Íþróttir

„Ef það drepur þig ekki – þá gerir það þig sterkari“
Laugardagur 27. desember 2025 kl. 17:48

„Ef það drepur þig ekki – þá gerir það þig sterkari“

Mario um stríðsárin, körfubolta, Njarðvík, fjölskylduna og erfiðustu (einu) meiðsl ferilsins

Mario er fæddur í smábæ í Króatíu, ólst upp í skugga stríðs, fór frá hernaðarprestaskóla í Wisconsin í bandarískan fyrstu deildar háskóla – og endaði svo í Njarðvík, þar sem hann hefur verið lykilmaður í liði og samfélagi í sjö og hálft ár. Nú stendur hann frammi fyrir sínu stærsta verkefni: að koma til baka eftir slitið krossband.

„Stríðsbarn“ úr Slavonski Brod

Mario er fæddur 7. júlí 1993 í Slavonski Brod í Króatíu. „Bærinn er svona fimmti eða sjötti stærsti bærinn í Króatíu, með u.þ.b. 60–70 þúsund manns,“ segir hann. „Það búa um fjórar milljónir í Króatíu, þannig að miðað við Ísland er landið risastórt en á heimsvísu er þetta enn lítið land.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Hann lýsir sér sjálfum sem „stríðsbarni“. „Stríðið í Júgóslavíu var frá 1991 til 1995 og ég fæddist í miðju stríðinu, n.t. árið 1993. Bæjarfélagið mitt slapp tiltölulega vel, aðalátök voru nær landamærum Króatíu og Serbíu, svona 45 mínútur til klukkustund frá okkur.“

Foreldrarnir fengu þó stríðið beint í fangið. Vinnulíf föðurins breyttist á einni nóttu.

„Pabbi vann í verksmiðju. Þegar stríðið byrjaði fór verksmiðjan úr því að framleiða venjulegar vörur yfir í að búa til hluti fyrir herinn – skotfæri og annað sem þurfti. Nokkrir vinir foreldranna fóru beint í víglínuna. Ég var of lítill til að muna stríðið sjálft en ég man eftir herferðabílalestum og friðargæsluliðum þegar ég var í leikskóla.“

Íþróttagenin: maraþonmamma og markvarðarpabbi

Heima hjá Mario var íþróttaumhverfi frá fyrsta degi.

„Mamma mín var langhlaupari, hljóp maraþon og hálfmaraþon í 20–30 ár,“ segir hann. „Pabbi var markvörður í fótbolta í svona 30 ár. Þannig að íþróttir voru alltaf allt í kringum okkur.“

Hann á sex árum eldri bróður sem fór aðrar leiðir.

„Hann spilaði aðeins körfubolta, hætti svo, kláraði mastersgráðu í rafmagnsverkfræði og kennir nú í framhaldsskóla og við háskóla heima. Foreldrarnir búa enn í Slavonski Brod.“

Fótbolti, handbolti – og svo veðmálið sem breytti lífinu

Eins og svo margir drengir byrjaði Mario í fótbolta.

„Ég spilaði í eitt til tvö ár sem krakki, en fann mig aldrei almennilega. Svo kom Ólympíuleikabólan. Árið 2004 vann Króatía gull á Ólympíuleikunum í handbolta og þá fór bókstaflega hvert einasta barn í Króatíu í handbolta – þar á meðal ég,“ segir hann. „Ég æfði í tvo til þrjá mánuði. Þegar hype-ið dofnaði hættu flestir krakkarnir – líka ég.“

Eftir það tók við nokkurra ára „táningsaldur“ án skipulagðra æfinga: útileikir, vinir og stelpur. Körfuboltinn kemur inn með svolítið óhefðbundnum hætti – í gegnum veðmál.

„Besti vinur minn byrjaði að æfa körfubolta. Við tókum eitthvert smá veðmál sem ég tapaði og „greiðslan“ var að mæta með honum á körfuboltaæfingu,“ segir Mario og hlær. „Það var upphafið. Hann hætti eftir nokkra mánuði en ég hélt áfram.“

Mario var þá 15–16 ára – seint að byrja miðað við flesta aðra. „En ég var alltaf sá hæsti, það hjálpaði.“

Inn í meistaraflokkslið í heimalandinu

Í heimabæ hans var sterkt meistaraflokkslið.

„Bæjarliðið okkar spilaði í efstu deild í Króatíu og var oftast í topp 5–6 sætunum. Eftir fótbolta var körfubolti stærsta íþróttin í bænum,“ segir hann.

