Ef við mætum hömlulausir til leiks þá trúi ég að við vinnum
Körfuknattleiksþjálfarinn Friðrik Ingi Rúnarsson er staddur í Íslendingastemningunni í Katowice, tveimur tímum fyrir leikinn á móti Luka Doncic og félögum í Slóveníu
„Endirinn á þessum leik á sunnudagskvöld var skandall en ég trúi ekki öðru en leikmenn og þjálfarar séu búnir að hreinsa það úr hausnum og ef þeir mæta óhræddir í dag, hitta á eðlilegan skotdag, þá hef ég fulla trú á að fyrsti sigurinn líti dagsins ljós,“ segir Frikki.
„Stemningin eftir leikinn á sunnudagskvöldið var ansi súr, það verður að segjast eins og er og við Íslendingarnir vorum ekki borubrattir fram eftir degi í gær en svo var bara tekið upp léttara hjal og stemningin hjá okkur á þessari stundu er frábær. Við mætum fylktu liði í þennan leik á eftir, búin að gleyma leiðindunum frá helginni og mætum bjartsýn til leiks.
Þessi töp um helgina voru sár en á sitthvoran mátann. Við köstuðum sigrinum frá okkur á laugardaginn á móti Belgum og gátum engum nema sjálfum okkur um kennt þá en þetta á sunnudagskvöldið var allt annars eðlis, þar lentum við í stöðu sem við gátum ekki ráðið við.“
Brögð í tafli?
Blaðamaður spurði Frikka sem er eldri en tvæ vetur í bransanum, hvort mögulega hefði eitthvað siðlaust og ólöglegt eins og mútur á tyrkneska dómarann, átt sér stað.
„Nei, ég mun aldrei brigsla einum né neinum um slíkt en þessi sirkus sem fór þarna í gang á sunnudagskvöldið var skrautlegur, það er ekki skrýtið að fólk skuli láta sér detta slíkt í hug. Þessir leikir voru eins og svart og hvítt, við vorum yfir allan Belgaleikinn en köstuðum sigrinum frá okkur, vorum svo undir og hátt í tuttugu stigum á móti Pólverjum, sýnum svo frábæran karakter og komum til baka og á þeim tímapunkti sem Pólverjarnir virtust vera komnir niður í kaðlana, breyttist dómgæslan og allir dómar og þeir voru heldur betur vafasamir sumir hverjir, féllu þeim í vil. Hafa ber í huga að við vorum ekki að spila okkar besta leik og höfum ekki enn sýnt okkar rétta andlit, hittnin í Póllandsleiknum var eitthvað skárri en í hinum leikjunum en yfir höfuð höfum við verið að spila illa svo það var frábær karakter sem strákarnir sýndu að koma svona til baka en því miður þá fengu þeir ekki réttlátt tækifæri á að vinna leikinn,“ segir Frikki.
Ef Frikki þarf að þjálfa leikinn
Blaðamaður sem þekkir Frikka nokkuð vel, spurði hann hvernig hann hefði brugðist við ef Craig þjálfari hefði fengið bráða-steinsmugu og KKÍ myndi óska eftir Frikka í þjálfarastarfið í leiknum í dag.
„Fyrirfram eru Slóveníumenn talsvert hærra rankaðir en við en það voru Pólverjarnir líka. Pólland vann Slóveníu í síðustu keppni svo ef við hefðum getað unnið Pólverja, eigum við alveg möguleika á móti Luka Doncic og félögum. Við höfum sýnt á móti álíka þjóðum og Slóveníu að á góðum degi getum við ýmislegt en því miður þá er eins og spennan hafi borið leikmenn ofurliði til þessa, við höfum verið langt frá okkar besta, sem segir kannski ýmislegt um styrk liðsins. Það er ómetanlegt fyrir okkur að vera með leikmann eins og Tryggva að toppa á sínum ferli og í kringum hann eru leikmenn sem eru að spila í sterkum deildum í Evrópu.
Fyrst þú setur dæmið svona upp, að Craig gæti ekki þjálfað þennan leik og ég fengi kallið, þá myndi ég byrja á að reyna komast inn í hausinn á leikmönnum. Fá þá til að gleyma því sem er búið og reyna að koma öllum hömlum af þeim, það er eins og þeir séu með klafa á bakinu og ná ekki að sýna sitt rétta andlit. Ég hef þá trú að leikurinn í dag geti virkað á þá eins og þeir hafi engu að tapa, mæti bara með gleðina og stoltið og ef þeir ná að spila alls óhræddir og spila sinn besta leik, kæmi mér ekki á óvart að fyrsti sigurinn í stórmóti líti dagsins ljós í dag. Mér líður vel farandi inn í þennan leik og ef höldum áfram í þessu draumkennda dæmi sem þú lagðir fyrir mig, þá væri ég brattur að fara þjálfa liðið í dag. Þetta snýst bara um hausinn á þeim, getan er fyrir hendi en leikmenn þurfa bara að losna við klafann af bakinu. Blessunarlega verð samt bara uppi í stúku og mun ekki láta mitt eftir liggja í stuðningnum og hef fulla trú á að Craig, Baldur og Viðar berji eldmóð í okkar leikmenn og fyrsti sigurinn líti dagsins ljós,“ sagði Frikki að lokum.