þessu ári, en hann féll fyrir eigin hendi árið 2002. Stöðug áminning er nauðsynleg að mínu mati og þarft að halda á lofti umræðu um andlega heilsu. Við viljum með þessum hætti láta gott af okkur leiða og styðja við bakið á þessum öflugu samtökum,“ segir Ragnar Aron.
Treyjan er þegar komin í sölu á Keflavikurbudin.is í takmörkuðu upplagi.