Íþróttir

„Þetta hafa verið of mörg töpuð jafntefli!“
Sigurður Bjartur hefur verið á skotskónum í sumar, hann er ekki sáttur við þá stöðu sem Grindavík er í en hann heldur í vonina. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 10:12

„Þetta hafa verið of mörg töpuð jafntefli!“

– segir Sigurður Bjartur Hallsson, markaskorari Grindvíkinga.

Tímabilið hjá Grindavík hefur ekki gengið sem skyldi. Að loknum sextán leikjum hafa Grindvíkingar 26 stig og sitja í sjötta sæti Lengjudeildarinnar. Þeir hafa gert átta jafntefli og í sex þeirra hafa þeir náð forystu í leiknum en misst hann niður í jafntefli. Það er athyglisvert að Grindavík hefur gert jafntefli við efstu liðin í deildinn en aðeins náð einu stigi gegn tveimur neðstu liðunum. Sigur í uppbótartíma gegn Fram var því væntanlega kærkomin sárabót. Sigurður Bjartur Hallsson skoraði sigurmark Grindvíkinga en hann hefur verið drjúgur í sumar, er markahæstur í liðinu og á sinn þátt í því að Grindavík á ennþá möguleika á sæti í efstu deild að ári. Við heyrðum í Sigurði sem var í sigurvímu eftir leikinn gegn Fram.

„Maður er í svolítilli sigurvímu núna en tímabilið er búið að vera smá vonbrigði, því er ekki að neita. Ég er ekkert ánægður að vera í sjötta sæti. Þetta hafa verið of mörg töpuð jafntefli hjá okkur, verið að missa sigurstöðu niður í jafntefli,“ segir Sigurður Bjartur Hallsson, leikmaður Grindavíkur í knattspyrnu. „Þetta er langt undir væntingum, við vorum að miða á að fara upp – það er ekkert leyndarmál.“

Sigurður segir Lengjudeildina búna að vera ótrúlega jafna í sumar. „Já, þetta er líklega sterkasta fyrsta deild sem hefur verið.“

– Þú hefur sett nokkur mikilvæg mörk í sumar, ert markahæstur Grindvíkinga. Hvernig líst þér á framhaldið? Þið eigið ennþá möguleika.

„Já, vissulega eigum við möguleika. Það eru ekki nema átta stig í efsta lið – og við eigum innbyrðis leik til góða gegn Keflavík – svo þetta er alls ekkert búið.“

– Markið gegn Fram, það hefur verið sætt að setja hann er það ekki?

„Jú, þetta var mjög sætt og gefur okkur líka líflínu. Þetta var ekkert fallegasta markið sem maður hefur skorað en mark er mark þótt ljótt sé.“

– Hvernig fannst þér leikurinn gegn Fram?

„Þetta leit ekkert vel út á köflum, Framarar voru betri í byrjun seinni hálfleiks. Við björguðum tvisvar á línu í þessum leik, Sigurjón [Rúnarsson] í bæði skiptin. Svo var Vladan að verja vel, hann er ótrúlega góður.“

Er Grindvíkingur

„Núna eru bara átta stig í efsta lið og við eigum leik til góða, auðvitað ekki á Keflavík en hin liðin. Leikurinn gegn Keflavík er næstsíðasti leikurinn sem er svolítið skrýtið, það hefur verið hefð fyrir því að tvær síðustu umferðirnar eru alltaf leiknar á sama tíma. Svo þetta er svolítið óvenjulegt en þetta verður hörkuleikur.“

Í dag vinnur Sigurður Bjartur við efnaframleiðslu hjá fyrirtækinu Optimal, eftir vinnu taka við æfingar. Hann hefur lokið stútentsprófi og á leiðinni í háskólann í haust. „Ég er að pæla í sjúkraþjálfun jafnvel – og seinna að fara í kírópraktorinn,“ segir Sigurður.

„Ég bjó á Stykkishólmi til sex ára aldurs en þá flutti ég til Grindavíkur, ég lít á sjálfan mig sem Grindvíking enda búinn að vera hérna síðan ég man eftir mér. Grindavík er eina liðið sem ég hef spilað með, að undanskildu GG en það telst eiginlega sem Grindavík.“