Flugger
Flugger

Íþróttir

Frábært að Grindvíkingar eigi svona flottan golfvöll
Helgi Dan ásamt sigursælum krökkum eftir meistaramót Golfklúbbs Grindavíkur.
Mánudagur 24. ágúst 2015 kl. 08:00

Frábært að Grindvíkingar eigi svona flottan golfvöll

-segir Helgi Dan Steinsson, golfkennari klúbbsins

„Húsatóftavöllur í Grindavík er einhver skemmtilegasti golfvöllur á landinu. Yfirleitt kemur hann vel undan vetri enda liggur hann við sjóinn.  Það að Grindvíkingar skuli eiga svona golfvöll er algjörlega frábært. Þetta er lítið bæjarfélag með fáa klúbbmeðlimi en að mínu mati með einn besta og skemmtilegasta völl landsins,“ segir Helgi Dan Steinsson, golfkennari hjá Golfklúbbi Grindavíkur.

Skagamaðurinn Helgi Dan Steinsson tók í fyrravor við sem golfkennari við Golfklúbb Grindavíkur. Það var svo núna í sumar, á sjálfan þjóðhátíðardaginn, 17. júní, að hann útskrifaðist sem PGA golfkennari frá PGA golfkennaraskólanum á Íslandi og er því með full réttindi sem PGA kennari. Helgi hefur komið víða við á sínum golfferli, verið í landsliði Íslands ásamt því að vera sá sem oftast hefur orðið klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis á Akranesi, alls átta sinnum. Hann hefur einnig orðið klúbbmeistari Golfklúbbs Grindavíkur tvö síðastliðin ár. Þá á Helgi vallarmet af hvítum teigum í Vestmannaeyjum sem er 63 högg eða sjö undir pari. Það vallarmet setti Helgi árið 2002 þegar hann sigraði í móti á íslensku mótaröð þeirra bestu í Vestmannaeyjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Byrjaði með ömmu og afa

„ Ég byrjaði í golfi sex ára gamall því amma mín og afi voru á kafi í golfi. Þau gáfu mér fyrsta settið og tóku mig með sér á völlinn. Það er mikill lúxus á Akranesi að golfvöllurinn sé inni í bænum en ekki fyrir utan hann eins og víðast er.  Golfvöllurinn er rétt hjá æskuheimilinu mínu og því var stutt að skreppa á völlinn til að æfa sig,“ sagði Helgi. Hann segir að áhuginn hafi magnaðist fljótt enda voru á þessum tíma margir strákar á svipuðum aldri og hann að æfa saman, m.a. hinn sexfaldi Íslandsmeistari, Birgir Leifur Hafþórsson og Þórður Emil Ólafsson sem einu sinni hefur fagnað Íslandsmeistaratitlinum. „Samheldnin var mikil, við æfðum saman og lékum saman fram á kvöld. Golfvöllurinn var okkar tölvuleikur og við kepptum í öllu.“

Helgi segir að hann hafi byrjað að keppa þegar hann var tólf til þrettán ára gamall og og hann og félagar hans hafi unnið nokkrar sveitakeppnir unglinga á þessum árum og honum hafi gengið vel. „Ég tel mig lánsaman að hafa valið golfið því ég fékk tækifæri á að ferðast mikið, sérstaklega innan Evrópu, og hef spilað golf mjög víða.  Minnistæðast er auðvitað að hafa keppt á St. Andrews í Skotlandi og eftir það er alltaf gaman að horfa á Opna breska meistaramótið þar sem menn eru að spila á sama velli. Það skemmdi ekki fyrir að við fengum að leika lausum hala í klúbbhúsinu sem að öllu jöfnu er ekki opið almenningi.“
 

Hvernig vildi það til að þú ert orðinn golfkennari í Grindavík?

„Það vildi nú þannig til að ég var plataður í klúbbinn í Grindavík til að spila. Ég hafði nánast eingöngu spilað fyrir Golfklúbbinn Leyni, fyrir utan eitt til tvö ár í Golfklúbbi Suðurnesja og var byrjaður í PGA náminu þegar vinur minn úr Grindavík, Davíð Arthur, hálf plataði mig til að koma og spila með þeim. Ég hef ekki séð eftir því. Fljótlega bauðst mér svo að taka að mér golfkennslu við klúbbinn og hef gengt því starfi í um tvö ár núna.“

Nú hefur þú verið félagi í Golfklúbbnum Leyni á Akranesi sem og í Golfklúbbi Suðurnesja, hvernig finnst þér golfvöllurinn í Grindavík koma út í samanburði við þá golfvelli og aðra 18 holu velli á Íslandi?

