Sigurður Óli, formaður knattspyrnudeildar Umfg: Allir boðaðir á fundinn
„Ég boðaði til fundarins í dag og það fengu allir boð um að mæta en stundum komast menn ekki,“ segir formaður knattspyrnudeildar Umfg, Sigurður Óli Þórleifsson en stjórn knattspyrnudeildar Umfg tók ákvörðun í dag um að reka þjálfara karlaliðsins, Harald Árna Hróðmarsson.
Það vakti athygli að einn stjórnarmanna kom af fjöllum þegar fréttin var borin undir hann en Sigurður Óli vísar gagnrýni Ólafs Más til föðurhúsanna.
„Það vissu allir hvað átti að ræða, einn stjórnarmanna er í Póllandi að styðja íslenska landsliðið, Ólafur Már var í sumarbústað og hefði getað mætt en kaus að gera það ekki.
Því miður hefur gengi okkar hrunið að undanförnu, ég ferðaðist með liðinu á Húsavík í gær og fullyrði að á pappír vorum við með betra lið en að sjá okkar menn ekki kasta sér í tæklingar á fullum krafti eins og leikmenn Völsungs, segir mér að eitthvað sé að. Þessir útlendingar sem voru sóttir í glugganum hafa breytt allri dínamík í liðinu að mati okkar Grindvíkinganna sem erum í stjórn, og við töldum að til að eiga möguleika á að halda sæti okkar, þyrftum við að fara út í þessa sársaukafullu aðgerð.
Ég get ekki hrósað Haraldi Árna meira, topp drengur sem hefur unnið við afar krefjandi aðstæður. Hann snéri gengi okkar við í fyrra og við lögðum upp með nýtt leikskipulag í sumar, fækka útlendingum og byggja þetta á okkar heimastrákum og það gekk mjög vel til að byrja með. Við lentum vissulega í skakkaföllum, lánuðum Sölva út til Austurríkis og misstum marga leikmenn í meiðsli. Við vildum styrkja hópinn eitthvað en það gekk allt of langt að mínu mati og hefur ekki skilað neinu, eins og úrslitin sýna. Við viljum ekki gefast upp og ætlum að berjast til síðasta manns til að halda sæti okkar.
Marko Valdimar Stefánsson og Anton Rúnarsson stýra skútunni til loka tímabils og pabbi Marko, Milan Stefán Jankovic, kemur inn í þjálfarateymið. Ég hef fulla trú á að við náum upp hjarta og baráttu með þessari breytingu, það hefur vantað að undanförnu,“ segir Sigurður Óli.