ToyRun styrkir Endo-samtökin með kótilettukvöldi í Grindavík
Upphaf ToyRun má rekja til mótorhjólakappa í Bandaríkjunum
„Við stofnuðum ToyRun á Íslandi árið 2015, við erum tólf í í félaginu í dag, keyrum allir mótorhjól en það er ekki skilyrði til að vera félagi,“ segir formaður ToyRun á Íslandi, Gylfi Hauksson frá Grindavík en Toyrun eru góðgerðarsamtök. ToyRun á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna en þá tóku mótorhjólamenn í Flórída sig til og söfnuðu dóti (toy) fyrir barnaspítalana fyrir ein jólin. Þegar hugmynd kviknaði hjá mótorhjólamönnum á Íslandi að fara hringferð, datt þeim í hug að láta gott af sér leiða í leiðinni, vissu af ToyRun í Bandaríkjunum og stofnuðu sitt félag á Íslandi. Þessi góðgerðarsamtök hafa safnað um einni milljón árlega, fyrstu tvö árin var stutt við bakið á Blátt áfram, síðan var stutt við bakið á Píeta-samtökunum og eftir ábendingar var ákveðið að styðja við Endo-samtökin í ár.
Margir spyrja sig eflaust hvað Endo er en um er að ræða styttingu á sjúkdómi sem heitir Endómetríósa. Blaðamaður hafði aldrei heyrt um þann sjúkdóm; Endómetríósa er krónískur, fjölkerfa og fjölgena sjúdómur sem veldur mismiklum einkennum og hefur mismikil áhrif á daglega líf fólks með sjúkdóminn. Endómetríósa leggst á einn af hverjum tíu einstaklingum sem fæðast í kvenmannslíkama. Nánar um sjúkdóminn
Hvernig kom til að ToyRun Iceland ákvað að styðja við bak Endo-samtakanna?
„Við vorum lengi búnir að styðja við bak Píeta-samtakanna og eigum okkar þátt í hversu mikið þau samtök hafa vaxið á undanförnum árum, þau voru bara að byrja þegar við vorum að byrja og í dag eru allir að styðja við þau flottu samtök. Við vorum með þeim fram að hamförunum í Grindavík og höfum ekki gert neitt síðan þá, starfsemi okkar hefur aðeins legið niðri en við ákváðum að fara af stað á ný og þar sem frænka eins okkar er formaður Endo-samtakanna og kynnti fyrir okkur, ákváðum við að styðja við bakið á þeim og vekja athygli á þeirra starfsemi.

Það hefur verið árvisst hjá okkur að halda kótilettudag, höldum hann núna hjá Villa á Sjómannastofunni Vör en við vorum á Salthúsinu þar á undan en það er ekki hægt lengur. Villi verður með lambakótilettuhlaðborð frá 12:00 til 20:00 og vonumst við eftir að flestir ef ekki allir mótorhjólamenn og -konur fái sér túr til Grindavíkur, hitti okkur, fái sér gott í kroppinn og láti gott af sér leiða. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir, ekki bara mótorhjólafólk. Það halda margir að ToyRun sé bara fyrir mótorhjólafólk, því fer víðsfjarri, þetta er fyrir alla sem vilja láta gott af sér leiða í góðgerðarstarfsemi,“ sagði Gylfi að lokum.