„Mjög vel,“ segir Helgi. „Golfvöllurinn í Grindavík er vissulega styttri en aðrir 18 holu golfvellir en á móti kemur að hann getur verið ansi erfiður, sérstaklega ef vindur blæs. Það er mikið um staðsetningargolf en hann býður upp á þann möguleika að taka áhættu og þú getur verið verðlaunaður fyrir það en hann er líka fljótur að refsa ef maður er ekki á boltanum.“

Hvernig líst þér á þær breytingar á golfvellinum sem stefnt er að?

„Það hafa staðið yfir breytingar á golfvellinum í sumar sem eiga eftir að taka einhver tvö til þrjú ár. Völlurinn verður lengdur töluvert og inn koma skemmtilegar brautir og ég er nokkuð viss um að breytingarnar eiga eftir að gera góðan völl enn betri.“

Hvers vegna ákvaðst þú að fara út í að læra til PGA golfkennara?

„Þetta er auðvitað eitthvað sem hefur blundað lengi í mér. Ég ætlaði alltaf að fara út í að læra þetta í kringum tvítugt en lét aldrei verða af því. Svo þegar byrjað var að kenna þetta hérlendis ákvað ég að láta slag standa. Þetta var eitthvað sem mig hafði alltaf langað að gera, þó það væri ekki nema til að geta kennt mínum eigin börnum golf. Svo kom auðvitað í ljós að þau hafa bara akkúrat engan áhuga á golfi,“ segir Helgi hlægjandi. „ En það getur verið fljótt að breytast, ég held alla vega í vonina.“

Er PGA námið erfitt og langt nám?

„Þetta er þriggja ára nám og er kennt hjá PGA á Íslandi. Það er mikið um verkefnavinnu, bæði verklega og bóklega og því var þetta oft tímafrekt. Aðalfögin í skólanum eru golftækni og golfkennsla. Þá er einnig farið í golfsöguna, golfvallar umhirðu og golfvallargerð. Það er einnig farið í golfreglur, golfáhöldin og kylfuviðgerðir svo eitthvað sé nefnt.“

Helgi segir að stór hluti af náminu sé íþróttafræði og að inn í hana komi ýmis fög eins og líffræði, þjálfunarfræði, kennslufræði og sálfræði. Þá þurfa menn að kunna ýmislegt fyrir sér í golfi því að til þess að komast inn í skólann þurfa nemendur að uppfylla kröfur um ákveðna forgjöf og allir þurfa að skila inn ákveðnu skori til að geta útskrifast.

Námið gaf nýja sýn á golfið

Helgi segir að námið hafi gefið honum allt aðra sýn á golfið enda hafði hann aldrei kennt neinum. „Ég lærði ýmislegt bæði af kennurunum og samnemendum sem hefur nýst mér vel.  Við vorum níu sem útskrifuðumst í sumar og útskriftarhópurinn var fjölbreyttur, samheldinn og skemmtilegur hópur sem leysti verkefni vel af hendi. Við byrjuðum til dæmis á verkefninu Stelpugolf.  Stelpugolf er golfdagur sem við héldum fyrst vorið 2014. Dagurinn er ætlaður til að auka áhuga kvenna á golfíþróttinni.  Við höfum haldið þetta á golfvelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar og fengið til okkar um fimm hundruð stelpur á öllum aldri í stutta kennslu og kynningu.“

Golfið frábært fjölskyldusport

Helgi segir að það sé engin hópur eða aldursflokkur framar öðrum sem sé skemmtilegast að kenna. Svo lengi sem nemendur eru áhugasamir, vilji læra og verða betri kylfingar, sé gaman að kenna því. „Það skemmtilega við golfíþróttina er að hana geta allir stundað og allir keppt við alla. Forgjöfin virkar þannig að byrjendur geta keppt við lengra komna og afreksmenn geta keppt við þá sem eru styttra á veg komnir. Það gerir það að verkum að það geta allir farið saman á völlinn að spilað þó fólk sé á ólíkum aldri og ólíku getustigi. Golfið er þar af leiðandi frábært fjölskyldusport.

Hvernig er aðstaða til æfinga í Grindavík?

