Rúmfatalagerinn 14.-16.maí
Rúmfatalagerinn 14.-16.maí

Íþróttir

Frisbígolf: Skemmtileg útivist við allra hæfi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 16. október 2020 kl. 08:18

Frisbígolf: Skemmtileg útivist við allra hæfi

Ari Sigurjónsson stundar frisbígolf og er á fullu þessa dagana við að kynna íþróttina fyrir Suðurnesjafólki. Á Suðurnesjum eru vellir í Reykjanesbæ, Grindavík og Vogum.

Það er fallegur haustdagur þegar við Ari mæltum okkur mót á frisbígolfvellinum í Njarðvíkurskógum í Reykjanesbæ. Þar mátti sjá fjölmarga njóta heilsubótar í þessari útivistarperlu Reykjanesbæjar.

„Frisbígolf er frábær útivera sem snýst um það að kasta frisbídiskum eftir brautum og hitta körfu í sem fæstum köstum. Völlurinn hér í Njarðvíkurskógum er allur par 3 nema ein braut, sú átjánda, er par 4,“ segir Ari

Sólning
Sólning

– Þetta er þá væntanlega svipað og golf eins og við þekkjum.

„Reglurnar eru eiginlega þær sömu og í golfi, í staðinn fyrir að slá bolta með kylfu þá notarðu hendi og kastar frisbídiski.“

– Eru margir sem stunda frisbígolf?

„Já, það eru margir sem stunda þetta á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um landið, það eru margir vellir víða um landið og það er hægt að fara á síðuna folf.is til að sjá lista yfir alla frisbígolfvelli sem eru komnir þar inn á.

Þetta er náttúrlega glænýr völlur hér í Njarðvíkurskógum og er átján körfu völlur og þetta verður bara vinsælla með hverjum deginum,“ sagði Ari og það kom blaðamanni talsvert á óvart hve margir voru að njóta heilsubótar á svæðinu. Fjölmargir voru að leika sér í frisbígolfi en þarna eru líka gönguleiðir sem margir nýta sér og þá er hundagerði við frisbígolfvöllinn þar sem ferfætlingarnir geta fengið útrás og þeir kunnu sannarlega að meta útiveruna í veðurblíðunni.

Áþreifanlegur áhugi

„Frisbígolffélag Suðurnesja er með Facebook-hóp og ég fór að sinna honum fyrir nokkrum dögum. Móttökurnar hafa ekki staðið á sér því á aðeins örfáum dögum tvöfaldaðist félagafjöldinn, fór úr fimmtíu í yfir hundrað og er enn að fjölga. Fólk er að byrja að taka eftir þessu og sem dæmi var ég að spila í gær þegar eldri hjón á heilsubótargöngu gáfu sig á tal við mig og fóru að spyrja út í það sem ég var að gera. Þegar ég var búinn að útskýra út á hvað þetta gengi sagði konan: „Ég held að ég sé búin að finna jólagjafirnar í ár.“

Aðstaðan hérna í Njarðvíkurskógum er frábær, þetta er skemmtilegur og krefjandi völlur sem allir geta leikið. Svo er annar völlur í Heiðarhverfinu, hann er allt öðruvísi en líka mjög skemmtilegur. Sá völlur er ellefu holur og leikinn fram og til baka. Þar eru þrjár körfur notaðar fyrir tvær brautir en leikið af sitt hvorum teignum. Svo eru vellir líka í Vogum og Grindavík.“

– Nú kvarta margir yfir tímanum sem fer í að leika golfhring, hversu lengi er verið að spila hring í frisbígolfi?

„Fyrir tvo saman að fara átján körfu hring í frisbígolfi tekur svona tvo tíma, það fer auðvitað líka eftir hversu góður maður er en ef það er gott flæði og maður er ekki að skjóta út og suður þá tekur þetta yfirleitt í kringum tvo tímana.“

Auðvelt að byrja

Flest áhugamál hafa í för með sér einhvers konar startkostnað við að koma sér upp búnaði sem þarf að nota. Við spurðum Ara hve dýrt væri að byrja í frisbígolfi.

„Það er nú voða einfalt, ég er með byrjendasett á fimm þúsund kall fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref. Í þeim eru þrír diskar; driver, middle range-diski og pútter. Það er allt sem þarf til að byrja með, svo er ég einnig með töskur undir diskana. Svo fjölgar maður diskunum og bætir í safnið, maður lærir eitthvað í hverju kasti,“ segir Ari og hlær.

– Má hver keppandi vera með eins marga diska og hann vill?

„Já, reglurnar eru þannig að þú mátt vera með eins marga diska og þú vilt. Eina sem reglurnar fara fram á er að diskarnir séu merktir þér og svo þarf maður að vera með svokallaðan marker. Hann er notaður til að merkja við þar sem diskurinn þinn lendir og þá hefur keppandinn svæði sem samsvarar A4-blaði fyrir aftan markerinn til að stíga niður fæti fyrir næsta kast.“ Með þeim orðum heldur Ari á fyrsta teig til að taka hring.

Við fylgjum Ara sem fær auðvelt par á fyrstu braut og kastar nærri körfu á annari. Með Ara í för eru félagar hans og þeirra á meðal er Eyvindur sem er átta ára gamall efnilegur frisbígolfari. Hann segir að sér þyki rosalega gaman í frisbígolfi og þessi átta ára snillingur fór „körfu í kasti“ á dögunum, fékk ás. „Það var á braut tólf og flott kast,“ segir Eyvindur sem jánkar spurningu blaðamanns um hvort hann sé góður í frisbígolfi.

Meðfylgjandi myndir tók Jóhann Páll Kristbjörnsson á Frisbígolfvellinum í Njarðvíkurskógum.

Frisbígolf í Njarðvíkurskógum