„Eftir um tvö ár í æfingum, þegar ég var 17 ára, fengum við þrír yngri leikmenn að koma upp í meistaraflokk. Við spiluðum lítið til að byrja með, fjórar–fimm mínútur í leik, en það var byrjunin.“

Á þessum tíma kynntist hann líka leikmönnum sem síðar léku á Íslandi.

„Til dæmis var Igor Marić í liðinu þegar ég var 17 ára. Hann spilaði seinna með Keflavík og það var gaman að fá hann líka til Íslands.“

Þegar Mario kláraði menntaskóla í Króatíu opnaðist óvænt hurð til Bandaríkjanna.

„2012 fór ég í prep-skóla í Wisconsin – hernaðarprepskóla í miðju engu, bara skógur í kring,“ segir hann. „Ég var seinn í ferlinu og var ekki með marga kosti í boði. Þessi skóli hringdi, bauð mér pláss og ég sagði strax já – fjölskyldan studdi mig 100%.“

Prep-skólinn var eitthvað mitt á milli framhaldsskóla og háskóla: körfubolti og enska nánast allan daginn.

„Þetta var herskóli, bara strákar. Sírena klukkan 5:30 á morgnana, sjö mismunandi einkennisbúningar og þú þurftir að vera í þeim sem var ákveðinn þann dag. Bara eins og í hernum – þú gerir það sem þér er sagt,“ segir hann.

Var þetta erfitt?

„Auðvitað var þetta erfitt, mikill kuldi, snjór og reglur, en í hausnum á mér var þetta bara: Þú þarft að klára þessi átta mánuði og allt eftir það verður auðveldara,“ segir Mario.

„Í dag horfi ég á þetta sem frábæra reynslu. Mikið af sögum og minningum, og smá klassískt: „Ef það drepur þig ekki, þá gerir það þig sterkari.’“

Western Michigan, NCAA og leikur gegn Syracuse

Eftir prep-skólann fékk Mario nokkur tilboð og valdi Western Michigan University, Division 1-skóla í Mid-American Conference.

„Fyrsta árið spilaði ég lítið, en við unnum samt deildina, fórum í NCAA-úrslitin og mættum Syracuse,“ rifjar hann upp.

„Það var mögnuð upplifun að spila fyrir framan rúmlega 20 þúsund manns, fljúga í einkaþotu, allur pakkinn. Þetta eru hlutir sem maður gleymir ekki.“

Eftir tvö ár þar fékk hann meiri leikmínútur með því að skipta um skóla.

„Ég fór yfir í Sacred Heart University í Connecticut, líka Division 1, en í aðeins veikari deild. Þar fékk ég meira að spila,“ segir hann.

Þar þurfti hann þó fyrra árið að sitja út – reglur D1 eru að ef skipt er um skóla í sömu deild er krafist eins árs biðtíma.

„Ég æfði bara og lærði, spilaði ekki leiki. Svo spilaði ég tvö tímabil þar og kláraði gráðu í tölvunarfræði.“

Samtals var hann sex ár í Bandaríkjunum og lauk námi 2018, ný orðinn 25 ára.

„Ég ætlaði bara að prófa – og er ennþá hér.“

Að loknu námi var plan Mario skýrt: prófa atvinnumennsku – og hafa alltaf menntunina í bakhöndinni.

„Ég hugsaði: Ef þetta gengur þá er það frábært, ef ekki þá hef ég gráðu í tölvunarfræði,“ segir hann.

Mjög snemma sumarið 2018 kemur tilboð frá Njarðvík.

„Ég ákvað að koma í eitt tímabil. Fyrsta árið var bara körfubolti, ekkert annað,“ segir hann.

Tímabilið gekk frábærlega. Einar Árni tók við liðinu, Jeb Ivey var á sínum stað og Elvar Már kom heim frá Frakklandi.

„Við vorum með ótrúlega sterkt lið, líklega það besta í deildinni. Við komumst 2–0 yfir gegn ÍR í 8-liða úrslitunum en svo töpuðum við þremur leikjum í röð. Það særir enn,“ segir Mario hreinskilnislega. „En svona er fegurð – og grimmd – íþróttanna.“

Njarðvík vildi strax halda honum áfram og hann skrifaði undir árs framlengingu.

Vinnan með „erfiðu krökkunum“

Á öðru árinu fór Mario að vinna samhliða körfuboltanum.

