Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Mikill gangur í uppbyggingu og fegrun Grindavíkur
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 31. október 2020 kl. 07:28

Mikill gangur í uppbyggingu og fegrun Grindavíkur

Undanfarin misseri hefur verið mikið um framkvæmdir hjá Grindavíkurbæ. Hvort sem er í uppbyggingu nýrra stofnana eins og íþróttamannvirkja, skólabygginga, gatnagerð, lagnakerfi eða fegrun umhverfis. Á vef bæjarins er góð samantekt yfir það sem unnið hefur verið og það sem er í pípunum.

Hópsskóli – annar áfangi

Framkvæmdir við annan áfanga Hópskóla eru að hefjast þessa dagana en búið er að undirrita verksamning við Grindina ehf. um framkvæmdina. Framkvæmdin snýr að byggingu fjögurra heimastofa og kennslustofa fyrir smíði, heimilisfræði, myndmennt og textílhönnun. Stækkunin, sem er á einni hæð með kjallara undir hluta byggingar, mun tengjast núverandi skólabyggingu í austri. Gert er ráð fyrir að taka áfangann í notkun í byrjun árs 2021.

Framkvæmdir við fráveitukerfi

Fráveitumál sveitarfélaga er víða ábótavant. Til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til fráveitu þarf Grindavíkurbæjar að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir við fráveitukerfið og er gert ráð fyrir að verkefnið verði áfangaskipt til næstu sex til tíu ára. Fyrsti áfangi er að koma útrás frá iðnaðarhverfinu út fyrir sjóvarnargarða að austanverðu. Nýverið var farið í verðkönnun um jarðvinnu vegna áfanga eitt og hefur bæjarráð samþykkt tilboð Jóns og Margeirs ehf. í framkvæmdina sem gert er ráð fyrir að ljúki á árinu 2020. 

Framkvæmdir við gatnakerfið

Unnið hefur verið við gatnagerð við götu í Víðigerði og Ufsasundi undanfarnar vikur og mánuði og eru framkvæmdir á lokametrunum. Verktakarnir G.G. Sigurðsson ehf. (Víðigerði) og Jón og Margeir ehf. (Ufsasund) vinna við framkvæmdirnar.

Töluvert var unnið við malbikunarframkvæmdir í sumar með verktakanum Hlaðbær-Colas og ber það helst að nefna malbikun gatna í Víkurhópi og Norðurhópi. Unnið var við fyrsta áfanga við að skipta götulýsingu í bæjarfélaginu yfir í LED, gert er ráð fyrir að götulýsing í bæjarfélaginu öllu verði orðin LED á næstu tveimur til þremur árum.

Þessa dagana er unnið að ákvörðun um áfangaskiptingu gatnagerðar í nýju hverfi í Grindavík, Hlíðarhverfi. Er þetta liður í vinnur fyrir fjárhagsáætlun næsta árs. Vonir standa til um að hægt verði að úthluta hluta lóða í hverfinu um eða eftir mitt næsta ár. Niðurstöður verðkönnunar vegna fyrsta áfanga í hönnun gatnakerfisins í nýju hverfi, Hlíðarhverfi, liggja fyrir. Bæjarráð hefur samþykkt að semja við lægstbjóðanda, Tækniþjónustu SÁ ehf., um hönnunina.

Fegrun umhverfis

Framkvæmdum við Hreystigarð við íþróttamiðstöð mun ljúka á næstu vikum. TG raf ehf., Lagnaþjónusta Suðurnesja ehf., G.G. Sigurðsson ehf., Grindin ehf. og HH steinar ehf. eru verktakar sem komið hafa að framkvæmdinni ásamt því að átakshópur Vinnuskólans lagði hönd á plóg við verkefnið.

Átakshópur vinnuskólans vann mikið og gott starf við fegrun bæjarins í sumar undir styrkri leiðsögn starfsmanna þjónustumiðstöðvar Grindavíkurbæjar og HH steina ehf.

Meðal verkefna voru:

Gangstéttir hellulagðar í Efrahópi, við Víkurbraut og Ránargötu.

Viðhald gönguleiða við Þorbjörn.

Torfi komið fyrir á svæðum við stofnanir og græn svæði bæjarins.