Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gosið stöðugt síðan í gær
Við gosstöðvarnar síðdegis í gær. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 26. nóvember 2024 kl. 16:08

Gosið stöðugt síðan í gær

Virkni á gosstöðvunum hefur verið frekar stöðug síðan í gær. Gosórói hefur haldist jafn síðan í gær, í takti við stöðuga gosvirkni í gígnum í nótt. Virknin er nú eingöngu bundin við nyrsta gíginn sem er beint austur af Stóra-Skógfelli. Megnið af hrauninu frá honum rennur til austurs í átt að Fagradalsfjalli. Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu Íslands.

Ekki er hægt að útiloka að enn séu hreyfingar undir storknuðu yfirborði í hraunbreiðunni sem fór til vesturs í átt að Svartsengi þrátt fyrir að engar sjáanlegar hreyfingar hafi sést á þeim hluta hraunbreiðunnar í nótt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samfara minnkandi gosvirkni dregur úr sigi umhverfis Svartsengi. Þó er ekki hægt að fullyrða að landris sé hafið að nýju þrátt fyrir að síðustu mælipunktar á GNSS-mælum sýni breytingar í þá átt. Þar sem breytingar milli daga eru það litlar er ekki hægt að draga ályktanir af einstaka punktum, heldur þarf að skoða breytingar yfir nokkurra daga tímabil. Í síðustu tveim gosum dró hægt úr sigi í rúma viku áður en landris varð mælanlegt að nýju. Það er því frekar líklegt að það þurfi allt að viku af viðbótarmælingum áður en hægt verður að meta hvort áframhald verði á landrisi og þar með kvikusöfnun undir Svartsengi

Fagridalur26112024

Mynd úr vefmyndavél VÍ frá því í morgun sem sýnir virka gíginn og hraunstrauminn frá honum. Myndavélin er staðsett í Fagradal rétt norðan Fagradalsfjalls.

Meðfylgjandi kort sem byggt er á gögnum úr loftmyndaflugi Náttúrufræðistofnunar og á gervitunglagögnum frá Iceye sýnir útbreiðslu hraunbreiðunnar sem hefur myndast í þessu eldgosi, eins og hún var kl. 02:49 í gær 25. nóvember.

LavaFlowMap_Icelandic_20241126