„Ég vann í Björkinni, við hliðina á Njarðvíkurskóla, með krökkum sem áttu í miklum hegðunarerfiðleikum,“ segir hann. „Ekki krakkar með sérþarfir – heldur þá sem slást mikið og eru erfiðir, geta ekki verið inni í bekk á meðan ástandið er hvað verst.“

Yfirleitt voru tveir til þrír starfsmenn með 2–4 börn.

„Við bjuggum til dagskrá, hjálpuðum þeim í gegnum daginn og reyndum að koma þeim aftur inn í skólann,“ útskýrir hann. „Stundum þurftum við að halda aftur af þeim, svo það voru bara karlmenn að vinna þarna. Slagsmál gerðust ekki á hverjum degi – en það var hluti af starfinu að taka á slíkum málum þegar þau komu upp.“

Króatísk eiginkona, barn og lífið á Suðurnesjum

Mario kom einn til Íslands, en ekki lengi. Hann fór alltaf heim til Króatíu yfir sumartímann og það var einmitt þar sem hann kynntist framtíðarkonu sinni, Valerija, og þau giftu sig í fyrra.

„Við hittumst eitt sumarið, í gegnum sameiginlega vini, bara nokkrum dögum áður en ég flaug aftur til Íslands,“ segir hann. „Við héldum sambandi, ég kom heim um jólin, hún kom í heimsókn hingað. Smám saman fórum við að vera saman af alvöru.“

Þau stóðu svo frammi fyrir klassískri „gera eða gleyma“-ákvörðun.

„Við sögðum: Ef þetta á að vera alvara, þá þarf annað okkar að flytja. Hún flutti hingað fyrir um þremur og hálfu ári.“

Í dag vinna þau bæði á Íslandi, sonur þeirra er á leikskóla og lífið er komið í fastar skorður í Reykjanesbæ.

Sonurinn heitir Matias Már.

„Í Króatíu er nafnið Matias til, þótt það sé ekki rosalega algengt. Við vildum króatískt eigið nafn en ákváðum að gefa honum íslenskt millinafn, þar sem hann fæddist hér og við búum hér, hann heitir því Matias Már Matasovic – þrefalt M,“ bætir hann brosandi við.

Konan hans starfar hjá Reykjanesbæ, vinnur í Icemar-höllinni og er samhliða í fjarnámi í sálfræði frá háskóla í Króatíu. Fyrsta árið á Íslandi spilaði hún í úrvalsdeild í blaki með Álftanesi, en hætti þegar hún varð ólétt.

Frá „erfiðu krökkunum“ í NOC hjá Verne

Síðustu þrjú ár hefur Mario unnið hjá Verne, gagnaveri á Ásbrú.

„Ég vinn í NOC – netrekstrarstjórn – með tíu stórar skjámyndir fyrir framan mig og vakta alls konar kerfi og innviði,“ segir hann.

Starfið smellpassar við bakgrunn hans í tölvunarfræði og smá rafmagnsverkfræði.

„Mér finnst þetta gaman. Það er alltaf einhver ný áskorun og við erum með frábært teymi. Ég er heppinn með að vera þar.“

Um árabil þjálfaði hann líka yngri flokka hjá Njarðvík, frá körfuknattleiksskóla upp í eldri árgangana, en hætti þegar sonurinn fæddist og verkleg vinna og úrvalsdeildarkörfubolti tóku restina af sólarhringnum.

Íslenskur ríkisborgari – og landsliðshringing rétt áður en allt breytist

Mario hefur verið á Íslandi í meira en sjö ár, í sama félagi og sama bæ. Í sumar fékk hann íslenskan ríkisborgararétt.

„Því lengur sem þú ert hér, því fastari verða ræturnar,“ segir hann. „Lífið okkar er hér núna – við vinnum bæði hér, sonur okkar er á leikskóla og ég hef verið í sama liði og í sama bæ frá upphafi.“

Ríkisborgararétturinn opnaði nýja dyr: landsliðið.

„Nokkrum dögum fyrir meiðslin fékk ég símtal um að ég væri valinn með íslenska landsliðinu til að leika gegn Ítalíu og Bretlandi,“ segir hann. „Það var rosalegt augnablik fyrir mig.“

Meiðslin: „Ég fann hnéð fara út… og aftur inn“

Svo kom dagurinn sem breytti öllu – leikur í október þar sem Mario sleit krossband.

