Íþróttir

Glímudeild UMFN úthýst úr Bardagahöllinni í Reykjanesbæ - þjálfarinn hættur!
Guðmundur Stefán er hættur og voanst að iðkendur glímudeildarinnar fái að æfa í Bardagahöllinni.
Föstudagur 22. apríl 2022 kl. 10:21

Glímudeild UMFN úthýst úr Bardagahöllinni í Reykjanesbæ - þjálfarinn hættur!

Í ljósi þess að stjórn glímudeildar UMFN samþykkir ekki aðgerðir aðalstjórnar UMFN, virðir ekki tilkynningar sem koma frá aðalstjórn og neitar að starfa undir stjórn aðalstjórnar þá getur íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar ekki heimilað notkun á íþróttaaðstöðunni í Bardagahöllinni við Smiðjuvelli í Reykjanesbæ fyrir glímudeild UMFN. Íþrótta- og tómstundaráð styður allar aðgerðir aðalstjórnar UMFN, segir í fundargerð síðasta fundar ráðsins þann 12. apríl síðastliðinn.

Guðmundur Stefán Gunnarsson, stofnandi deildarinnar segir í færslu á Facebook í gær, 21. apríl, vera hættur og vonast að deildin fái að æfa Bardagahöllinni.

Hér er gripið inn í pistil Guðmundar:

„Ég ætla að hætta vegna þess að ég vil deildin fái frið frá árásum framkvæmdastjóra UMFN. Ég vona að sú ákvörðun mín að stíga til hliðar verði til þess að aðalstjórn UMFN og framkvæmdastjóri hleypi iðkendum glímudeildarinnar aftur í æfingahúsnæðið sitt og hætti að beita saklausa iðkendur deildarinnar, þjálfara og aðra sem að starfinu koma, því ofbeldi sem viðgengist hefur undanfarnar vikur. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð að læsa fólk úti frá æfingaaðstöðu sinni og æfingabúnað, án allra skýringa, vikum saman. Hvorki foreldrar, stjórn, iðkendur né þjálfara hafa enn fengið skýringar á þessu framferði framkvæmdastjóra og aðalstjórnar UMFN.“