ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Íþróttir

„Alveg glatað að þurfa að hætta í fótbolta!“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 11. júní 2022 kl. 08:02

„Alveg glatað að þurfa að hætta í fótbolta!“

Bergsveinn Andri Halldórsson, formaður Knattspyrnufélagsins Hafna, segir félagið vera fyrir stráka sem eru ekki tilbúnir að hætta eftir 2. flokk. „Þetta er meira en bara bumbubolti,“ segir Bergsveinn.


Knattspyrnufélagið Hafnir má segja að sé eitt yngsta íþróttafélag Reykjanesbæjar en félagið var endurvakið á síðasta ári. „Við erum í raun að endurlífga gamalt félag sem spilaði hér áður fyrir aldamót og erum við að blása í það nýju lífi og spilum með sama gamla merkið sem er Jamestown ankerið í Höfnum,“ segir formaður félagsins. Hafnir leika í C riðli 4. deildar karla og þeir eru stórhuga strákarnir sem standa á bak við félagið og fjármagna að öllu leyti sjálfir. Víkurfréttir hittu Bergsvein Andra Halldórsson, formann félagsins, til að fræðast um tilurð þess. Við byrjuðum á að spyrja formanninn hvernig stæði á því að menn hlaupi til og stofni fótboltafélag.

Formaðurinn og varaformaðurinn. Bergsveinn (t.h.) með Daníel Erni Baldvinssyni sem, að þeirra sögn, er gamlinginn í hópnum – Daníel er þrítugur.

„Hvernig stendur á því? Það er alveg svakalegur fjöldi hérna sem vill spila fótbolta, gríðarlegur áhugi bæði úr Keflavík og Njarðvík en svo hafa menn ekkert að fara þegar þeir eru búnir með annan flokkinn,“ segir Bergsveinn en hann er uppalinn Njarðvíkingur. „Það er eiginlega sorglegt að menn þurfi bara að hætta. Við erum með fjörutíu stráka skráða sem félagsmenn hjá okkur og af þeim eru svona þrjátíu virkir. Svo út af vinnu og skóla og þess háttar þá eru um og yfir tuttugu manns yfirleitt að mæta á æfingu hjá okkur. Það er bara svoleiðis á þessu stigi, menn komast ekki alltaf.

Svo veit maður ekki hvað verður eftir sumarið því við erum alltaf að segja að við séum eiginlega of margir, sérstaklega á veturna því við höfum þá bara hálfan völl til að æfa á.“

Eftirsótt að geta spilað fótbolta í Reykjanesbæ

Knattspyrnufélagið Hafnir er fjórða knattspyrnuliðið í Reykjanesbæ en hin eru Keflavík sem leikur í Bestu deildinni, Njarðvík í 2. deild og RB sem spilar í 4. deild eins og Hafnir.

„Við einbeitum okkur að strákum sem eru héðan og langar að spila fótbolta,“ segir Bergsveinn. „Við förum ekki lengra en að Reykjanesbrautinni í leit að mannskap.“

Hvernig hefur ykkur svo gengið á Íslandsmótinu?

„Það hefur gengið ágætlega, við erum reyndar búnir að spila gegn tveimur af bestu liðunum í riðlinum en við höfum unnið einn leik og tapað tveimur.“

Hvert er markmiðið hjá ykkur?

„Markmiðið í ár er bara að klára árið og reyna að halda sér í deildinni. Núna eru fimm riðlar í 4. deildinni og átta lið í hverjum riðli. Á næsta ári verður líka 5. deild svo tvö efstu liðin í hverjum riðli verða áfram í 4. deild en hin færast niður um deild. Við verðum að öllum líkindum í 5. deild á næsta ári því við lentum í frekar sterkum riðli. Við erum að keppa gegn liðum sem hafa spilað saman í mörg ár – en Róm var ekki byggð á einum degi, það er pælingin. Við horfum á þetta félag sem langtímadæmi sem þarf sinn tíma.“

Byrjunarlið Hafna sem vann KB 3:2 með mörkum frá Sigurði Þór Hallgrímssyni (18' og 68') og Magnúsi Einari Magnússyni (66'). Mynd af Facebook-síðu Knattspyrnufélagsins Hafna

Þegar fjórða deildin verður ekki lengur spiluð í riðlum þá verður orðið mikið um ferðalög er það ekki?

„Jú, þú sérð það að við förum ekkert lengra en á Selfoss núna – sem er kostur. Það er mjög erfitt að safna mannskap til að fara eitthvað lengra en það. Núna erum við bara að safna reynslu og ef við föllum í 5. deild þá bara vinnum við hana á næsta ári.“

Eru þetta allt strákar héðan úr bænum?

„Langflestir, stór hluti kemur úr 2. flokki Keflavíkur og Njarðvíkur. Svo eru strákar sem voru í 2. flokki en hættu eftir það. Við erum flestir strákar í kringum tvítugt, svo erum við með einn gamlingja sem er um þrítugt – það þarf líka að vera með reynslubolta í liðinu.“

Þannig að það er allt opið fyrir þessa stráka að komast inn í lið Keflavíkur eða Njarðvíkur?

„Það er ein pælingin, að þeir geti komið hingað til að spila og safna leikreynslu. Svo ef kallið kemur þá hoppa þeir bara yfir. Keflavík og Njarðvík hafa verið með sameinaðan 2. flokk en það hefur aldrei náðst almennilegur hópur, það eru kannski tveir, þrír sem fá séns en hinir sitja eftir. Þegar menn þurfa að hætta í fótbolta þá missa þeir félagsskapinn og hreyfinguna – það er alveg glatað. Þótt þetta sé ekki á hæsta getustigi hjá okkur þá er þetta meira en bumbubolti.“

Hafnir spila sína heimaleiki í Reykjaneshöllinni en þegar VF kíkti á æfingu hjá þeim voru strákarnir að æfa á nýja gervigrasinu aftan við höllina.

„Við fáum að æfa hérna núna, á stórum velli. Þetta er alveg þvílík aðstaða, góður völlur og það að vera svona úti er frábært. Helst myndum við vilja spila alla okkar leiki úti, kannski fáum við það í framtíðinni,“ segir Bergsveinn að lokum og er þotinn á æfingu.

Hafnamenn sýndu tilþrif í reitabolta á gervigrasinu við Reykjaneshöllina.


Knattspyrnufélagið Hafnir | Júní 2022