Íþróttir

Góður sigur Grindavíkur fyrir vestan
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði tvö marka Grindavíkur en úrslitamarkið skrifast á markvörð Vestra. Mynd úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 30. maí 2021 kl. 15:52

Góður sigur Grindavíkur fyrir vestan

Grindvíkingar unnu mikilvægan sigur á Vestra í Lengjudeild karla í knattspyrnu fyrr í dag. Með sigrinum í dag kemst Grindavík upp að hlið Vestra og Þórs Akureyri og situr í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig.

Sigurður Bjartur Hallsson kom Grindvíkingum yfir strax á 3. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að markvörður Vestra gerðist brotlegur, staðan var 0:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var öllu fjörugri en sá fyrri. Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik af krafti en Grindvíkingar fengu annað víti á 61. mínútu, aftur skoraði Sigurður Bjartur og kom þeim gulklæddu í 0:2.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Átta mínútum síðar minnkuðu heimamenn muninn (69') en markvörður Vestra jók forystuna á ný fyrir gestina þegar hann missti klaufalega fyrirgjöf Arons Jóhannssonar í eigið mark (71'). Vladimir Tufegdzic [Túfa], fyrrum leikmaður Grindavíkur og núverandi liðsmaður Vestra, kom minnkaði muninn á 76. mínútu og þrátt fyrir að heimamenn sóttu stíft á lokamínútunum halda Grindvíkingar heim með þrjú stig í farteskinu. Lokatölur 2:3 fyrir Grindavík.