Stóri Lottópotturinn til Suðurnesja
Tveir spilarar voru heppnastir allra í Lottó um síðustu helgi þegar þeir skiptu með sér sjöföldum fyrsta vinningi og hlutu rúmlega 79,3 skattfrjálsar milljónir hvor. Annar vinningshafinn er búsettur á Suðurnesjum, hinn á Norðurlandi og báðir keyptu miðana sína á netinu. Hvorugt þeirra vissi af vinningnum þegar við náðum í þau. Gleðisímtölin bárust á mánudagsmorgni og voru í senn óvænt og eftirminnileg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri Getspá.
Fyrri vinningshafinn, tæplega fimmtug fjölskyldukona, brast í grát af gleði þegar hún fékk fréttirnar í símanum. „Þessi vinningur gæti hreinlega ekki komið á betri tíma,“ sagði hún. Hún valdi tölurnar sjálf, eins og hún gerir alltaf, en í þetta skiptið horfði hún á mynd af föður sínum sem féll frá fyrr á árinu og bað hann um að hjálpa sér. „Þessi mánudagur er örugglega minn besti eða næstbesti mánudagur til þessa,“ bætti hún við og hló: „Vá, hvað minn maður verður ánægður með mig núna!“
„Nú get ég loksins borgað upp námslánin og hjálpað börnunum með þeirra nám - en fyrsta verkið verður að endurnýja bílinn sem hefur beðið alltof lengi,“ sagði hún og bætti við að hún trúði varla eigin heppni.
„Getum við í alvörunni núna stækkað við okkur?“
Hinn vinningshafinn er karlmaður rétt um fertugt. Fjölskyldan hefur stækkað ört og því lengi verið kominn tími á stærra heimili. Þau hjónin hafa verið að skoða allmikið undanfarið en sáu ekki fram á að ráða við kaupin þar til nú. „Getum við í alvörunni núna farið og stækkað við okkur?“ var fyrsta setningin sem eiginkonan sagði við hann þegar gleðifréttirnar bárust. Með vinningnum breytist staðan algjörlega, og fjölskyldan getur nú loksins látið drauminn um stærra heimili rætast á öruggum grunni.
„Þetta breytir öllu – nú getum við loksins látið drauminn um stærra heimili rætast,“ sagði hann.
Við óskum vinningshöfunum báðum innilega til hamingju og þökkum um leið veittan stuðning – sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu, þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.





