Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Sterk efnahagsleg staða Suðurnesjabæjar
Frá fundi í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 14. maí 2020 kl. 10:43

Sterk efnahagsleg staða Suðurnesjabæjar

Suðurnesjabæjr skilaði 37.2 milljón króna rekstrarafangi árið 2019 samkvæmt nýsamþykktum ársreikningi sveitarfélagsins. Rekstrartekjur í samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta námu 4.014,7 milljónum króna. Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur lýst yfir ánægju með ársreikninginn.

 „Það gleður okkur auðvitað að hafa náð þessum góða árangri. Sveitarstjórnarlög segja að skuldaviðmið sveitarfélaga megi ekki vera meira en 150% á meðan skuldaviðmið okkar er ekki nema 66% og lækkaði borið saman við árið á undan. Okkur hefur tekist að leysa fjölmörg krefjandi verkefni undanfarið og langar mig að þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

 Óvenjulegar aðstæður hafa skapast hér á landi sökum COVID-19 vírussins. Það er markmið Suðurnesjabæjar að veita íbúum sveitarfélagsins sem besta þjónustu og að búsetuskilyrði í Suðurnesjabæ séu sem best þrátt fyrir óvissuástand. 

 „Við fórum fjárhagslega sterk inn í þetta ár sem mun muna miklu. Við erum í sterku sambandi við nágrannasveitarfélögin, stjórnvöld og atvinnurekendur á svæðinu. Ég efast ekki um að með því að snúa bökum saman tekst okkur að vinna vel úr þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin,“ segir Magnús. 

 Suðurnesjabær varð til þegar að Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðust í eitt sveitarfélag þann 10. júní 2018.

Í bókun bæjarstjórnar um ársreikning 2019 segir:

Ársreikningur 2019 nær yfir fyrsta heila starfsár Suðurnesjabæjar. Niðurstöður í rekstri málaflokka var í góðu samræmi við fjárheimildir og heildar niðurstöður nálægt fjárhagsáætlun ársins. Bæjarstjórn lýsir ánægju með þá niðurstöðu og þakkar öllum stjórnendum sveitarfélagsins fyrir þeirra framlag við góðan rekstur. Sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins birtist m.a. í því að skuldaviðmið samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum í árslok 2019 er 66% og hefur lækkað frá fyrra ári. Bæjarstjórn lýsir ánægju með þessa niðurstöðu en samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga má skuldaviðmið ekki vera yfir 150%.

Á árinu 2019 var haldið áfram því verkefni að móta nýtt sveitarfélag og því verkefni er ekki lokið. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur lagt af mörkum mikla vinnu við þetta verkefni og fyrir það þakkar bæjarstjórn. Jafnframt hafa fjölmargir aðrir aðilar komið að þeirri vinnu og það er mat bæjarstjórnar að vel hafi tekist til við að leysa úr fjölmörgum og ólíkum verkefnum í tengslum við mótun á nýju sveitarfélagi.

Framundan eru krefjandi tímar með miklum áskorunum í starfsemi og rekstri Suðurnesjabæjar. Það er markmið bæjarstjórnar að Suðurnesjabær veiti íbúum sínum sem mesta og besta þjónustu, þannig að búsetuskilyrði í Suðurnesjabæ verði áfram eins og best er á kosið. Ársreikningur ársins 2019 felur í sér sterka efnahagslega stöðu Suðurnesjabæjar og á því mun bæjarstjórn byggja til framtíðar.