Fréttir

Styrkjum úthlutað fyrir 50 milljónir króna úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja
Ljósmynd: Uppbyggingarsjóður Suðurnesja
Föstudagur 16. febrúar 2024 kl. 18:39

Styrkjum úthlutað fyrir 50 milljónir króna úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum til 38 verkefna árið 2024 að upphæð samtals 51.700. Styrkbeiðnir voru 73 talsins og hljóðuðu upp á rúmlega 180 milljónir króna.

Stærsti styrkurinn í sögu sjóðsins kr. 5.000.000 fór til verkefnisins Vegskáli en markmið þess er að þróa einingar sem hægt er að steypa og reisa með stuttum fyrirvara yfir mikilvæga innviði til verndar gegn hraunflæði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður sem hefur það verkefni að styðja við verkefni sem falla að Sóknaráætlun Suðurnesja á sviði menningar, atvinnu og nýsköpunar. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) annast umsýslu sjóðsins og er auglýst eftir styrkumsóknum einu sinni á ári.

Frestun vegna óvissu í Grindavík

Auglýst var eftir styrkumsóknum 15. október 2023 og var opið fyrir umsóknir til 31. desember en vegna óvissuástands í Grindavík var ákveðið að lengja umsóknarfrestinn um 6 vikur. Einhver verkefni úr Grindavík urðu fyrir valinu og fá styrk úr sjóðnum í ár,  en það eru verkefni sem ekki eru bundin staðsetningu í bænum. Stjórn Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja hvetur forsvarsaðila verkefna sem ekki fengu styrk í ár vegna óvissu í Grindavík að sækja aftur um í sjóðinn að ári og verður tekið tillit til þess við val sjóðsins.

Því miður þurfti að fresta úthlutanahátíðinni í þrígang, fyrst vegna óvissuástands í Grindavík, síðan vegna veðurs og síðast vegna hitaleysis á Reykjanesskaganum. Í ljósi þessara ástæðna var ákveðið að úthlutunahátíðin færi ekki fram í ár og mikilvægt væri að byrja ferlið sem fyrst og skrifa undir samninga á næstu dögum svo verkefnin gætu hafist.

Skiptingin milli flokka er með þessum hætti:

Stofn og rekstur fá úthlutað 1.500.000. kr.

Menning og listir fá úthlutað 23.080.000. kr.

Atvinnu- og nýsköpun fær úthlutað 27.120.000. kr.

Menningarverkefnið Safnahelgi á Suðurnesjum er á þriggja ára samningi og fær nú úthlutað þriðja árið af samningnum eða kr. 3.000.000.