Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Íþróttir

Brotlending Keflvíkinga
Dagur Ingi skoraði eina mark Keflvíkinga í kvöld. Ljósmynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 28. ágúst 2020 kl. 20:16

Brotlending Keflvíkinga

Fjögurra marka tap gegn baráttuglöðum Leiknismönnum

Keflavík mætti Leikni Reykjavík í kvöld í 14. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Fyrir leikinn var Leiknir í fjórða sæti, fjórum stigum eftir Keflavík.

Harkaleg áminning

Keflvíkingar, sem hafa leikið frábæran bolta í sumar, voru harkalega minntir á að það þarf að hafa fyrir hlutunum í hverjum leik. Leiknismenn voru ráðandi í leiknum og gáfu engin grið. Áður en leiknum lauk hafði Keflavík fengið á sig fimm mörk.

Það tók Leikni tæpan hálftíma að brjóta varnarmúr Keflvíkinga og þá má segja að allar flóðgáttir hafi brostið. Fyrsta markið kom á 28. mínútu, næsta fjórum mínútum síðar (32') og það þriðja á 41. mínútu. Á innan við tíu mínútum voru Keflvíkingar því komnir 3:0 undir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á lokasekúnum fyrri hálfleiks gaf Dagur Ingi Valsson Keflvíkingum vonarglætu þegar hann afgreiddi sendingu frá Joey Gibbs í net Leiknis. 3:1 í hálfleik.

Keflvíkingar sköpuðu sér hættuleg færi strax í upphafi síðari hálfleiks, fyrst var Gibbs nálægt því að setja boltann í netið eftir góða fyrirgjöf frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni svo varði markvörður Leiknis gott skot frá Kian Williams skömmu síðar.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum kom sending inn fyrir vörn Keflavíkur á framherja þeirra sem skoraði fjórða mark Leiknis (56'). Þeir endurtóku leikinn á 62. mínútu, sending inn fyrir og þar mætti sami leikmaður sem skoraði fimmta og síðast mark leiksins.

Lærdómur

Topplið deildarinnar tapaði í kvöld með fjórum mörkum og sennilega hefur tapið hrint þeim harkalega fram af því bleika skýi sem Keflavík hefur svifið á eftir gott gengi síðustu daga og vikur. Þetta er harkaleg áminning og eins og Sigurður Ragnar Eyjólfsson segir í viðtali í Víkurfréttum vikunnar: „Það er lærdómur í öllum leikjum sem við vinnum ekki ...“ þá skulum við vona að Keflvíkingar girði sig í brók og geri betur næst.