„13. október,“ segir hann. „Ég fann hnéð fara út og svo aftur inn. Þú finnur beinin hreinlega renna. Þá veit maður að þetta er alvarlegt. Ég er ekki fyrsti maðurinn sem lendir í þessu og ekki sá síðasti,“ segir hann. „Þetta er hluti af íþróttum. Spurningin er bara: hvernig bregst þú við?“

Hann vissi strax að um alvarleg meiðsl væri að ræða, þótt vonin lifði um stund.

„Allir voru að segja: „Þetta er líklega krossbandið“, og heima hjá mér um kvöldið var ég enn að vona að það væri eitthvað minna.“

Daginn eftir fór hann í segulómun og tveimur dögum síðar var niðurstaðan ljós: fremra krossbandið var slitið, með smá tognunum og beinsárum ofan á.

„Fyrstu dagana var ég mjög bólginn og gat varla gengið. Læknirinn vildi bíða í tvær vikur þar til bólgan færi niður. Núna er aðgerðardagur kominn – á mánudaginn.“ [Mánudagur 8. desember]

„Ég tapa þyngd þegar ég hætti að æfa.“

Mario hefur nánast aldrei verið meiddur áður og líkamsformið hefur alltaf verið hans styrkleiki.

„Vinirnir öfunda mig mikið,“ segir hann og hlær. „Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að þyngjast, ekki að léttast. Síðan ég meiddist hef ég lést um þrjú kíló.“

Hann hefur leikið nánast alla leiki, hvort sem er í móti eða æfingaleikjum, síðan hann kom árið 2018.

„Einhver reiknaði þetta: frá því ég kom til Njarðvíkur hefur liðið spilað rúmlega 200 leiki í deild, bikar og æfingaleiki. Ég hafði misst af kannski þremur eða fjórum þar til núna,“ segir hann.

Sálfræðingur eftir meiðsli: „Fyrstu tvo dagana var þetta drulluerfitt.“

Mario felur ekki að þetta voru vonbrigði.

„Fyrstu tvo dagana var þetta rosalega erfitt. Ég var í sársauka, síminn stoppaði aldrei – skilaboð og símtöl á nokkurra mínútna fresti – og tilfinningarnar út um allt,“ segir hann.

„En svo breytti ég um fókus. Nú hugsa ég bara: Ég vil klára aðgerðina, svo byrjar endurhæfingin.“

Hann segir að reynslan úr hernaðarprepskólanum, NCAA og erlendu flakki hjálpi núna.

„Ég hef farið í gegnum erfiða hluti áður. Þú ferð bara aftur í sama gír: þetta er verkefni, þú klárar það.“

8–12 mánuðir – og „engin ástæða til að flýta sér“

Læknar tala um hefðbundinn 8–12 mánaða endurhæfingartíma eftir krossbandsslit.

„Maður sér stráka úti í Evrópu og NBA koma til baka eftir 6–7 mánuði, aðra eftir 12–13. Það fer eftir aðgerð, líkamsástandi, hversu vel þú vinnur og hvernig líkaminn bregst við,“ segir Mario.

„Ég vona að allt sem ég hef gert í gegnum ferilinn – að passa líkamann, æfa vel – hjálpi mér núna.“

Þessi vetur er þó afskrifaður.

„Tímabilið er 100% búið hjá mér, sem er í raun ákveðinn „lúxus“ – það er engin ástæða til að flýta sér,“ segir hann. „Ég mun hafa 10–11 mánuði fram að næsta tímabili. Markmiðið er að vera klár þá. Ef það gerist fyrr, er það frábært. Ef það verður nokkrum vikum seinna, þá er heimurinn samt ekki að farast.“

Njarðvík án Mario – „next man up“

Meiðsl Mario breyta væntingum til Njarðvíkur, en hann sér líka tækifæri.

„Auðvitað lækkar fólk væntingar þegar einn af aðalleikmönnunum dettur út, það er bara eðlilegt,“ segir hann. „En fyrir hópinn er þetta líka tækifæri fyrir aðra til að stíga upp. Strákar eins og Julio fá meiri mínútur og yngri leikmenn bera meiri ábyrgð. Þetta er klassískt „next man up“.“

Meðan aðrir hugsa um titilbaráttu horfir Mario beint í spegilinn: aðgerð, endurhæfing og löng framhaldssaga í íslenskum körfubolta.

„Planið er alveg skýrt,“ segir hann. „Aðgerð, endurhæfing – og svo koma sterkur til baka. Ef líkaminn leyfir, þá langar mig að spila 5–10 ár í viðbót í toppkörfubolta á Íslandi. Það er markmiðið,“ sagði Mario að lokum.