Flugger
Flugger

Íþróttir

Gefst ekki upp
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 20. október 2023 kl. 06:12

Gefst ekki upp

Jana er baráttuhundur sem á það til að fara fram úr sér í ákafanum

Jana Falsdóttir gekk til liðs við Njarðvík frá Haukum fyrir yfirstandandi tímabil og hefur farið vel af stað með Njarðvíkurliðinu og var valin leikmaður fjórðu umferðar Subway-deildar kvenna. Jana er uppalin Keflvíkingur og á stutt að sækja körfuboltahæfileikana en báðir foreldrar hennar, Margrét Sturlaugsdóttir og Falur Harðarson, eru fyrrverandi landsliðsmenn í íþróttinni.

Tímabilið hefur farið vel af stað hjá Njarðvík. Þær töpuðu í tvísýnum leik í fyrstu umferð fyrir Keflavík en eru búnar að vinna alla leiki síðan þá. „Við vorum svolítið óheppnar í fyrsta leiknum en annars hefur þetta gengið mjög vel,“ segir Jana.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var náttúrlega hörkuleikur gegn þínum gömlu félögum.

„Já og ég vil meina að við hefðum tekið hann ef þetta hefði ekki verið fyrsti leikurinn sem við spiluðum saman.“

Hvernig er svo að vera í græna liðinu?

„Mér finnst það bara æðislegt, alveg geggjað. Frábærar stelpur og þjálfarateymið geggjað. Ég er mjög sátt og glöð þarna.“

Jana hér á fleygiferð með boltann þegar Njarðvík vann Grindavík og hún var valin leikmaður fjórðu umferðar Subway-deildarinnar. VF/JPK

Hvert er markmiðið hjá ykkur í vetur?

„Markmiðið er auðvitað að vinna sem flesta leiki en ég held að aðalmarkmiðið sé að hafa gaman. Ég held að það komi mikið út úr því að hafa gaman, þannig að við ætlum að fókusera á það að hafa gaman og ég held að við munum ná langt með því – og auðvitað stefna á að vinna titla,“ segir Jana og talar um að á undirbúningstímanum hafi liðið farið í gott ferðalag saman til að byggja upp liðsandann. „Það var rosalega skemmtilegt. Við fórum á æfingar á Vík, Flúðum og í Hveragerði og fengum tækifæri til að kynnast hver annarri mjög vel. Skemmtileg ferð og gerði mikið fyrir okkur.“

En hvernig er með þig? Þú ert auðvitað uppalinn Keflvíkingur, hefur þú alltaf verið í körfubolta?

„Já, ég var líka í fimleikum en hætti í þeim í fimmta eða sjötta bekk og fór þá alveg í körfuna. Annars hef ég ekki verið í neinum öðrum íþróttum.“

Er með körfuboltann í blóðinu

Það eru náttúrlega mikil og góð körfuboltagen í þér og foreldrarnir báðir gallharðir Keflvíkingar. Eru þau ánægð með að sjá þig í Njarðvíkurbúningnum? Ég man ekki eftir að hafa séð pabba þinn í grænu á leikjum.

„Já, þau eru mjög sátt. Ég held að pabbi eigi bara ekkert grænt til að vera í, ég verð bara að kaupa eitthvað á hann.“

Þrátt fyrir að vera aðeins sautján ára gömul hefur Jana leikið síðustu tvö tímabil með Haukum í efstu deild. Þar áður lék hún með Stjörnunni í fyrstu deild.

„Ég skipti úr Keflavík yfir í Stjörnuna þegar mamma var að þjálfa þær í fyrstu deildinni. Mig langaði þá að fara í aðeins stærri stöðu og fá að spreyta mig með meistaraflokki. Keflavík var auðvitað með mjög gott lið í efstu deild og ég hefði ekki fengið að gera neitt þar,“ segir Jana.

Eftir eitt ár með Stjörnunni fór Jana að kíkja í kringum sig og mörg lið sýndu henni áhuga. „Haukar urðu fyrir valinu af því að mér leist best á þá eftir fundinn.“

Finnst þér þú hafa lært mikið á þeim tveimur tímabilum með Haukum?

„Já, mjög mikið. Við fórum náttúrlega á EuroCup og aðalleikstjórnandinn okkar meiddist í bikarleik í fyrra, þá steig ég svolítið upp og fékk að bera meiri ábyrgð. Ég lærði mjög mikið af því, fékk nóg af tækifærum.“

Hver er þinn helsti styrkleiki í körfunni? Þú hefur nú ekki beinlínis hæðina með þér.

„Nei, ég get ekki sagt það – en ég held að ég hafi það að gefast ekki upp. Ég get ekkert verið að hugsa um það hvað ég er lágvaxin. Ég þarf að hugsa um hvað ég hef á móti andstæðingnum. Eins og ég er með hraða og snerpu, þá þarf ég bara að nýta mér það.

Jana er mjög áköf í vörninni og getur komið stærri leikmönnum í vandræði með snerpu sinni. „Ég fæ stundum svona sprengikraft en stundum get ég farið svolítið fram úr mér og þá hef ég liðsfélagana til að bakka mig upp. Ég er svolítið að vinna í því að sprengja ekki of mikið, það er að koma smám saman,“ segir Jana sem er enn að þroskast sem leikmaður.

Hugar að framtíðinni

Fyrir utan körfubolta, hvað gerir Jana í frítímum?

„Úff, í frítíma? Það er ekki mikill frítími sem ég hef en mér finnst gaman að hitta vini mína og vera með fjölskyldunni. Ég hef mjög mikinn áhuga á listum en ekki náð mikið að fara út í það sjálf.“

Hvernig listum hefurðu þá helst áhuga á?

„Sérstaklega byggingalist en annars öllum listum yfir höfuð. Ég hef gaman af að teikna hús en það er aukaáhugamál, eitthvað sem ég mun jafnvel líta á að fara í framhaldsnám í. Ég stefni á nám í arkitektúr. Mér finnst það mjög heillandi,“ segir Jana sem segir markmiðið vera að nýta körfuboltann til að komast í gott nám erlendis.

Ertu með eitthvað sérstakt í huga, einhver lönd?

„Það eru Bandaríkin. Mér finnst það vera besti kosturinn og er búin að vera að skoða skóla sem eru með svona arkitektasvið svo ég geti lært það sem ég vil. Mig langar ekki að læra bara eitthvað, mig langar að nýta þetta til að fara í gott nám. Maður veit aldrei hvað gerist í framtíðinni og ég vil gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt,“ sagði Jana og var stokkin á æfingu með Njarðvíkurliðinu áður en þær héldu til Akureyrar.

Jana með tveimur systursonum sínum eftir sigurleikinn gegn Grindavík en þeir eru búsettir erlendis og voru í heimsókn á Íslandi.