„Aðstaða til æfinga mætti vera betri en auðvitað verður maður að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að gera allt í einu.  Í Grindavík er verið að vinna að því að klára golfvöllinn sem hefur nýlega verið stækkaður í átján holur og gera alla aðstöðu í kringum völlinn betri.  Fyrir börn er íþróttastarfið í Grindavík til algjörrar fyrirmyndar og börnum hefur fyrir vikið gefist kostur á því að kynnast golfíþróttinni í meira mæli.“

Frábær íþróttastefna hjá Grindavíkurbæ

Að sögn Helga hefur orðið mikil fjölgun í hópi yngstu kylfingana í Grindavík og segir hann að það sé sérstaklega gaman að kenna þeim. Krakkarnir séu mjög áhugasöm og viljug að læra og vegna frábærrar íþróttastefnu sem rekin er hjá Grindavíkurbæ séu þau oft að koma beint af fótboltaæfingum í takkaskóm á golfvöllinn. Helgi minnist á það að í sumar var í fyrsta skipti í langan tíma leikið í unglingaflokki í meistaramóti klúbbsins þar sem átta drengir spiluðu tuttugu og sjö holu golfmót á þremur dögum þar sem sá elsti var ellefu ára. „Þeir spiluðu frábærlega og ekki verður langt þar til við sjáum þessa stráka spila á unglingamótaröðum hérlendis,“ segir Helgi.

Hefur þú lent í því að geta ekki kennt einhverjum og mælst til þess að viðkomandi selji settið og snúi sér að einhverju öðru?

„Nei sem betur fer ekki. En fyrir suma er golfið erfiðara en aðra og einhverjir fara hægt af stað.  Ef áhuginn er hins vegar fyrir hendi og fólk er duglegt að æfa þá eru þeim allir vegir færir.“

Búinn að leggja keppnisskónum að mestu
Það hefur oft verið sagt að því meira sem golfkennarar kenni, því lélegri verði þeir sjálfur í golfi og Helgi segir að það sé nokkuð til í því. „Núna er ég aðallega í þessu til að hafa gaman af þessu eins og flestir kylfingar. Ég hef lagt keppnisskónum að mestu, að undanskildu meistaramóti og sveitakeppni og hef frekar einbeitt mér að því að hjálpa öðrum að verða betri.“


Hver er svo uppáhaldsgolfvöllur golfkennarans?
„Á Íslandi verður Garðavöllur á Akranesi alltaf uppáhalds enda hef ég komið að ýmsu þar.  Ég vann á golfvellinum, lagði gras og sló völlinn. Það auðvitað vegur þungt. Aðrir vellir á Íslandi sem mér finnst skemmtilegir eru Grafarholtið, Vestmannaeyjar og Grindavík.

Utanlands er það auðvitað St. Andrews þar sem maður fær söguna beint í æð. Legacy völlurinn í Sarasota á Flórída er líka frábær og ég mæli með því að fólk kíki á hann ef það á leið hjá.“

Markmiðið að koma fjölskyldunni í golf

Ferðalög með fjölskyldunni bæði innanlands og utan eru helsta áhugamál Helga fyrir utan golfíþróttina og þá reynir hann að fylgjast með börnum sínum tveimur, þeim Ottó sem er tíu ára og Þórunni Elfu sem er sjö ára, í sínum íþróttagreinum. Þau æfa fótbolta og körfubolta með Njarðvík og eru mjög áhugasöm í sínum greinum, að sögn Helga. „Næst á dagskrá er að reyna að koma krökkunum og konunni minni henni Júlíu, af stað í golfinu enda held ég að ferðalögin verði mun skemmtilegri ef allir geta farið saman í golf,“ segir Helgi brosandi.

Mjög björt framtíð hjá Golfklúbbi Grindavíkur

Helgi er mjög bjartsýnn á framtíð Golfklúbbs Grindavíkur, enda margt mjög áhugavert þar í vændum. „Það er sannarlega björt framtíð hjá golfklúbbnum. Hér hefur verið unnið frábært starf síðastliðin ár. Frábær og flottur golfvöllur er óðum að verða enn betri, flatirnar hérna er með þeim bestu á landinu og kylfingarnir sem og allir þeir sem stjórna eru mjög áhugasamir þannig að ég er mjög bjartsýnn á framtíðina hér.“



Helgi púttar á mótaröðinni fyrir áratug síðan. Hann á glæsilegt vallarmet í Eyjum.

Húsatóftavöllur er skemmtilegur 18 holu golfvöllur í Grindavík.