ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Íþróttir

70-80 Njarðvíkingar í Katowice á Eurobasket
Þetta bakvarðapar landaði ófáum titlunum fyrir Njarðvík á sínum tíma. Ath, myndin er sviðsett.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 31. ágúst 2025 kl. 15:20

70-80 Njarðvíkingar í Katowice á Eurobasket

Friðrik Ragnarsson lék með landsliðinu og á son í liðinu í dag

„Við vorum of staðir í sókninni síðustu fimm mínúturnar, ég veit ekki hvort leikmenn voru orðnir svona þreyttir eða hvað, stemningin færðist öll yfir á Belgana og því miður tókst ekki að landa fyrsta sigrinum en ég hef trú að ef við hittum á eðlilegan skotdag fyrir utan þriggja stiga línuna, eigum við góðan möguleika á sigri í kvöld á móti Pólverjum,“ segir Njarðvíkingurinn Friðrik Ragnarsson en hann bæði lék með og þjálfaði Njarðvík, lék með íslenska landsliðinu og til að fullkomna og loka hringnum, er einn lykilmanna íslenska landsliðsins, Elvar Már, sonur hans og Svandísar Gylfadóttur, sem er að sjálfsögðu líka stödd í Póllandi.

Friðrik á ekki von á öðru en Elvar Már leiki með í dag en hann fékk högg á lærið í gær og blæddi inn á vöðvann, það getur verið hvimleitt en þegar feðgarnir áttu símtal í dag bar ekki á neinu öðru en Elvar mæti galvaskur til leiks í kvöld.

„Elvar Már spilað ekki eins mikið í gær og hann er vanur, hann fékk slæmt högg á lærið og blæddi inn á það, hann kláraði samt leikinn en hvort þetta háði honum eitthvað ætla ég ekki að halda fram. Ef að þessar lokamínútur eru leiknar tíu sinnum og staðan er eins og hún var, þá vinnur Ísland þennan leik oftar en ekki. Ég veit hreinlega ekki hvað gerðist, mér fannst við allt í einu verða staðir í sókninni en hvort belgíski þjálfarinn breytti um varnartaktík þori ég ekki að segja til um. Hvort okkar lykilmenn voru orðnir þreyttir, eins og Tryggvi sem lék nánast allan leikinn, ég veit það ekki en m.v. hversu ofboðslega vel drengurinn var að spila þá skil ég Craig þjálfara vel að spila honum svo mikið, við virkilega vildum sækja fyrsta sigurinn á stórmóti, þarna var gullið tækifæri til þess. Það er í raun magnað að við skyldum hafa kastað sigrinum frá okkur, á sama tíma og við skutum svo illa fyrir utan þriggja stiga línuna. Styrkleiki íslenska landsliðsins hefur alltaf verið skot fyrir utan, á venjulegum degi eigum við að vera skjóta 33-36% í þriggja stiga skotum, við vorum í tæpum 14% í gær! Í mótinu erum við búnir að taka 50 skot og hitta 15%, ef við hittum á eitthvað nálægt eðlilegum skotdegi í kvöld á móti Pólverjum, eigum við alveg að eiga möguleika á að ná fyrsta sigrinum en fyrirfram leit maður á þessa fyrstu tvo leiki sem gæfu mestan möguleika  á sigri en það gekk ekki eftir, þá er bara að spýta í lófana og sækja fyrsta sigurinn í kvöld. Þetta verður hrikalega gaman, í stútfullri höll sem tekur tólf þúsund manns, 1500 Íslendingar á móti Pólverjum, þetta verður eitthvað!“

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Margir Suðurnesjamenn

Frikka líður stundum eins og hann sé staddur á leik í Ljónagryfjunni, já eða nýju Icemar-höllinni.

„Ég held að það séu á bilinu 70-80 Njarðvíkingar hér, fullt af Keflvíkingum og Gummi Braga er að reyna hóa öllum Grindvíkingum saman í myndatöku. Þetta er ofboðslega gaman, það var gaman þegar við vorum saman sem mynduðum byrjunarlið Njarðvíkur eitthvert árið, maður hittir gamla andstæðinga á vellinum en hér í Póllandi erum við öll í sama liðinu. Við gistum á hóteli á besta stað í miðbænum, maður er varla stiginn út af hótelinu þegar bláar treyjur blasa við. Við erum í miðbænum núna, það er frábær stemning á meðal okkar Íslendinganna og bráðlega förum við að ganga fylktu liði í höllina og eitthvað segir mér að einhver ættjarðarlög verði kyrjuð á leiðinni. Áfram Ísland!“ sagði Frikki að lokum.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25