Grindavík/Njarðvík vann grannaslaginn í Keflavík
Sigur í síðustu umferð gegn HK tryggir sæti í deild hinna bestu að ári
Grannaliðin Keflavík og Grindavík/Njarðvík mættust á HS orku velli Keflvíkinga í dag í Lengjudeild kvenna og urðu lyktir þær að gestirnir unnu 0-1. Sigurmarkið kom í fyrri hálfleik en fram að því höfðu gestirnir tvívegis komist nærri því að skora og sanngjarn sigur niðurstaðan.
Grindavík/Njarðvík tryggir sér sæti í Bestu deildinni að ári með sigri í lokaleiknum gegn HK á fimmtudag.
Hlutskipti liðanna hafa verið misjöfn í sumar, Keflavík sem féll úr Bestu deildinni í fyrra, ætlaði sér ekkert nema fara beint upp aftur en þær hafa ekki náð sér á strik og voru einungis í 8. sæti fyrir leik dagsins. Hið nýstofnaða sameinaða lið Grindavíkur/Njarðvíkur hefur hins vegar leikið mjög vel í sumar og gátu með sigri í þessum leik og síðasta leiknum á móti HK, tryggt sér sæti á meðal bestu liða landsins að ári.
Leikurinn var í jafnvægi fyrstu mínúturnar en á 30. mínútu áttu gestir gott upphlaup upp vinstri kantinn og minnstu munaði að boltinn færi í mark heimastúlkna en markmaður Keflavíkur, Anna Arnarsdóttir, brást vel við. Stuttu síðar varði hún frábærlega af stuttu færi skot Lauren Memoly og gestirnir þarna búnir að taka völdin á leiknum. Eitthvað hlaut að bresta og Brooklynn Page Entz fylgdi á eftir eigin skoti sem Anna hafði varið. Staðan í hálfeik 0-1 og máttu heimakonur þakka fyrir þá stöðu.
Seinni hálfleikur var frekar tíðindalítill, fá færi sköpuð og því verður niðurstaðan að teljast nokkuð sanngjörn, 1-0 sigur Grindavíkur/Njarðvíkur, sem hefur þá gullið tækifæri á að tryggja sig í Bestu deildina að ári, með sigri á heimavelli á fimmtudag gegn HK.